03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. hefur enn einu sinni birt þjóðinni boðskap sinn. Lífdagar hæstv. ríkisstj. fjara nú óðum út og vonandi verður núv. ríkisstj. ekki endurreist að loknum kosningum að vori.

Þið, góðir hlustendur, sem hlýtt hafið á boðskapinn, vitið nú hverju þið eigið von á af hálfu ríkisstj. á næstu mánuðum. Ef dregið er saman í fáar setningar það sem helst má taka mark á í ræðunni, eru það fyrst og fremst niðurlagsorð ræðunnar, en þau voru á þessa leið:

„Efnahagsstefnan, sem hér er lýst, byggist á forsendum sem geta brugðist. Ef það gerist verður að grípa til enn öflugri ráðstafana.“ Og taki menn nú eftir: „Þjóðin öll verður að vera undir það búin.“

Þessi varnaðarorð forsrh. minna á allan þann viðbúnað sem á sér stað vegna darraðardansins við Kröflu af og til. Öll þjóðin er hvött til viðbragðs- og varnarstöðu, aðeins er nú beðið viðvörunarmerkisins. Í ræðu forsrh. gengur það eins og rauður þráður að efnahagsmálin séu komin á heljarþröm, og auðvitað er spurt: Hvers vegna? Forsrh. og ríkisstj. hafa svarið á reiðum höndum. Það kom fram í ræðunni og svarið var: Allt er að fara í kaldakol vegna kauphækkana launafólks á árinu. Launafólkið hefur tekið of mikið til sín, segir forsrh. Kaupgetan verður því of mikil og það leiðir af sér ofþenslu í efnahagsmálum og því verður að draga úr fjárfestingu opinberra framkvæmda, fyrst og fremst úti á landsbyggðinni. Það er allt í lagi með eins og eitt seðlabankahús hér í Reykjavík upp á rúmar 1000 millj., eitt stykki Víðishús upp á 700 millj., við sjáum í gegnum fingur með það, en samdráttur úti á landi, það er ráðið, segir ríkisstj. — og væntanlega Gunnlaugur Finnsson líka því að bann hefur sjálfur samþykkt kaupin á Víðishúsinu. Hafa menn heyrt þetta áður? Hljómar þetta ekki eins og gömul plata sem spiluð hefur verið aftur og aftur, engir lærdómar, ekkert nýtt, alltaf í sama farinu. Hvað finnst ykkur, góðir hlustendur? Er það rétt hjá forsrh., að efnahagskerfið sé að sporðreisast vegna þess að fólkið í frystihúsunum, sjómennirnir, iðnverkafólkið eða yfir höfuð talað hinn almenni launamaður taki of mikið til sin? Auðvitað ekki. Það eru aðrir í þjóðfélaginu sem taka of mikið, og það er forsrh. og ríkisstj. og raunar samtryggingarkerfi gömlu flokkanna sem gætir hagsmuna þeirra aðila.

Það virðist ætla að verða erfitt að koma ráðamönnum í skilning um þau algildu sannindi, að því betri sem launakjör fólksins í landinu eru, þeim mun farsælla er þjóðfélagið í heild. En þetta þýðir að sjálfsögðu gerbreyttan hugsanagang valdhafa. Það er skýlaus krafa allra landsmanna, að ráðamenn þjóðfélagsins fari að stjórna og starfa í þeim anda sem lagar sig að nútíma hugsanagangi, en reyni ekki endalaust að sporna við framþróuninni.

Forsrh. sagði á þessa leið: Hitt er ekki síður mikilvægt, að stjórn innanlandsmála og samskipti okkar innbyrðis séu með þeim hætti að virðingu veki og traust. — Hver er þessi virðing og það traust sem forsrh, hefur talað um? Hvarflar það kannske að honum að þarna sé einhverju ábótavant`? Eru hin alvarlegu augu forsrh. farin að opnast fyrir grun í þessum efnum? Forsrh. má vita að landsmenn allir eru fyrir löngu farnir að gera sér ljósa þessa staðreynd. Virðing okkar og traust í efnahagsmálum fer óðum þverrandi innanlands sem utan. Það er sama hvar borið er niður. Við tökum varla svo blað í hönd eða opnum fyrir útvarp og sjónvarp, að ekki sé fjallað á einn eða annan hátt um efnahagsvandræði þjóðarinnar, verðbólguvandann og allt sem honum tilheyrir. Þarna láta ekki í sér heyra bara stjórnarandstæðingar, heldur einnig og ekki síður stjórnarsinnar. Jafnvel miðstjórnarmenn Sjálfstfl. og aðalráðgjafar ríkisstj, í efnahagsmálum, eins og Jónas Haralz, geta ekki lengur orða bundist til varnaðar vegna þverrandi gengis efnahagsmálanna undir forustu hæstv. ríkisstj.

Fleiri nöfn mætti nefna, svo sem formann bankaráðs Seðlabankans. Jón Skaftason, sem er í fylkingarbrjósti gagnrýnenda á stjórn efnahagsmála. Og vissulega er mikill voði á ferð. En við hverja er að sakast? Ég fullyrði að við enga sé jafnmikið að sakast og núverandi valdhafa. Sjálfstfl. og Framsfl. hafa átt aðild að velflestum ríkisstj. síðustu áratugi. Þessir tveir gömlu flokkar hafa að mestu leyti farið með stjórn landsmála, að vísu með ívafi Alþfl. og kommúnista á stundum. Verðbólgan og slæmt ástand efnahagsmála er því þeirra afkvæmi að mestum hluta. Þeir hafa ráðið ferðinni of lengi. En hræringar í þjóðfélaginu bera þess ótvírætt vitni, að almenningur er farinn að gera sér grein fyrir þessu. Ástæða þess ástands, sem ríkir í efnahagsmálum og öðrum þjóðmálum, er sú, að gróin og stöðnuð flokksfyrirbæri, sem starfa í engu samræmi við nútímaaðstæður og án tengsla við hræringar og viðhorf fólksins í landinu, hafa fengið að ráða ferðinni. Fámennar flokksklíkur toppmanna peningaaflanna í landinu hafa lagt á ráðin. Spilling blasir hvarvetna við í þjóðfélaginu og hún á rætur að rekja til rotnandi hugarfars og starfshátta í hinni pólitísku þjóðmálabaráttu. Það er ykkar, hlustendur góðir, að skera upp herör gegn þessari spillingu. Dómsuppkvaðningin að vori nálgast óðum. Þá fellið þið dóminn. Niðurstöður hans eru í ykkar höndum.

Á þeim árum, sem verkalýðshreyfingin var að berjast fyrir tilverurétti sínum, þótti það víst góð lexía að stjórn landsmála væri því aðeins góð að launafólki væri baldið niðri, það mætti ekki hafa of mikil peningaráð. Það ætti aðeins að vera hlutskipti fárra. Það er sorglegt að heyra nú á árinu 1977 þennan tón endurvakinn í ræðu forsrh„ en það er því miður staðreynd. Sjálfstfl. og Framsfl. hafa óumdeilanlega unnið þannig að efnahagsráðstafanir miðuðust við að launþegar hefðu sem minnst kaup. Sérstaklega er Sjálfstfl. sekur í þessum efnum, auk þess sem Morgunblaðið í gegnum árin hefur stutt þessa stefnu dyggilega. Þar hefur ávallt svifið yfir vötnunum andstaða við kjarabætur launþega svo og andbyggðastefna.

Undantekningar hafa þó verið í þessari iðju Morgunblaðsins og Sjálfstfl. þegar flokkurinn hefur verið utan ríkisstj., svo sem árin 1956– 1958 og 1971–1974. Þessu til staðfestu er fróðlegt að lesa viðtal við ritstjóra Morgunblaðsins fyrir nokkru þar sem hann sagði eitthvað á þessa leið:

„Ég var óánægður með þá afstöðu Morgunblaðsins á tímum fyrri vinstri stjórnarinnar að kynda undir verkföllum sem þá áttu sér stað, einungis til þess að koma ríkisstj. frá.“

Heilindin leyna sér ekki. Sjálfstfl, og Morgunblaðið eiga það sammerkt að vilja halda launabaráttu fólksins í lágmarki. Það er rétt hjá hæstv. forsrh„ að við Íslendingar eigum stöðugt við þann vanda að glíma, hvernig tryggja eigi skynsamlega heildarstjórn á efnahagsmálum. En hvað hefur núv. ríkisstj. gert til þess að þessi skynsamlega heildarstjórn eigi sér stað? Það er gumað af frelsi einstaklinga og samtaka til sjálfsbjargarviðleitni. Frelsi er mikils virði, en stjórnleysi fráleitt. Það skipulagsleysi, sem átt hefur sér stað í fjárfestingu hér á landi, er nánast þjóðhættulegt. Um það eru velflestir sammála. Það er nánast að bera í bakkafullan lækinn að ræða það hér. Dæmin blasa alls staðar við augum.

Það er samhljóða álit allra, að blandað hagkerfi, einkarekstur, félagsrekstur og hæfilegur rekstur ríkis, sé heillavænlegast. En allt þarf þetta hæfilegt aðhald frá traustri ríkisstj. Einkareksturinn blómgast ekki nema þar séu góðir menn í stjórn og þeim séu sköpuð góð skilyrði. Þetta á einnig við um hin tvö formin. Rekstur fyrirtækja þarf að skila góðum arði, svo að þau geti boðið því fólki, sem við þau vinnur, góð lífskjör. Þetta er augljóst öllum. Til þess að fyrirtækin geti sinnt þessari skyldu sinni þarf að hlúa vel að þeim. Handahófsaðgerð, sem skilgreind er með frjálsræði, á hér ekki við. Að ætla sér að setja allt undir sama hatt í nafni frjálsræðis er hreinasta fásinna.

Launamálin hafa verið í brennidepli þetta ár. Forsrh. gat um það, að launþegar hefðu nú meira en endurheimt þær rauntekjur er þeir höfðu á árinu 1973. Þetta má til sanns vegar færa. En það er ekki núv. ríkisstj. að þakka. Þarna hafa samtök launafólks verið að verki.

Ég vil aðeins minnast á forustu Vestfirðinga í þessum málum. Þar gerðist það að vestfirsk verkalýðshreyfing og vestfirskir vinnuveitendur tóku höndum saman í góðu samstarfi og leystu launamálin. Vestfirskir vinnuveitendur þekkja vel og skilja hvar skórinn kreppir að hvað viðkemur launamálum þess fólks sem hjá þeim vinnur. Því tóku þessir aðilar þátt í að ryðja brautina í sameiningu. Vestfirskir atvinnurekendur þurfa ekki að sækja ráð til þeirra háu herra, sem við Garðastræti í Reykjavík búa, til þess að vita hvað fólkið á og þarf að bera úr býtum til að lifa mannsæmandi lífi. Þetta samstarf á Vestfjörðum sýnir og sannar að vandamálin á að leysa að sem mestu leyti heima í héraði. En það er alveg ljóst að ríkisstj. ætlar að taka aftur þá leiðréttingu sem verkalýðshreyfingunni tókst að ná með samningunum í sumar. Almenningur betur að undanförnu fengið að kenna á ráðstöfunum ríkisstj. í verðlagsmálum. Gífurlegar verðhækkanir hafa dunið yfir og hótanir forsrh. áðan um áframhald þess voru auðskildar. Stefnan í efnahagsmálum hefur því ekkert breyst af hálfu ríkisstj. Verðbólgan er eins og fyrr að kenna launþegum að mati ríkisstj.

En hvað gerir svo ríkisstj. sjálf til þess að hefta verðbólguvandann? Fjári., sem ríkisstj. hefur lagt fram, tala þar skýru máli. Fjárlög ársins 1977 eru 89 milljarðar. Frv. hæstv. fjmrh. fyrir árið 1978 hljóðar upp á 125 milljarða. Mismunur frv. fyrir 1978 miðað við frv. í fyrra er um 50% hækkun milli ára.

Hæstv. fjmrh, Matthías Á. Mathiesen taldi það hneyksli í tíð fyrrv. ríkisstj. þegar fjári. hækkuðu um 44% milli ára. Þá hélt fjmrh. vart vatni af hneykslun. Þá varð þó ríkissjóður að taka á sig miklar byrðar sem áður hvíldu á sveitarfélögum. Nú er engu slíku til að dreifa, en þó blasir þetta við. Og menn spyrja: Hver er skýringin, Matthías?

Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson sagði áðan: Hér er ekki um nein kosningafjárlög að ræða, — þótt þau hækki um 50% milli ára. Strangt aðhald í ríkiskerfinu, sagði Gunnlaugur. Ég spyr: Hver hefur orðið var við það?

Enn þá alvarlegra athæfi ríkisstj. er svo það að ætla að stuðla að ógildingu allra kjarasamninga í landinu með því að gera ráð fyrir því, að sú bensinhækkun, sem fram undan er, komi ekki inn í vísitölu.

Svona má halda áfram endalaust að telja upp dæmi í fram komnu fjárlagafrv. sem sýna hringlandahátt núv. ríkisstj. í efnahagsmálum.

Byggðastefna núv. ríkisstj. endurspeglast einkar vel í fjárl. og vil ég nefna örfá dæmi. Framlög til hinna ýmsu þátta verklegra framkvæmda eru af svo skornum skammti þrátt fyrir hækkunina á heildarfjármagninu að þau halda rétt í við hækkun kostnaðar. Þess ber að geta, að á undanförnum þremur árum hefur átt sér stað stórkostlegur niðurskurður verklegra framkvæmda, ekki aðeins miðað við raungildi framkvæmdanna, heldur einnig í krónutölu. Þetta bitnar hvað harðast á landsbyggðinni.

Fjárframlög til hafnarmannvirkja hækka í krónutölu um 239 millj. frá fjárl. ársins í ár eða um 25%. Á sama tíma hefur kostnaður vegna framkvæmdanna hækkað um 33%. Niðurskurðurinn er því um og yfir 8% og þetta bitnar hvað harðast á landsbyggðinni. En Grundartanginn fær þó sitt, 250 millj. á að veita í höfnina þar. Ríkisstj. ætlar líka að fjármagna hluta sveitarfélaganna þar.

Fjárframlög til flugmála hækka úr 376 millj. í 530 millj. eða um 44%. Hækkun kostnaðar á árinu gerir það að verkum að þessi liður lækkar í raun um 19%. Þessi lækkun á sér stað þrátt fyrir þá staðreynd að velflestir flugvellir landsins ættu að vera lokaðir vegna ónógs öryggis. Þótt vissulega sé hér um að ræða stórkostlegt þjóðfélagslegt vandamál, þá er það þó enn verra þegar litið er til þess, að heill landshluti eins og Vestfirðir er svo illa settur að vera langt aftur úr öðrum landshlutum að því er varðar framkvæmdir í flugmálum og flugsamgöngum yfir höfuð talað. Bitnar því harðast á Vestfirðingum niðurskurður í þessum málaflokki.

Í frv. er ekki að finna stafkrók um framlög til byggðalinunnar á Vestfjörðum. Sú framkvæmd er þó forsenda tryggari orku Vestfirðingum til handa.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu til byggingar nýrra skólamannvirkja, það kemur líka harðast niður á landsbyggðinni.

Aukið fjármagn til vegaframkvæmda hefur verið stjórnarsinnum tamt á tungu að undanförnu og mikið gumað af því, að frv. gerir ráð fyrir stórkostlegri hækkun fjárveitinga til vegaframkvæmda. Samkv. vegáætlun ársins í ár er helmingi minna framlag til nýbyggingar vega en var á vegáætlun 1974. Nú gerir frv. ráð fyrir 15 kr. hækkun á bensíngjaldi og samsvarandi hækkun þungaskatts. Öll reisnin varðandi aukningu fjármagns til vegaframkvæmda virðist því eiga að vera sú að hækka framkvæmdir að raungildi á næsta ári um 30% frá árinu í ár, eftir að ríkisstj. hefur undanfarin þrjú ár skorið niður framkvæmdir til vegamála að raungildi um rösklega helming. Rétt er líka að hafa í huga varðandi fjárveitingar til vegaframkvæmda á næsta ári að það er kosningaár. Það þarf því að öllum líkindum kosningar á ári hverju, ef einhver von á að vera til þess að eðlilegar og nauðsynlegar framkvæmdir eigi sér stað í vegamálum.a.m.k. á það við um núverandi valdhafa.

En hann var ekki óánægður, hann Gunnlaugur Finnsson, hér áðan. Sleitulaust haldið áfram byggðastefnu, sagði hann, það ber vegakerfið með sér. Farið um landið. — Væntanlega hafið þið heyrt þetta, Vestfirðingar.

Augljóst má vera af þessari upptalningu, að fjárlagafrv. fyrir árið 1978 endurspeglar í þessu tilliti viðhorf ríkisstj. til landsbyggðarinnar. í stuttu máli sagt: efnahagsmálin virðast nú eins og hingað til eiga að leysast með andbyggðastefnu og launaskerðingu. Það er augljóst mál að fram undan eru mikil átök hvað varðar þau verkefni sem hafist var handa um í tíð fyrrv. ríkisstj. Hér á ég við byggðastefnuna margumtöluðu. Núv. ríkisstj. hefur ekki bolmagn né vilja til þess að vinna að þessum málum eins og skyldi. Innan raða stjórnarflokkanna eru öfl og það sterk öfl, sem ekki mega til þess hugsa að landsbyggðin sitji við sama borð og þéttbýliskjarninn hér við Faxaflóa. Kröfur þessara aðila eru nú að verða æ háværari og þeir sækja fast á að andbyggðastefnunni sé framfylgt. Þessu til staðfestingar er hægt að nefna mörg dæmi. Ég nefni sem dæmi kosninguna í fjvn., þar sem þm. Reykv. tók nýverið sæti á kostnað landsbyggðarinnar. Hvert halda menn að hlutverk hans eigi að vera þar? Ég nefni hugmyndir allra gömlu flokkanna um tafarlausa breytingu á kosningalögum í þá átt að rýra hlut landsbyggðarinnar. Framsókn er til viðræðu um það, sagði Gunnlaugur Finnsson áðan. Það er einnig ástæða til þess að rifja það upp hér, að fjmrh. hefur nú þrjú ár í röð gefið yfirlýsingar í nafni ríkisstj. um breytingu á skattalögum. Í ekkert skipti hefur verið að marka þessar yfirlýsingar. Þær hafa alltaf verið sviknar. Enn er viðhaldið því herfilega ranglæti í skattlagningu sem miðar að því að skattpína launafólk, en sleppa hundruðum gróðafyrirtækja í landinu og stórum hóp stórefnamanna við skattgreiðslu til samfélagsins. Og enn á samkv. fjárlagafrv. að þyngja skattbyrði launafólks. Spurningin er: Hvað ætlið þið, góðir tilheyrendur, að liða lengi þá spillingu sem í þessu og mörgu öðru blasir við í þjóðfélaginu?

Enginn vafi er á því, að það er liðin tíð að fólkið úti á landsbyggðinni láti bjóða sér stórlega skertan hlut miðað við Faxaflóasvæðið. Á Vestfjörðum er fólkið sér þess fyllilega meðvitandi, að núv. stjórnarflokkar eru þess ekki megnandi að halda uppi þeirri landsbyggðastefnu sem með þarf. Ótrúlega stór hópur áhrifamanna í öllum flokkum virðist hvenær sem er vera reiðubúinn til að skerða frekar en orðið er hlut landsbyggðarinnar. Spurningin er: Hvenær verður það þorað?

Staða Vestfjarða gagnvart öðrum landshlutum er ofarlega í hugum manna og mun afstaða Vestfirðinga mjög mótast af því. Vestfirðingum er það meira virði en flest annað, að í framtíðinni helgist byggðaþróun á Vestfjörðum af þeim vorhug sem ríkt hefur á Vestfjörðum um nokkurt skeið, eða frá valdatöku vinstri stjórnarinnar 1971. Þarna verður að mínu mati ekki lengur treyst á gömlu flokkana. Fólkið er orðið langþreytt á gömlum úrræðum gamalla og staðnaðra flokka. „Þjóðin öll verður að vera viðbúin,“ þessi voru orð forsrh. í niðurlagi ræðu hans, og ég vil undir þessi orð taka í niðurlagsorðum mínum hér. Verið á verði gagnvart ríkisstj.

Ég hef hér í stuttu máli drepið á nokkrar helstu niðurstöður eins og þær koma mér fyrir sjónir eftir ræðu hæstv. forsrh. Hækkun skatta, launaskerðing og andbyggðastefna eru þau tæki, sem beita á við vanda efnahagslífsins, allt saman gömul og úr sér gengin tæki. Forustan, sem ríkisstj. á að beita sér fyrir, er vitagagnslaus og máttlaus miðað við nútímaaðstæður.

Góðir tilheyrendur. Skerum upp herör fyrir auknu réttlæti landsbyggðafólki til handa. Veitið fulltrúum ykkar á Alþ. það aðhald sem dugir svo að þeir sofi ekki á verðinum í baráttunni fyrir réttlátum óskum ykkar og kröfum. Landsbyggðarfólk er ekki að biðja um neina ölmusa af borði þjóðfélagsins. Það biður einungis um leiðréttingu á því ranglæti sem það hefur verið beitt og biður um jafnrétti á borð við Reykjavíkurhringinn. Það biður einungis um örlítið brot af þeim verðmætum sem það skapar þjóðfélaginu með gegndarlausri vinnu að gjaldeyrisskapandi framleiðslu. Standið dyggan vörð um þessi höfuðmálefni ykkar. — Góða nótt.