27.04.1978
Neðri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

299. mál, jöfnunargjald

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við, sem stóðum að inngöngu í EFTA árið 1970, þ. e. a. s. þingflokkar Sjálfstfl. og Alþfl., ætluðumst til þess, að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar yrði gerð hliðstæð aðstöðu þeirra iðnfyrirtækja í EFTA sem flyttu vörur á íslenskan markað. Ég var þá viðskrh. og gaf um það fyrirheit fyrir hönd þáv. ríkisstj, gagnvart forustumönnum íslenskra iðnrekenda, að stefnt mundi verða að því, að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar yrði hliðstæð því sem ætti sér stað um samkeppnisfyrirtæki í öðrum löndum, og að því yrði unnið á því tímabili sem gert var ráð fyrir að liði þangað til tollar yrðu að fullu afnumdir á þeim vörum sem um var að ræða, þ. e. a. s. 1980.

Okkur var þá algerlega ljóst, báðum aðilum, að það skipti miklu máli í þessu sambandi, að söluskattskerfið væri ólíkt í hinum EFTA-löndunum og hér hjá okkur. Í þeim næstum öllum hafði verið komið á svonefndum virðisaukaskatti sem allir hv. þm. gera sér ljóst hvað er, en hér var enn og er enn í gildi söluskattur sem greiddur er á síðasta stigi. Við gerðum okkur þess skýra grein, að á þessu væri grundvallarmunur, þetta skapaði mismunandi samkeppnisaðstöðu þeirra fyrirtækja hér á landi, sem mundu greiða söluskatt, og iðnaðarfyrirtækja í hinum EFTA-löndunum, sem byggju við virðisaukaskatt. Þess vegna var það einmitt einn af þáttunum í undirbúningi aðildar okkar að EFTA að undirbúa breytingu á söluskattskerfinu í virðisaukakerfi.

Þáv. fjmrh., Magnús Jónsson, hafði látið vinna mikið undirbúningsstarf í þessu efni og hafði raunar látið semja frv. um virðisaukaskatt sem að sjálfsögðu þurfti mjög rækilegrar athugunar við, en allur undirbúningur hafði þegar átt sér stað að því að breyta söluskattinum í virðisaukaskatt þegar við gengum í EFTA, þó að ljóst yrði að það mundi taka eitt til tvö ár að koma því máli í framkvæmd. En ýmislegt annað var samt gert til þess að létta undir með íslenskum iðnaði í samkeppni við iðnfyrirtæki í hinum EFTA-löndunum, svo sem að láta tollalækkun á hráefnum koma fyrr til framkvæmda en ella hefði verið gert ráð fyrir og hafa hana meiri en hún var á ýmsum öðrum vörum. Hin sérstaka tollalækkun á hráefnum til iðnaðar og tækjum til iðnaðar var beinlínis gerð í því skyni að stuðla að því, að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar við iðnað í öðrum EFTA-löndum yrði sem jöfnust. En ég endurtek, að það var viðurkennt þá, sem auðvitað er rétt, að samkeppnisaðstaðan getur ekki orðið jöfn fyrr en um sams konar söluskattskerfi er að ræða í löndunum öllum. Einmitt þess vegna var undirbúningurinn að virðisaukaskattskerfinu hafinn, þó að seint hafi miðað í þeim efnum, eins og ég mun síðar víkja að.

M. ö. o.: þegar gengið var í EFTA 1970 fékk íslenskur iðnaður fyrirheit um það af hálfu þáv. stjórnvalda, að unnið skyldi í alvöru og raunhæft að því, að ekki hallaði óeðlilega á íslenskan iðnað að því er snertir samkeppnisaðstöðu. Í þessu sambandi held ég að verði nú ekki hjá því komist að minna á að Íslendingar gengu í EFTA, sem ég held að allir viðurkenni nú að hafi verið rétt spor og skynsamlegt, gegn eindreginni andstöðu alls þingflokks Framsfl. og alls þingflokks Alþb. Raunar var hatrömm andstaða gegn inngöngunni í EFTA af hálfu þáv. stjórnarandstöðu, þ. e. a. s. þessara tveggja flokka. En þeir komu til valda einu ári síðar, á miðju ári 1971. Nú kynni einhver að hafa haldið á þeim tíma, að þeir notuðu tækifærið, fyrst ekki var nema eitt ár síðan gengið var í EFTA, til að ganga úr EFTA, segja sig úr EFTA. Það eitt hefði verið í samræmi við allan margra ára málflutninginn gegn aðild Íslands að EFTA. En það gerði stjórn þessara flokka ekki. Hún var kyrr í EFTA og virtist una sér þar vel, virtist hafa gert sér grein fyrir því, að sporið fyrir ári hafði verið rétt, þó að það hefði verið harðlega gagnrýnt af þeim fyrir ekki lengri tíma en rúmu ári. Með því móti ómerktu þessir flokkar að sjálfsögðu allan andróður sinn gegn aðild Íslands að EFTA, með því að láta Ísland halda áfram aðild sinni að EFTA aðeins ári eftir að við gengum í það. Þar með var í raun og veru sagt í reynd, að bókstaflega allt, sem þessir flokkar höfðu sagt í 5 ára umr. um aðild Íslands að EFTA, hefðu verið staðlausir stafir, hefði verið markleysa. Og þáv. ríkisstj. lét ekki við það eitt sitja að vera kyrr í EFTA, heldur gerði þáv. ríkisstj. undir forustu Framsfl. og með stuðningi Alþb. viðskiptasamning við Efnahagsbandalagið, við það voðalega afl, við þá voðalegu stofnun Efnahagsbandalagið — samning sem var í eðli sínu nákvæmlega eins og aðildarsamningur okkar að EFTA. Svo rækilega tóku forsvarsmenn þessara flokka aftur hvert einasta orð sem þeir höfðu sagt í 5 ár um aðild að EFTA og nokkur viðskiptatengsl við Efnahagsbandalagið.

Það er svo sem ekkert nýtt á þessum áratug, að forustumenn þessara flokka geri allt annað en þeir sögðust ætla að gera meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, svo að ég fer í sjálfu sér ekki fleiri orðum um það. Hitt skiptir miklu meira máli, að vinstri stjórnin svokallaða og sú stjórn, sem nú situr, þessar tvær stjórnir hafa ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru íslenskum iðnaði 1970 af hálfu þáv. ríkisstj. Við þau hefur ekki verið staðið. Og brigðmælin eru fyrst og fremst fólgin í því, að enn búum við, við söluskatt í stað virðisaukaskatts og m. a. s. við miklu hærri söluskatt en var þegar við gengum í EFTA á sínum tíma. Og þeim mun hærri sem söluskatturinn er, þeim mun meira er ranglætið gagnvart iðnaðinum, þeim mun ójafnari er samkeppnisaðstaða íslenskra iðnfyrirtækja gagnvart iðnfyrirtækjum í öðrum EFTA-löndum. M. ö. o.: allar götur síðan 1970 hefur íslenskur iðnaður verið látinn greiða söluskatt, sem keppinautar hans hafa ekki greitt vegna þess að þeir hafa greitt virðisaukaskatt. Allar götur síðan við gengum í EFTA hefur íslenskum iðnaði verið mismunað með þessum hætti. Það hafa verið lagðar á hann byrðar sem samkeppnisiðnaðurinn í hinum EFTA-löndunum hefur ekki þurft að bera. Og auðvitað er þetta ranglátt. Þetta ranglæti hefur orðið þeim mun meira sem söluskatturinn hefur hækkað, en hann hefur stórhækkað á þessum áratug og ójöfnuðurinn gagnvart íslenskum iðnaði þar með vaxið.

Þennan uppsafnaða söluskatt, sem innheimtur hefur verið frá því að við gengum í EFTA, hefði átt að endurgreiða jafnóðum. Íslenskur iðnaður hefur verið látinn greiða söluskatt í 7–8 ár, gjald til ríkissjóðs í formi söluskatts, sem keppinautar hans hafa ekki þurft að greiða. Ég tel því hiklaust að fullyrða megi að íslenskur iðnaður eigi beinlínis hjá ríkissjóði þær upphæðir sem hér er um að ræða og að ríkissjóður eigi að endurgreiða íslenskum iðnaði heildarupphæðina í einu eða öðru formi.

Þess ber að sjálfsögðu að geta, að á árunum 1974 og 1975 endurgreiddi ríkissjóður uppsafnaðan söluskatt af útfluttum iðnaðarvörum áranna 1973–1974. En það má til sanns vegar færa, að greiðsla söluskatts hér miðað við virðisaukakerfið í nágrannalöndunum bitnar auðvitað þyngst á útflutningsiðnaðinum. Þess vegna var þó vinstri stjórnin ekki samviskulausari en svo, að það var hafin á árinu 1974 endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti til iðnaðarins vegna útflutnings og það var aftur gert árið 1975. Þetta var gert vegna útflutnings 1973 og 1974. En síðan 1975 hafa engar endurgreiðslur, ekki einu sinni vegna útflutnings, átt sér stað, — engar. M. ö. o.: það hefur ekkert verið endurgreitt af uppsöfnuðum söluskatti á útflutningi á árunum 1975 og 1976. Iðnaðurinn hefur verið svikinn um uppsafnaðan söluskatt, m. a. s. af útflutningnum. á þessum tveimur árum, á árunum 1975 0g 1976. Það er fyrst núna, þegar hálf önnur vika er eftir af starfstíma síðasta þingsins á Þessu kjörtímabili, sem kemur fram frv. sem boðar að nú skuli náðarsamlegast endurgreiða söluskatt af útfluttum iðnaðarvörum frá 1977, sem mér er tjáð, þó að það sé ekki tekið fram í frv., að nemi 235 millj. kr.

Það, sem iðnaðurinn á von á samkv. þessu frv., er endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts af útflutningi ársins 1977, en sú upphæð nemur 235 millj. kr. Og fyrirætlun um þetta er tilkynnt hálfri annarri viku fyrir þinglok.

Með þessu móti er engan veginn tekið á þessu máli eins og réttmætir hagsmunir iðnaðarins krefjast. Ég segi það aftur: Íslenskur iðnaður í raun og veru kröfu til þess að fá endurgreiddan uppsafnaðan söluskatt, ekki aðeins á öllum útflutningi síðan gengið var í EFTA, heldur og á allri innanlandssölunni á EFTA-vörum síðan það átti sér stað, og þar verður um miklu, miklu meiri fjárhæð að ræða heldur en varðandi útflutninginn einan. En hitt er rétt, að sárast er ranglætið gagnvart útflutningsiðnaðinum, og samt hefur það aðeins verið bætt fyrir tvö ár, 1973–1974, og nú á að bæta það fyrir árið 1977. Þetta mundi einhver einhvern tíma hafa kallað hundsbætur.

En um hvað er þetta frv. að öðru leyti? Um hvað er það fyrst og fremst? Það er fyrst og fremst um það að bæta samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart EFTA-iðnvörum á íslenskum markaði með því að hækka innfluttu vörurnar með 3% innflutningsgjaldi. Og það verður að taka fram, að auðvitað má þá búast við því að hliðstæðar innlendar iðnaðarvörur komi til með að hækka í hlutfalli við það sem erlendar iðnaðarvörur hækka vegna þessa nýja 3% jöfnunargjalds eða 3% innflutningsgjalds. Gert er ráð fyr8r því, að þetta 3% innflutningsgjald verði tæpar 700 millj. á þessu ári, en um 1100 millj., eða 1080 millj., ef miðað er við heilt ár. Hér er m. ö. o. um það að ræða að lagt er nýtt gjald á vissar innflutningsvörur sem gefur um það bil 1 milljarð í tekjur miðað við eitt ár. Og hver á að borga þennan milljarð? Hver á að borga hann? Það eiga íslenskir neytendur að gera. Það er kjarni þessa frv. Íslenskir neytendur eiga nú að bæta fyrir vanrækslusyndir tveggja síðustu ríkisstj. gagnvart íslenskum iðnaði með því að borga 1 milljarð á ári.

Þetta er réttlæti þeirrar ríkisstj., sem nú situr, gagnvart íslenskum iðnaði. Auðvitað munu íslenskir neytendur og málsvarar þeirra ekki taka þessu með þögninni, það er alveg augljóst mál. Það er ekki skylda þeirra að bæta fyrir það sem tvær ríkisstj. undanfarin 7–8 ár hafa þurft af íslenskum iðnaði með rangindum, fyrst og fremst með vanrækslu sem í hafa fallist veruleg rangindi. Auk þess eru ákvæði frv. um ráðstöfun á þessum 800 þús. kr. á þessu ári með þeim hætti, að í raun og veru er ekki boðlegt að sýna það. Alþ. ætlar að samþykkja að á skuli lagt gjald sem ríkisstj. ráðstafar eftir geðþótta. Það eru engar fastar reglur settar í frv. um það, hvernig þessum tekjum skuli ráðstafað, og það held ég að sé nær einsdæmi, að lagt sé á gjald sem nemur hvorki meira né minna en 1 milljarði, rúmum milliarði á ársgrundvelli, án þess að settar séu fastar reglur um það. hvernig með tekjurnar skuli farið. En það er ekki gert í þessu frv. Það eitt út af fyrir sig væri alveg mögulegt til þess að snúast gegn frv.

Það er ekkert um það sagt heldur í þessu frv. hversu mikil áhrif til hækkunar á vísitölunni þetta nýja gjald mundi hafa. Um það munum við að sjálfsögðu, sem eigum sæti í fjh.- og viðskn. vilja fá nákvæmar upplýsingar. Ekki fer hjá því að gjald, sem færir ríkissjóði 1 milljarð í tekjur á ári, hafi talsverð áhrif til hækkunar á vísitölunni. Og þetta gerist samtímis því sem Alþ. þefur talið nauðsynlegt að skerða vísitöluuppbætur til launþega um helming, Þetta kemur ekki til með að milda afstöðu neytenda og fulltrúa þeirra til þessara fyrirhuguðu ráðagerða.

Annars er það athyglisvert, hvað hér gerist í fjármálum ríkisins og fjármálum yfirleitt á allra síðustu dögum þessa þings.Það hefur verið fjallað um það á allra síðustu dögum í miklum skyndingi að leggja nýtt gjald á sölu allra landbúnaðarafurða sem renna á til Stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Þetta 1% gjald til Stofnlánadeildarinnar gefur í tekjur einhvers staðar á milli 900 og 1000 millj. kr. tæplega milljarð. Það er einn milljarður þar, annar milljarður hér. Hver á að borga? Neytendur í landinu. Á örfáum dögum — og það eru síðustu starfsdagar þingsins — er Alþ. að fjalla um frv. sem þýða 2 milljarða álögur á íslenska neytendur.

Um stofnlánadeildargjaldið er það að segja, að það er réttlætt, eins og komið hefur fram í umr., með því að að öðrum kosti mundi vaxtaliður verðlagsgrundvallar landbúnaðarins hækka. Um það hafa verið gefin munnleg fyrirheit, að ef þetta gjald verði samþykkt, þá mundi vaxtaliðurinn ekki hækka. Það er sagt, að áhrifin á vísitöluna séu svipuð af 1% gjaldinu og af réttlætanlegri vaxtahækkun í verlagsgrundvellinum. Ég hef enga sönnun fyrir því, að þetta sé svo. Mér var raunar tjáð í morgun af sérfróðum fönnum, að engir útreikningar hafa verið gerðir um þetta, þeir væru ekki til og þetta væru fullyrðingar út í bláinn. Það var einn af fulltrúum landbúnaðarins sem tjáði mér að hann hefði enga útreikninga séð um þetta. En látum það vera. Ég skal ekki bera neitt á móti því, að þetta kunni að vera rétt, að áhrifin á vísitöluna mundu verða svipuð af réttmætri hækkun vaxta í búvörugrundvellinum annars vegar og 1% sölugjaldinu hins vegar. En það jafngildir ekki því, að þetta séu jafngóðar eða jafnslæmar ráðstafanir eða jafnréttlætanlegar ráðstafanir, vegna þess að með því að halda vöxtunum á lánum til landbúnaðarins niðri, en útvega stofnlánadeildinni tekjur með almennu 1% sölugjaldi á allar vörur, er verið að ívilna fjárfestingu í landbúnaði með óeðlilega lágum vöxtum. M. ö. o.: það er ýtt undir aukna fjárfestingu í landbúnaði. Þetta er þveröfug stefna við það sem nauðsynlegt er. Það eina rétta í þessu efni væri að draga úr fjárfestingu í landbúnaði. Ný fjárfesting þar skilar engum arði, það er margsannað og á móti því er ekki borið með neinum rökum, sem ég og margir fleiri hafa fullyrt í þeim efnum. Viðbótarfjárfesting í landbúnaði á þessu ári eða því næsta skilar bókstaflega engum arði. Ef nokkuð er, þá skilar hún neikvæðum arði, vegna þess að hún stuðlar að aukinni framleiðslu sem þjóðin í heild verður að greiða með. Að leggja 1% gjald almennt á söluverð landbúnaðarafurða í stað þess að hækka vexti er því algerlega röng stefna. Það er stefna sem gengur gegn allri skynsemi í efnahagsmálum og landbúnaðarmálum.

En um hinn milljarðinn, sem ríkissjóður ætlar að láta neytendur borga og segist ætla að nota með einhverjum hætti til hagsbóta fyrir iðnaðinn, gildir það, að auðvitað á iðnaðurinn rétt á þeim milljarði, hann á rétt á miklu meira en þeim milljarði. Það hafa verið hafðir af honum — töluna veit ég ekki, ég hef ekki getað fengið hana — nokkrir milljarðar á undanförnum 7–8 árum. En nú á að skila honum 1 milljarði í einhverju formi sem ríkisstj. ætlar sér að ákveða. Hver á að borga þennan milljarð? Sami aðilinn og á að borga 1% stofnlánagjaldið til landbúnaðarins, þ. e. íslenskur almenningur, íslenskir neytendur, íslenskir launþegar. Það er þetta, sem er rangt við þetta frv. Það er ekkert rangt í því, að íslenskur iðnaður fái með einhverjum hætti 1 milljarð, — ég segi það enn, hann á rétt á meiru en 1 milljarði, vegna þess misréttis sem hann hefur orðið við að búa, — en það er ríkissjóður sem á að skila honum, ekki þessum 1 milljarði, heldur stórri fjárhæð til viðbótar. kannske öðrum eða jafnvel 2 milljörðum til viðbótar, af því að ríkissjóður hefur látið iðnaðinn borga þessa upphæð með röngu. Það var hallað á iðnaðinn með því að leggja þessa greiðslu á hann, og þá ber ríkissjóði skylda til þess að skila því aftur. Og í raun og veru er það eitt í samræmi við þau fyrirheit sem íslenskum iðnaði voru gefin þegar Ísland gerðist aðili að EFTA.

Ég á sæti í þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, og þar mun ég fyrir mitt leyti ganga eftir því að fá ýmsar upplýsingar sem illilega vantar í grg. með þessu frv. fyrst og fremst vil ég fá að vita — og það er rétt að skýra frá því strax við 1. umr. — hver hækkun vísitölunnar verður vegna þessa 3% gjalds. Í því sambandi mun ég einnig óska eftir upplýsingum um það, hver áhrif til hækkunar á vísitölunni verða af hinum milljarðinum, sem deild landbúnaðarins á að fá, þ. e. a. s. hvað hv. Alþ. á síðustu starfsdögum sínum ætlar að leggja mikið á almenning og hvað þessar álögur kosta eða hvað þær þýða í hækkun vísitölunnar. Sömuleiðis mun ég gera tilraun til þess að fá upplýsingar um það, sem mér ekki hefur tekist að fá eftir að frv. var lagt fram í gær, hvað uppsafnaður söluskattur nemur mikilli fjárhæð, annars vegar á útfluttar vörur og hins vegar í heild, því að í raun og veru er það heildartalan, sem ég tel máli skipta, sem ranglega hefur verið höfð af iðnaðinum, þótt hitt sé algert lágmark, að honum sé skilað aftur þeim uppsafnaða söluskatti sem tekinn hefur verið af útfluttum vörum. En frv, gerir eingöngu ráð fyrir greiðslu á útflutningi 1977, en hins vegar engu fyrir 1976 og 1975.

Ég lýk máli mínu á því að gera grein fyrir því fyrir fram, eftir hvaða upplýsingum ég mun óska í n. Ég legg áherslu á að málinu verði ekki hraðað meira en svo, að þær upplýsingar geti fengist, því ég tel þm, þurfa að fá svar við þeim spurningum, sem ég hér varpaði fram, áður en þingheimur eða þessi hv. d. tekur endanlega afstöðu til málsins.