03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki verður það talið til nýlundu að stjórnarandstæðingar hér á Alþ. telji fjárlagafrv. ríkisstj. lýsa óskynsamlegri stefnu í þjóðmálum og lausatökum á stjórn ríkisfjármála. Það hefur verið árvíss viðburður allt yfirstandandi kjörtímabil.

Hv. þm. Gils Guðmundsson benti á það í vandlætingartón hér áðan, hversu niðurstöðutölur fjárlaga hafa hækkað frá einu ári til annars, og hann benti á þær tölur einar án eðlilegrar viðmiðunar. Hins vegar ætla ég að menn geti verið sammála um að raunveruleg hækkun fjárlaga, hækkun sem á þeim verður í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, sé varhugaverð og til þess fallin að auka þenslu í þjóðfélaginu og raska efnahagslegu jafnvægi. Þess vegna mun ég með örfáum orðum rifja upp og bera saman fjárlög síðustu ára.

Hvernig eru þá þau fjárlög sem hv. þm. Gils Guðmundsson gumaði af í sínu máli? Það voru fjárlög ársins 1974 sem voru þau síðustu frá hendi vinstri stjórnarinnar. Þrátt fyrir það að heildarútgjöld ríkisins samkv. þeim svöruðu til þess að vera 29.6% af þjóðarframleiðslu á því ári, þá voru þau einnig ótraust að því leyti, að greiðslur þess árs fóru úr 29 milljörðum kr, upp í 41 milljarð kr. eða 12 milljarða kr. fram úr áætlun fjárlaganna. Ríkisreikningurinn sýndi útgjöld sem voru 39% umfram fjárlög.

Við gerð fjárlaganna fyrir árið 1975 gætti þessara óhollu áhrifa frá vinstristjórnartímanum enn í þeim mæli, að fjárlög fyrir árið 1975 svöruðu til þess að vera 31.4% af þjóðarframleiðslu. Hins vegar reyndust þau trúverðugri en fjárlög fyrra árs, þrátt fyrir ýmsa utanaðkomandi erfiðleika, svo að frávik ríkisreiknings á greiðslugrunni frá niðurstöðum fjárlaga reyndist þó ekki vera meiri en 21.6% á móti 31.4% árið áður.

Fjárlög ársins 1976 svöruðu til þess að vera 27.6% af þjóðarframleiðslu og frávík ríkisreiknings á greiðslugrunni frá þeim fjárlögum varð 16.1% á móti 31.4% árið 1974.

Fjárlög fyrir árið 1977 verða í hlutfalli við þjóðarframleiðsluna sennilega um 27.5%, og allar líkur benda til að frávik ríkisreiknings frá þeim verði hið allra minnsta sem orðið hefur á þessum árum og fari eitthvað niður fyrir 10% á móti 31.4% á síðasta ári sem vinstri stjórnin bar ábyrgð á fjárlagagerðinni.

Þetta er vissulega hagstæð þróun sem vert er að hafa í huga þegar rætt er um stjórn ríkisfjármála. Þessi þróun hefur fengist fyrir þær kerfisbreytingar sem hæstv. fjmrh, hefur komið á og leitt hafa til staðbetra eftirlits með greiðslum úr ríkissjóði og fljótvirkari aðgerða en áður varð við komið þegar greiðsluáætlanir sem byggðar eru á fjárveitingum á fjárlögum fara út fyrir settan ramma. Með þessari kerfisbreytingu hefur einnig orðið mun auðveldara að hafa raunhæfan stuðning af útgjaldastöðu ríkissjóðs við fjárlagagerð næsta árs, og á þann hátt hafa fengist raunhæfari vinnubrögð og minna frávik orðið frá fjárlögunum.

Þótt fjárlagafrv. fyrir árið 1978 sýni háa niðurstöðutölu fyrir heildarútgjöld ríkisins, eða 123.1 milljarð kr., eins og getið var um áðan, þá er það þó ekki meira en sem svarar 27.3% áætlaðrar þjóðarframleiðslu á sama ári. Af þessu má ráða að veruleg lækkun hefur orðið á fjárlögunum í raun á þessum árum þegar munar ekki minna en 4% af þjóðarframleiðslu hvað þau eru nú lægri en þegar þau voru hæst og sú upphæð er umtalsverð þegar þjóðarframleiðslan er áætluð að verða um 450 milljarðar kr. á næsta ári.

Það er gott til þess að vita, að veruleg breyting hefur orðið á þjóðarbúskapnum í jákvæða átt á kjörtímabilinu. Verðþenslan hefur verið erfiðust viðfangs af þeim þáttum efnahagsmála sem við er að fást. Verðbólgan, eins og hún var árið 1974, þegar hún var 53%, var öllu fjármálakerfinu þung í skauti og olli atvinnuvegunum erfiðleikum og samkeppnisvanda á erlendum mörkuðum. Um mánaðamótin júní–júlí í sumar var verðbólga síðustu 12 mánaða komin niður í um það bil 26%, og hafði þá minnkað um helming frá því sem hún var mest. En nú hafa aðrir launasamningar, sem gerðir hafa verið á þessu ári, raskað jákvæðri þróun síðustu ára og stefnir nú í tvísýnu þeim árangri sem náðst hefur í því að draga úr hraða verðþenslunnar. Ríkisstj. mun næstu mánuði leggja á það megináherslu að sporna við vexti verðbólgunnar og beita til þess þeim úrræðum sem hún og Alþ. hafa yfir að ráða. Þá er mikilvægt að allur almenningur skynji hættuna og komi til liðs við stjórnvöld og treysti stöðu lands og þjóðar.

Hér hefur ekki komið til atvinnuleysis á Íslandi. Atvinnuöryggið hefur verið svo traust sem það getur best verið. því skyldu menn varast að ganga lengra í kröfum á hendur atvinnuvegunum en komið er. Þótt mönnum gleymist það ekki að ríkisstj. hefur með samningum tryggt Íslendingum einum rétt til fiskveiða í 200 mílna landhelgi og með fiskileit og rannsóknum lagt grundvöll að hagnýtingu áður ónýttra fisktegunda, þá helgar það ekki rétt manna til þess að gera óhóflegar kröfur til sjávarútvegsins. Frá sjávarútvegi fæst meginhluti gjaldeyristekna okkar, og því verður það eins konar varðstaða um fjöregg þjóðarinnar að honum séu búin þau skilyrði til rekstraröryggis að hann fái staðist samkeppni á erlendum mörkuðum.

Atvinnulíf í landinu er svo slungið í eina keðju að hún má hvergi rofna. Þar verður einn að styðja að viðgangi annars. Svo er t.d. um sjávarútveg og landbúnað vítt og breitt um landið. Sjávarþorpin, sem með framleiðslu sinni leggja þjóðinni til uppistöðuna að gjaldeyristekjunum, hafa óvefengjanlegan stuðning í að eiga uppland og landbúnaðarframleiðslu í nágrenni sínu. Og undirstaða allrar iðnaðarframleiðslu, sem fer til útflutnings, kemur frá sjávarútvegi og landbúnaði. Þaðan er runnið megnið af þeim hráefnum sem útflutningsiðnaðurinn nærist á. Þjóð í vexti hlýtur að leggja áherslu á iðnaðinn, úrvinnslu hins innlenda hráefnis sem aflað er jöfnum höndum til sjós og lands. Þessa höfuðþætti þarf því að tryggja sem best og kanna stöðu þeirra jafnt og þétt.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstj. gert gangskör að því að sveigja þá lagasetningu, sem varðar sjávarútveginn, að kröfum tímans og til þeirra aðstæðna sem upp hafa komið við stækkaða landhelgi. Þar hefur verið um miklar breytingar að ræða á öllum sviðum þess atvinnuvegar, jafnt um nýtingu fiskimiðanna, hlutaskiptum sjómanna og aðstöðu fiskiðnaðarins. Á sama hátt hefur verið hafin endurskoðun ýmiss konar löggjafar sem landbúnaðinn varðar. Fátt eitt hefur enn komið til afgreiðslu á Alþ., en margs konar athuganir eru í gangi um veigamikla þætti landbúnaðarins, svo sem fjárfestingarmál, verðlagsmál, fræðslumál og fleira sem þyrfti að komast áfram hið fyrsta, því að tíminn krefst jafnan ákveðinna breytinga þótt ekki sé hlaupið frá höfuðstefnumiðum sem mótast hafa í aldanna rás.

Iðnaðurinn á Íslandi er yngstur þessara atvinnuvega og þess vegna í stöðugri þróun. Stefnumótun í þeirri atvinnugrein er þar af leiðandi síst sjálfgefin. Ríkisstj. hefur haft þetta sjónarmið í huga og hlutast til um margs konar lagasetningu til styrktar iðnaðaruppbyggingu í landinu. M.a. hefur Iðnlánasjóður verið efldur verulega svo og Iðnrekstrarsjóður. Með sérstakri kynningu á stöðu iðnaðarins hefur komið fram hinn almenni áhugi fyrir því að bæta skilyrði fyrir iðnrekstri, bæði almennum iðnaði og iðnaði í stærra formi, enda nærist hann á íslenskum orkugjöfum og íslenskum hráefnum.

Ef vel á að farnast í íslenskum efnahagsmálum verður að vera samræmi í afkomumöguleikum atvinnuveganna í landinu. Ríkisstj. hefur lagt á það kapp að gæta jafnvægis um aðstöðu þeirra eftir því sem kostur er, eins og ég hef í örstuttu máli leitast við að skýra fyrir áheyrendum mínum, enda er það forsenda almennrar velmegunar í landinu, að ekki hallist á um afkomu fólksins, hvaða atvinnu sem það stundar og hvar sem það er statt.

Sú þjóðmálastefna, sem ríkisstj. hefur haft, hefur bægt frá okkur hörmungum atvinnuleysis og lengst af leitt til minnkandi verðbólgu. Nú hefur dýrtíðarvöxtur færst í aukana að nýju. Það er ætlun ríkisstj. að halda uppi atvinnu í landinu og reyna til þrautar að sigrast á verðbólgunni þrátt fyrir áföll undangenginna mánaða.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Þökk þeim sem hlýddu. Góða nótt.