03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafa skipst á skin og skúrir hjá þjóð okkar, og þótt ýmsum þyki nú vandamálin, sem við blasa, stór og torleyst, þá má fullyrða að formæðrum okkar og feðrum hefðu ekki þótt þau stórvægileg miðað við það sem fólk þurfti áður fyrr að horfast í augu við.

Köld, rök og dimm húsakynni urðu flestir að búa við og það langt fram á þessa öld. Hvort fóður entist handa búsmala eða matvæli handa fólkinu fór oftast eftir veðurfari og skipakomum, og það var ekki fátítt að skortur yrði á hvoru tveggja. Þá tók við hungrið og stundum fellir.

Þegar fólk nú á dögum er að mikla fyrir sér ástandið í þjóðfélaginu og virðist ekkert sjá fram undan nema myrkur og fjárhagslegt hrun, eins og söngurinn í stjórnarandstöðunni hefur verið í þessum umr., þá hlýtur að vera meira en litið bogið við sálarástand slíkra manna, ef hugur fylgir máli. Og auðheyrt var á formanni Alþfl. áðan að eina von hans er að Krafla muni auka honum fylgi.

Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að þjóðfélag okkar er ekki fullkomið. En hvaða þjóðfélag er það?

Því er haldið fram, að erlendu skuldirnar séu orðnar það miklar, að þjóðin geti ekki undir þeim risið, og arfurinn eftir okkur sé lítið annað en skuldir. Síst af öllu vil ég gera lítið úr erlendu skuldunum þótt óþarfi sé að mikla þær fyrir sér. En hitt vil ég segja, að sé litið á það sem framkvæmt hefur verið í landinu, t.d. eftir síðari heimsstyrjöld, þá er ég þess fullvíss að við Íslendingar höfum slegið öll met og hvergi í veröldinni hefur verið framkvæmt eins mikið hlutfallslega á þessum tíma og hér.

Ef við litum t.d. á íbúðarhúsnæðið er mér nær að halda að á þessum tíma hafi verið byggt a.m.k. 75% af því íbúðarhúsnæði sem nú er í notkun. Og ef við lítum á allar aðrar framkvæmdir, þá hafa gerst hér undraverðir hlutir á svo skömmum tíma. Aðrar þjóðir búa t.d. að stórum hluta í margra alda gömlu húsnæði. Það er talið að við höfum verið nokkuð lengi að byggja Hallgrímskirkju hér í Reykjavík. En hvað segja menn þá um kirkjuna í Þrándheimi, sem sagt er að Snorri Sturluson hafi skrifað í hluta af Snorra Eddu og er þó enn ekki búið að ljúka byggingu hennar.

Miðað við það, sem búið er að framkvæma á öllum sviðum í landinu síðustu árin, eru erlendu skuldirnar ekki miklar. En þær hafa eðlilega þrýst einkaneyslunni niður, með öðru móti hefðu þessar framkvæmdir ekki verið mögulegar. Ýmsa virðist skorta skilning á því, að sú kynslóð, sem nú er að skila af sér, hefur að mestu leyti byggt frá grunni. Þó finnst mörgum að of litið sé framkvæmt, jafnvel þó að stór hluti þjóðarinnar hafi að undanförnu lagt nótt við dag. Slík framkvæmdaþörf og gerbreyting hlýtur að kosta miklar fórnir. M.a. þess vegna hefur einkaneyslan verið minni hér en í nágrannalöndum okkar og það valdið oft og tíðum óróa í ýmsum starfsstéttum, ýtt undir kröfugerð af ýmsu tagi.

Allir bölva verðbólgunni, en hitt er svo annað mál, hvað það yrðu margir sem mundu stöðva hana að fullu ef þeir hefðu það á valdi sínu. Ætti það yrðu mjög mörg prósent af þjóðinni? En hóflaus verðbólga, eins og hér hefur verið, sljóvgar allt verðskyn og af henni leiðir verulega eignatilfærslu sem illt er upp á að horfa, og hætt er við að afleiðing hennar verði, er til lengdar lætur, að í vitund þjóðarinnar komi sá misskilningur að geymdur eyrir sé sama og glataður. Verðbólgan er fyrst og fremst afleiðing mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli, en sú eftirspurn orsakast af öllum framkvæmdunum, sem í gangi hafa verið hin síðari ár, og að vísitölugreiðslur á kaup, sem eru grundvallaðar á verðhækkunum, m.a. á erlendum aðföngum, eins og hér tíðkast, verka eins og olía á verðbólgueldinn. Fyrir slíkum greiðslum er enginn raunverulegur grundvöllur og afleiðingin verður því minni og minni króna. Kaupgreiðsluvísitala, sem byggð væri á aukinni framleiðslu og auknum þjóðartekjum, er í sjálfu sér eina leiðin til raunverulegra kjarabóta. Því er aðkallandi að endurskoða allt þetta greiðslukerfi, ef við á annað borð viljum koma fjármálum okkar í skaplegt jafnvægi.

Gengi krónunnar er skráð eftir þörfum sjávarútvegsins, en ekki landbúnaðar eða iðnaðar. Þess vegna myndast misvægi milli þessara aðalatvinnuvega við þær aðstæður sem við búum við. Þegar verðlag er hátt erlendis á útflutningsvörum sjávarútvegsins eins og nú kemur það mjög hart niður á útflutningsiðnaði, en þó sérstaklega landbúnaði og hefur því miður leitt af sér vanmat og vantrú á þjóðhagslegu gildi þessara atvinnuvega.

Í stefnuræðu hæstv. forsrh. kom fram að í ráði sé að draga úr fjárfestingu bæði hjá hinu opinbera, atvinnuvegum og einstaklingum til að draga úr spennu á vinnumarkaðinum, en þó ekki síður til þess að geta mætt brýnni þörf atvinnulífsins um nauðsynlegt fjármagn til rekstrar og vegna vörubirgða. Í okkar þjóðarbúskap, sem er mjög sveiflukenndur, er erfitt að stjórna þessum málum á þann veg að ekki sé öðru hverju umframeftirspurn eftir vinnuafl, en í annan tíma atvinnuleysi.

Við framsóknarmenn teljum að þjóðfélagið hafi þá skyldu við þegnana að sjá öllum fyrir vinnu, enda urðu að þessu leyti mikil umskipti frá því sem áður var eftir að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar var mynduð 1971. Þá hófst uppbygging atvinnulífsins um allt land. Og þegar verðfallið varð á útflutningsafurðum okkar 1974 og þrátt fyrir að viðskiptakjör okkar urðu þá verri en dæmi eru til um áratuga skeið, þá var haldið þannig á málum að ekki kom til atvinnuleysis, andstætt því sem gerðist á viðreisnarárunum. Aðhaldsstefnu að þessu leyti verður að beita þannig að næg atvinna haldist. Frá því má ekki hvika að mínum dómi. Og samdrátturinn verður að koma hlutfallslega jafnt niður á alla, ef samstaða á að nást um slíkar aðgerðir. Á hinn bóginn er ekki vanþörf á því að draga úr spennunni og vinnuálaginu eins og nú er og sjá til þess, að framleiðsluatvinnuvegirnir geti fengið eðlilegt rekstrarfé með viðráðanlegum kjörum, því að margar framleiðslugreinar standa nú höllum fæti og framleiðslan er þó undirstaðan undir lífskjörum þjóðarinnar. Hvað sem öllu öðru líður verður að gera ráðstafanir til þess að hún stöðvist ekki.

Hæstv. landbrh. er að leita leiða til þess að auka rekstrar- og afurðalán til landbúnaðar til að ná því markmiði, að vinnslustöðvum sé gert kleift að borga bændum 90% af verði afurðanna strax og þær hafa verið afhentar. Þetta er brýnt hagsmunamál og réttlætismál, því þegar verðbólgan er eins mikil og hefur verið hér hin síðari ár, þá fá bændur ekki nema mjög lítinn hluta af kaupi sínu á því ári sem framleiðslan fer fram. Með því greiðslufyrirkomulagi, sem nú tíðkast, hafa þeir mátt bíða eftir kaupi sínu á annað ár. Hvaða stétt önnur í þjóðfélaginu mundi sætta sig við slíka meðferð? Þetta er önnur meginástæðan fyrir því, að eins mikill munur er á sem raun ber vitni að bændur hafi náð kaupi viðmiðunarstéttanna. Hin veigamesta ástæðan er að fjármagnskostnaðurinn er mjög vanmetinn í verðlagsgrundvellinum. Hefur því atriði ásamt nokkrum öðrum verið vísað til yfirnefndar og verður að vænta þess að sá úrskurður, sem þaðan kemur, verði til þess að bændum verði tryggð sambærileg laun og aðrar stéttir hafa, eins og löggjafinn ætlast til.

Aðkallandi er að frv. það, sem samið var í fyrravetur að beiðni hæstv. landbrh. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins verði lagt fram nú þegar og séð um að það fái fullnaðarafgreiðslu fyrir jól.

Við Íslendingar höfum unnið marga og stóra sigra á síðustu áratugum, og umtalsverðar framfarir urðu ekki í landinu fyrr en þjóðin fékk stjórn eigin mála í sínar hendur. Sú saga verður ekki rifjuð upp hér, en freistandi væri að rifja upp sögu landhelgismálsins ef tími væri til. Hún er hreint ævintýri, þar sem okkar dvergríki býður stórveldum Evrópu byrginn og með framsýni og þrautseigju tókst okkur að vinna fullnaðarsigur. Í þessu mikilvæga máli hefur enginn stjórnmálaflokkur komið eins mikið við sögu og Framsfl., þó að allir flokkar hafi átt þar hlut að máli.

Árið 1946 fluttu þeir Hermann Jónasson þáv. formaður Framsfl. og Skúli Guðmundsson þáltill. um uppsögn landhelgissamningsins við Breta sem í gildi var frá 1901–1951. Þá var landhelgin aðeins 3 mílur frá fjöruborði. Árið 1952 færði ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar út fiskveiðilandhelgina í 4 mílur frá grunnlínu sem dregin var fyrir firði og flóa landsins, ríkisstj. Hermanns Jónassonar í 12 mílur árið 1957, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar í 50 mílur árið 1972 og nú síðast ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar í 200 mílur.

Þessar upptalning segir þó minnst af því, hver hlutur framsóknarmanna var í þessu máli. 1. des. 1976 gerðist einn örlagaríkasti viðburður í allri okkar sögu, þegar bresku herskipin og allur fiskveiðifloti þeirra sigldi út úr fiskveiðilandhelgi okkar. Þá urðu hin raunverulegu stríðslok í þessu máli. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að stjórnarandstaðan kæri sig um að rifjað sé upp hvað hún sagði um Oslóarsamkomulagið þegar það var gert. Í ljósi reynslunnar undrar mig ekki þó að þeir vilji láta það gleymast.

Á næsta ári hefur verið ákveðið að auka fjármagn til vegagerðar í samræmi við það sem hæstv. samgrh. gaf fyrirheit um á síðasta þingi. Þessu ber að fagna þar sem ástand veganna er þannig að þeir uppfylla engan veginn lágmarksþarfir þjóðarinnar og hvergi er aðstöðumunurinn meiri milli landshluta en í þessum þætti samgöngumála. Það hlýtur að verða forgangsverkefni næstu ára að minnka þennan mun, enda er það undirstaðan undir því að atvinnuuppbygging geti þróast eðlilega um landið.

Við framsóknarmenn viljum vinna að framför landsins alls og að því marki stefnum við með samvinnu og samhjálp á sem flestum sviðum. Umskiptin, sem urðu eftir kosningarnar 1971 um land allt, sýna það í verki hvað gerist ef við höfum aðstöðu til að ráða ferðinni. Ef rétt er á málum haldið getur þjóðin litið björtum augum til framtíðarinnar, því möguleikarnir eru miklir til lands og sjávar ekki síst eftir að við sitjum einir að fiskveiðilandhelgi okkar. Brýnasta verkefnið er að draga úr verðbólgunni án þess að það kosti atvinnuleysi. En þrátt fyrir alla verðbólguna, þrátt fyrir að uppi hafi verið spádómar á hverju einasta ári um 30 ára skeið, að hrun og atvinnuleysi sé á næsta leiti, er það staðreynd að þjóðin hefur aldrei haft það eins gott og nú, aldrei eins góð og jöfn kjör og aldrei eins mikla möguleika til að halda þeim kjörum og bæta þau, ef hún kann að ráða málum sínum og hagnýtir sér mátt moldar og möguleika sjávar og lætur ekki villa sér sýn.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Góða nótt.