27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4006 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

285. mál, sáttastörf í vinnudeilum

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir, og n. hefur kynnt sér afstöðu Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands til þess. N. mælir með að frv. verði samþ. með breyt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Jón Helgason.

Þetta frv. fjallar um starfsemi sáttasemjara ríkisins — starfsemi sem á síðari tímum hefur margfaldast frá því að sett voru gildandi lög um sáttasemjara ríkisins. Ný verkefni hafa verið lögð undir sáttasemjara ríkisins og verkefnaaukning blasir við í framtíðinni. Með þetta í huga er í frv. þessu lagt til að breytt verði lagaákvæðum um sáttatilraunir í vinnudeilum. Meginbreytingarnar, sem felast í þessu frv., eru þær að starf sáttasemjara verði aðalstarf, að á hann verði lögð miklu ríkari skylda en nú er til að hefjast handa um sáttastörf og honum fengið starfslið. Enn fremur verði sáttasemjara veittur víðtækari réttur til afskipta af vinnudeilum en er í gildandi lögum og jafnframt lögð á hann ríkari skylda til að hefjast handa um sáttastörf en nú er.

Ég ætla ekki að fara að flytja framsöguræðu um efni frv. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan hæstv. félmrh. gerði frv. skil þegar hann mælti fyrir því hér í hv. d. við 1. umr. En ég vil þá víkja að brtt. n., sem er að finna á þskj. 714. Þar er um að ræða þrjár brtt.

1. brtt. er við 8. gr. frv. um það, að í stað orðsins „rétt“ í 1. málsl. komi orðið: heimilt. Þetta er til komið vegna þess, að mönnum þótti ekki einsýnt hvað orðið „rétt“ þýddi, hvort það þýddi að það væri skylda eða hvort um heimild væri að ræða, en þessi 1. málsl. hljóðar svo í frv.: „Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur, er honum rétt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilum.“ Nú leggjum við til að í staðinn fyrir „er honum rétt að leggja fram miðlunartillögu“ komi: er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu.

2. brtt. n. er við 9. gr. frv. Sú brtt. er í tveimur liðum. A-liður er um að 5. mgr. falli niður. 5. mgr. er á þessa leið: „Áður en atkvgr. hefst skal afhenda sáttasemjara kjörskrá. Félagsdómur dæmir um kjörskrárdeilur.“ Þarna er um að ræða vissar skyldur varðandi afskipti eða eftirlit sáttasemjara með kosningum í verkalýðsfélögunum varðandi vinnudeilur, og það er lagt til að þetta falli niður. — Sömuleiðis er lagt til að 7. mgr. sömu greinar falli niður, en hún er á þessa leið: „Sáttasemjara eða fulltrúum hans er heimilt að vera viðstaddir kjörfundi.“ Það er lagt til að þessi heimild sé felld niður. Hvort tveggja miðar að því að draga úr valdi eða stöðu sáttasemjara í þessum tilteknu tilvikum.

3. brtt. er við 12. gr. frv., að 2. mgr. falli niður. Það leiðir af því ef 5. og 7. mgr. í 9. gr. féllu niður og þarf ekki að skýra það frekar.

Ég vil láta koma hér fram að þessar brtt. eru gerðar að ósk Alþýðusambands Íslands. Það hefur verið gengið út frá því og það hefur verið vilji hæstv. félmrh., að þetta mál næði ekki fram að ganga nema væri full samstaða um það og ekki ágreiningur við aðila vinnumarkaðarins. Og til þess að fullnægja þessu skilyrði eru þessar till. bornar fram. Ég vil taka það fram, að einstakir nm. telja að þetta sé ekki til bóta, þó að aðrir nm. kunni að telja að svo sé. Brtt. eru því fyrst og fremst miðaðar við að samstaða sé um málið. Ég vil taka það fram, að Vinnuveitendasamband íslands telur ekki vera ti1 bóta, nema síður sé, að fella niður ákvæðin í 9. og 12. gr. sem brtt. félmn. gerir ráð fyrir. En Vinnuveitendasambandið lætur kyrrt liggja í þeirri merkingu, að Vinnuveitendasambandið gerir ekki ágreining um að málið nái fram að ganga í þeirri mynd sem hv. félmn. leggur til.