27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

54. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða till. til þál. um tónmenntafræðslu í grunnskóla, flutta af hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur og 5 öðrum hv. þm. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj., að hún hlutist til um að hafinn verði nú þegar af hálfu menntmrn. skipulegur undirbúningur að tónmenntafræðslu í formi námskeiða eða farkennslu í þeim grunnskólum landsins þar sem engin slík fræðsla er veitt nú og verður ekki við komið með venjulegum lögboðnum hætti.

Áhersla verði lögð á að tengja starf tónlistarskóla, þar sem þeir eru fyrir hendi, við tónmenntafræðslu grunnskólanna.

Þá verði og tónmenntafræðsla felld, sem valgrein, inn í nám kennaraefna við Kennaraháskóla Íslands til viðbótar námskjarna.“

Allshn. hefur fjallað um þessa till. og fengið um hana umsagnir frá menntmrn., Kennaraháskóla Íslands og Skólastjórafélagi Íslands. Umsagnir þessar eru allar jákvæðar, en bent er á að skortur á tónkennurum og fjármagni standi tónmenntinni fyrir þrifum. N. álítur að sú leið, sem till. felur í sér um eflingu námskeiða og farkennslu, sé allrar athygli verð. N. vill fyrir sitt leyti mæla með samþykkt till., með þeirri breytingu þó að tónmennt sé tekin upp sem valgrein í Kennaraháskóla Íslands, þar sem það sýnist óraunhæft, eins og húsnæði og aðstöðu allri er háttað hjá skólanum að samþykkja till., a. m. k. að svo stöddu. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vísa til umsagnar Kennaraháskóla Íslands, sem er undirrituð af Baldri Jónssyni, en þar segir m. a.:

„Kennaraháskólanum er að sjálfsögðu bæði ljúft og skylt að leitast við að bæta úr skorti á bæfum kennurum á þessu sviði grunnskólans sem öðrum. En jafnframt verður ekki hjá því komist að vekja athygli hv. alþm. á því, hve skólinn er vanbúinn að bæta á sig nýjum verkefnum og raunar að valda þeim verkefnum, sem þegar eru lögð á hann. Orsök þessara vandkvæða skólans er það fjármunalega svelti sem hann hefur staðið í um árabil og stendur enn. Á þetta jafnt við um skort á húsnæði, föstum og traustum kennslukrafti og kennslutækjum og gögnum. Ljóst er að skólinn getur ekki hýst verklega tónmenntakennslu nema að óverulegu leyti í eigin húsakynnum enn um sinn, þar yrði að koma til einhver samvinna við aðra aðila uns úr verður bætt heima fyrir.“

Það er ekki síst með hliðsjón og tilvísun til þessara ummæla sem n. telur rétt að gera þá breyt. á þessari till. til þál., að síðasta mgr. till. falli niður, þ. e. a. s. setningin hljóðar svo:

„Þá verði tónmenntafræðsla felld sem valgrein inn í nám kennaraefna við Kennaraháskóla Íslands við viðbótar námskjarna.“

Þessi brtt. stafar ekki af því, að n. sé andvíg því að þessi leið sé valin, en hún telur að áður en þessi ákvörðun sé tekin þurfi að útvega fjármagn og bæta aðstöðuna í skólanum, þannig að hann geti raunverulega sinnt þessu verkefni sínu.