27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Það er stundum þegar ég hlusta á hv. þm. Karvel Pálmason, að ég velti fyrir mér hvort tal hans stafi af því að hann hafi sefjað sig upp í króníska tortryggni gagnvart öllum þeim sem sitja ekki í flokki hans eða hvort það er vegna þess að hann hefur svo óskaplega gaman af því að tala í smæstu málum og þvæla um þau og rugla með þau þannig að annar skilningur sé lagður í mjög einfalda íslensku. Ég veit ekki hvor ástæðan er fyrir þessari ræðu, en ég held, að það þurfi meiri háttar skilningstregðu til þess að fá upp þennan skilning og þær útskýringar á umsögn flugmálastjóra sem ég hef lesið upp og við reyndar báðir.

Þetta mál er mjög einfalt. Það er lögð fram till. til þál. um að stjórnvöld láti gera athugun á tilteknu máli. Þessari till. er vísað til umsagnar þeirra aðila, sem með þau fara, og komu fram mjög ljósar upplýsingar um að þessi athugun, sem beðið er um, verði framkvæmd nú á þessu ári, þ. e. a. s. það er búið að samþykkja að gera þetta, sem till. felur í sér. Ég held að þetta sé svo einfalt að ekki þurfi að halda hálftíma ræðu út af þessu og komast að einhverri annarri niðurstöðu.

Ég vek athygli á því líka, að það kemur mjög skýrt fram í nál. allshn., að hún lítur svo á, að þessi athugun verði framkvæmd og flugmálastjóri eða flugmálastjórn og flugráð séu að segja frá því í umsögn sinni, sbr. tilvísað bréf. Það kemur jafnframt fram í ummælum hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, að sami skilningur er fyrir hendi, þannig að þetta fer ekkert milli mála. Það segir í bréfinu, að samþykkt sé að flugmálastjórn veiti umbeðna umsögn um þær úrbætur, sem getið er um í till., og verði væntanlega unnið að þeirri umsögn n. k. sumar með það fyrir augum að hún liggi fyrir n. k. haust fyrir fjárlagaumr. Ég held að það væri í meira lagi óþinglegt, ef Sþ. færi að samþykkja till. um að gera eitthvað ákveðið verk, framkvæma eitthvað ákveðið verk sem búið er að samþykkja að skuli framkvæmt. Við mundum gera okkur að viðundrum í þinginu með því að samþykkja slíka till. um að skora á stjórnvöld að gera eitthvað sem búið er að ákveða að gert skuli.

Nei, ég held að þetta séu ónauðsynlegar umr. um mjög einfalt mál. Og að vera að tala um að allshn. sé að senda Vestfirðingum kaldar kveðjur og þetta sífellda þokuvæl og þessi barlómur frá þessum hv. þm. fyrir hönd Vestfirðinga, — ég veit ekki um aðra þm., en ég á bágt með að trúa því, að Vestfirðingar ætlist til þess, að slíkur málflutningur sé hafður uppi fyrir þeirra hönd í þinginu. Ég efast um að það sé í samræmi við það stolt og þann hugsunarhátt, sem ríkir þar fyrir vestan, að láta vera að vorkenna sér sífellt og vilja láta líta á sig sem minni máttar eða undirmálsmenn í þjóðfélaginu.

Ég vil lýsa því yfir, a. m. k. fyrir mína hönd, að auðvitað kemur ekki til greina að fara að endurskoða afstöðu n. eða fara að samþykkja till., einfaldlega vegna þess að það er búið að samþykkja að gera það sem till. felur í sér.