26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4002 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

45. mál, Iðnþróunarstofnun Austurlands

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við málið, því að það hefur þegar verið rætt við fyrri umr. Reyndar hefur það verið rætt oftar en einu sinni, því það hefur verið flutt áður. Till. meiri hl. iðnn. um að vísa málinu til ríkisstj. er auðvitað aðeins leið til þess að fella frv. Það er greinilegt að meiri hl. er ekki við því búinn að vilja fara inn á þá braut sem mörkuð er í frv.

Í sambandi við þær umsagnir, sem gerð var grein fyrir, frá nokkrum landsstofnunum sem hafa með iðnaðarmál að gera er alveg augljóst að þar er ríkjandi röng skoðun á því máli, sem hér er verið að ræða um. Auðvitað er ekki ætlunin með þessu frv., þó að það yrði samþ., að taka neitt verkefni af Iðnþróunarstofnun Íslands, Rannsóknaráði ríkisins eða öðrum slíkum stofnunum, heldur — eins og greinilega kemur fram bæði í frv. og grg. sem því fylgir — er hér gerð tilraun ti1 þess að finna leið sem mætti duga til þess að örva iðnaðaruppbyggingu í einum landsfjórðungi.

Þó að frv. sé aðeins miðað við einn landsfjórðung, þá gefur það auga leið, eins og ég hef sagt áður, að fyllilega kæmi til mála síðar að sams konar stofnanir kæmu upp í öðrum landsfjórðungum. Það er vissulega vandamál, hvernig eigi að taka á því verkefni að landsbyggðin fylgi með í iðnaðaruppbyggingu. Eins og segir í grg. með frv., þá er það skoðun flm. að helst verði tekist á við það vandamál að efla iðnað á Austurlandi þannig að umtalsvert verði á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. með sameiginlegu átaki heimamanna og stuðningi ríkisins.

Það er eðlilegt að samtök sveitarstjórnarmanna á Austurlandi skilji þetta mætavel, að þátttaka Austurlands í iðnaðarþróun í landinu verður ekki nema eitthvert afl komi til. Þau taka því undir stefnu frv. En auðvitað er þessu frv. ekki á neinn hátt ætlað að raska starfssviði Iðnþróunarstofnunar Íslands, en Iðnþróunarstofnun Íslands hefur starfað í allmörg ár og fleiri þessara landsstofnana og lítið hefur miðað áfram í iðnaðarþróun landsbyggðarinnar, nema aðeins í sambandi við þann þjónustuiðnað sem leiðir af rekstri annarra atvinnugreina.

Ég skal ekki fara að endurtaka hér það sem ég hef sagt áður um þetta mál. Það er skoðun mín að mjög aðkallandi sé, ef menn meina eitthvað með því að við eigum að leggja verulega meiri áherslu í þjóðarbúskap okkar á iðnað og iðnþróun, að taka á þessum málum með sérstökum hætti varðandi þátt landsbyggðarinnar sem heildar. Annars verður þetta eins og það hefur verið, að landsbyggðin gefur sig eingöngu að landbúnaði og sjávarútvegi og þessum gömlu undirstöðugreinum. Hún getur ekki orðið með í neinni iðnþróun, ef ekki kemur til eitthvert sérstaki átak í þessum efnum.

Ég hafði áður bent alveg sérstaklega á það sem fordæmi annars staðar frá, að þó að á landsbyggðinni séu margir staðir og smáir, þá er hægt með ákveðnu skipulagi og ákveðinni aðstoð ríkisvaldsins að virkja í sameiginlega iðnaðarframleiðslu starfskrafta margra byggðarlaga. Þetta er þekkt í Noregi og víðar annars staðar, þar sem mörg byggðarlög standa að einni sameiginlegri iðnaðarframleiðslu. Þannig gæti vinnuaflið nýst og væri í samræmi við aðstöðu. Hvort nákvæmlega er valin sú leið, sem lögð er til í þessu frv., það er annað mál. En ég held að það hljóti að koma að því, að hv. alþm. viðurkenni að brýn þörf er á því, að landsbyggðin geti verið með í iðnaðaruppbyggingu í landinu og það þurfi að gera sérstakt átak til þess að þar geti verið um eðlilegan iðnað eða iðnaðarframleiðslu að ræða. Það þarf að efna til samvinnu með þeim stöðum, sem þarna eiga hlut að máli, og hefja sameiginlega framleiðslu.

Það er ekkert við því að segja, það verður að hafa sinn gang, þó að frv. finni ekki náð fyrir augum meiri hl. Alþ. En erfitt á ég með að trúa því, að meiri hl. Alþ. sé ekki sammála þeirri meginstefnu, sem kemur fram í frv., eða því, að reynt sé að finna ráð til þess að leysa þann vanda sem frv. er ætlað að leysa.

Ég þakka svo fyrir afgreiðslu á málinu. Það gengur væntanlega undir atkv. Meiri hl. verður að ráða í þessu eins og öðrum málum.