27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka fram í upphafi máls míns, að ég tala hér öllu fremur sem flugráðsmaður en Vestfjarðaþm.

Mér þótti koma fram töluverður misskilningur í orðum hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar, sem ég vil reyna að leiðrétta. Ég vil í fyrsta lagi upplýsa, að þegar núv. flugráð tók til starfa var mörkuð þar mjög ákveðin stefna í þessum málum. Það var ákveðið að láta öryggismál flugsins ganga fyrir öllu öðru og fyrst og fremst öryggi í aðflugi að flugvöllum, sem víða er hér mjög ábótavant. Þetta varð t. d. til þess, að malbikun brauta úti um land var yfirleitt frestað, því að flugmenn og öryggisnefnd þeirra er einróma á því, að slíkt sé ekki í fyrstu röð öryggismála, heldur aðflugstæki ýmiss konar. Það varð einnig til þess, að lýsingu flugvalla, sem var nokkuð ofarlega á dagskrá áður, var frestað. Það var talið mikilvægara að fá fullkomnari aðflugstæki en að lýsa upp flugvelli. Þetta var einróma niðurstaða t. d. þeirra flugmanna sem sitja í flugráði, og ég vil jafnvel leyfa mér ekki síst að vísa til þess flugmanns sem flýgur innanlandsflug og er þar þátttakandi.

Ég vil jafnframt segja að þetta mál allt og öryggismál hinna ýmsu landshluta voru vandlega athuguð. Flugráð var einróma á því, að Vestfirðirnir væru þar í sérstökum flokki og kannske Austfirðir að sumu leyti. Þó er skárra aðflug t. d. að Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði heldur en finnst nokkurs staðar á Vestfjörðum. Um þetta voru allir sammála og öryggismál Vestfjarða voru því sérstaklega athuguð. Staðreyndin er hins vegar sú, að þegar farið er fram á 1300 millj. og fjárveitingin raunverulega skorin niður í 530 millj., eins og nú er, þá er ekki unnt að setja allt það fjármagn í Vestfirðina. Það væri auðvelt að koma því öllu þar fyrir, en ég hygg að Vestfirðingar geti sannarlega fagnað því, að framlag til Vestfjarða hefur ávallt verið í fremstu röð. Það er rétt, að nokkrir stórir flugvellir, eins og t. d. Akureyri þar sem umferð er gífurlega mikil og öryggisþáttum ýmsum ábótavant, og t. d. Reykjavík þar sem nálægt því hver einasti flugfarþegi fer um, hafa hlotið miklar fjárveitingar. Hjá því varð ekki komist og engin ástæða til þess. Vestfirðir hafa samt verið þarna mjög framarlega og um það — ég legg á það áherslu fullkomið samkomulag af öryggisástæðum flugsins á Vestfjörðum og einnig með tilliti til þess, hve Vestfirðingar eru háðir fluginu.

Ég vil geta þess þá í sambandi við þá liði, sem hér eru, að í 1. lið er talað um lýsingu og öryggistæki vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli. Í fyrrasumar var hafin uppsetning á svokölluðum miðlínusendi, sem sendir frá Ögri og gefur mjög örugga stefnu fyrir aðflug út Djúpið áður en flogið er inn á Ísafjarðarflugvöll. Því miður er ekki unnt vegna aðstæðna að koma slíkum sendi fyrir, eins og nafnið ber með sér, í miðlínu flugvallarins á Ísafirði. Fjöll varna því. Einnig verður fjarlægðarmælir — og er reyndar kominn upp núna — settur upp á Ögri. Þetta er samtals fjárfesting fyrir meira en 40 millj., ef ég man þá tölu rétt. Þetta gerbreytir öryggi aðflugs að Ísafjarðarflugvelli. Auk þess er radar þar til staðar, ef til hans þarf að grípa, en þetta eru langtum öruggari tæki, sem gera flugmanninum kleift að þurfa ekki að treysta á mann á jörðu niðri, heldur á tæki í eigin vél. Þetta tel ég mjög mikla framför og að verulegu leyti, þó lengi megi um bæta, fullnægja öryggiskröfum vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli. Ég legg áherslu á það, að lengi má um bæta, en þetta er þó mjög mikilvægur fyrsti áfangi.

Mikið hefur verið rætt um lýsingu á Ísafjarðarflugvöll og m. a. skoðaðar í flugráði teikningar að lágmarkskröfum sem gerðar eru, bæði alþjóðlegum og jafnvel niðurskornum slíkum kröfum, til þess að lýsa megi flugvelli. Ísafjarðarflugvöllur er langt, langt undir þeim kröfum. Fjöllin eru allt of nálægt til þess að þar megi setja ljós og nota þau í myrkri. Þau gætu kannske gert flugvélum kleift að fara á loft svona hálftíma lengur en reglur gera ráð fyrir, og það er nokkuð til þess vinnandi að vísu. En á að leggja í mikinn kostnað? Ég vona að aldrei verði nokkur flugvél göbbuð til þess að fljúga þarna inn í myrkri af því að það séu til ljós á Ísafjarðarflugvelli, ef ég má orða það svo. Það er stórhættulegt og kemur að mínu mati ekki til mála. Ég held að við verðum að viðurkenna það. Og af öllum flugvöllum á Vestfjörðum, — þetta hefur sérstaklega verið athugað og teiknað vandlega inn á kort og fjallað um þetta, — þá er aðeins einn flugvöllur sem talið er að geti komið til greina, þ. e. Patreksfjarðarflugvöllur. Fjallahringurinn er þar fulllokaður og kemur inn í þann radíus sem lágmarkskröfur gera ráð fyrir, en þó telur flugmálastjóri og starfslið hans að þetta komi til greina þar, enda verði ljósin notuð við góðar aðstæður og yrði þá að sjálfsögðu að vera á valdi flugvallarvarðar, að hann notaði þau eingöngu við góðar aðstæður. En sem sagt, þessari lýsingu, ekki bara þarna, heldur víðar, var frestað vegna þess að annað var talið mikilvægara og fjármagn ekki fyrir hendi t. d. til að lýsa Patreksfjarðarflugvöll, sem þó er á óskalata flugráðs, en hefur orðið að fresta vegna þess að fjárveitingar eru skornar mjög niður. Ég get ekki sagt um, hvenær tækifæri verður til að setja ljósin þar upp, sem ég fyrir mitt leyti — tel að eigi að gera.

Ég get svo getið þess, að ýmis önnur öryggismál hafa verið til umr., eins og t. d. að gera öryggissvæði við ytri enda flugbrautar við Ísafjarðarflugvöll fyrst og fremst, sem talin er dálítið varhugavert. Þar hefur verið byggt skýli fyrir sand, þannig að unnt sé að hafa sand á flugvelli á öllum tímum. Mun það vera, ég leyfi mér að fullyrða, það besta sandskýli sem hefur verið byggt hér á landi. Ég held að ekki sé annars staðar til svo stórt og gott skýli til geymslu á sandi. Þetta hefur því verið stöðugt í athugun og nokkuð unnist, eins og takmarkað fjármagn hefur leyft.

Um Önundarfjörð og Bolungarvík vil ég segja, að löngu áður en þessi till. kom fram var rætt um það í flugráði, hvort unnt yrði að byggja varaflugvöll, sérstaklega í Önundarfirði. Satt að segja hafa sérfræðingar, þegar ég hef talað við þá, ávallt vísað því á bug, að á Bolungarvík gæti orðið varaflugvöllur. En það er sjálfsagt að skoða það betur. Athygli hefur beinst að Önundarfirði, en í ljós hefur komið að það eru engar skýrslur til um veðurfar á Ísafirði og í Önundarfirði samtímis. Það eru engar mælingar til. Þannig liggur ekki fyrir hvort Önundarfjörður yrði opinn þegar Ísafjarðarflugvöllur er lokaður. Þetta þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir áður en lagt er í milljónatugaframkvæmd. Svo er náttúrlega, eins og við þm. Vestf. þekkjum ákaflega vel, ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt að fært sé á milli þessara flugvalla, — ef lent væri í Önundarfirði að vetri til væri opið til Ísafjarðar, — en að sjálfsögðu er flugið fyrst og fremst notað á Ísafirði. Og sú athugun, sem hér er gert ráð fyrir og ég kem að aðeins síðar og flugráð hefur ákveðið að gera, beinist ekki síst að því að kanna hvernig þessir tveir flugvellir mundu vinna saman, þ. e. a. s. varaflugvöllur í Önundarfirði og aðalflugvöllur á Ísafirði, og til þess þarf því miður að afla upplýsinga sem ekki liggja fyrir núna. Ég hefði fagnað því, ef þær upplýsingar hefðu legið fyrir. Reyndar má gjarnan koma fram hér, að ég harmaði það, þegar um þetta var rætt, að ekki hafði tekist að afla slíkra upplýsinga, því að á þetta hefur oft verið minnst, eins og ég sagði áður.

Um öryggisútbúnað og lýsingu á Þingeyrarflugvelli þarf ég lítið að segja til viðbótar. Lýsingin þar er háð sömu erfiðleikum og á öðrum flugvöllum á Vestfjörðum, þótt ekki sé þar eins erfitt og á Ísafjarðarflugvelli. Öryggisútbúnaður þar verður t. d. bættur í sumar með merkivita sem settur verður á Fontinn eða þar við, við Galtarvita, en einnig er gert ráð fyrir að breikka flugbrautina eða bæta réttara sagt kanta flugbrautarinnar, sem er mikið öryggi fyrir flugvélar. Slökkvitæki verða sett þar upp, og raunar gildir það sama um fleiri flugvelli, t. d. Patreksfjörð. Á Patreksfirði verður nýr aðflugsviti settur upp við fjörðinn o. fl., sem ég ætla ekki að fara að tína til, enda hygg ég að þetta hafi komið fram þegar fjárveiting var afgreidd til þessara flugvalla við fjárlagaafgreiðslu.

En það, sem ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á, er að innan flugráðs hafa öryggismál Vestfjarða notið mikils og fullkomins skilnings af öllum sem þar hafa setið, ég undanskil engan, og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að þótt miklu meira fjármagn hefði þurft að fást til þessara mála eins og til flugvallanna í heild, þá hafa Vestfirðir ekki farið varhluta af því sem hefur fengist, þótt miklu meira megi bæta. Ég held því að þessi aths. hv. þm. sé á töluverðum misskilningi byggð. Ég lýsi því fyrir mitt leyti, að ég mun fylgja því eftir, að þessum upplýsingum verði safnað sem ekki liggja nú þegar fyrir. Ég vona að það takist fyrir haustið. Því er lofað hér með og ég mun leggja áherslu á það. En eins og ég sagði áðan, þá er dálítið erfitt t. d. um veðurfar á þessum tveimur stöðum. Það hefur flugmálastjóri að sjálfsögðu staðfest þegar um þetta hefur verið rætt. Og m. a. með tilliti til þess eru flugöryggismál á Vestfjörðum í stöðugri athugun. T. d. hefur verið í athugun nú í tvö ár, hvort rétt væri að setja upp svokallaðan fjölstefnuvita á Þverfjalli, sem væri mikið öryggistæki fyrir flug á Vestfirðina. Ekki hefur þetta verið talið fært vegna þess að ný tækni, svokölluð Omega-staðsetningartæki, er að ryðja þessum fjölstefnuvitum úr vegi. Þess vegna hefur ekki verið talið fært að leggja í þann mikla kostnað, heldur athuga það mál betur. Þannig gæti ég nefnt fleiri dæmi um athugun á öryggi flugs á Vestfirði. Þar sem slík athugun er í gangi tel ég ákaflega eðlilega meðferð hjá hv. allshn. að leggja til að vísa þessu máli til ríkisstj. með þeirri rökstuddu dagskrá sem hér er flutt.