27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Það er ekki lítill akkur í því fyrir hv. þm. Karvel Pálmason að fá í lið með sér vitsmunaveruna og íslenskusérfræðinginn Sverri Hermannsson til þess að útskýra, hvað felst í umsögn flugmálastjóra. En ég verð nú samt að leyfa mér að lýsa því yfir, að skilningur hans í þessu máli er auðvitað algerlega rangur og á misskilningi byggður, og ég vona einfaldlega að svona misskilningur ríki ekki í huga hans í öðrum og stærri málum. Þetta skal ég útskýra nokkru nánar.

Þetta margumrædda bréf, sem vitnað er til, segir að samþykkt hafi verið að flugmálastjórn veitti umbeðna umsögn um þær úrbætur sem getið er um í till. Og hvernig er hægt að veita þessa umsögn um þessar úrbætur nema láta athugun fara fram, nema gera athugun á því, hvers eðlis þessar úrbætur séu? Og nú vísa ég til þess, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði, til að reyna að festa hendur á einhverju sem frá honum kemur af viti í þessum umr. Hann segir: „Það eina, sem við biðjum um, er að láta athuga þetta mál.“ — Þetta sagði hann orðrétt. Við höfum skilið bréfið svo, að flugmálastjórn sé búin að samþykkja að láta athuga málið. Þetta er ekki aðeins nokkuð augljóst af bréfi flugmálastjóra, heldur var ég búinn að fá sjálfur sem formaður allshn. upplýsingar um að þessi skilningur okkar væri réttur. Svo hefur hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir staðið hér upp — hún er einn af flm. till. — staðfest að flugmálastjóri hafi lýst því yfir við hana, eins og hún sagði orðrétt, „að till. og álitsgerð um þetta mál mundi skilað fyrir haustið.“ Ég get því ekki séð, að þetta fari nokkuð milli mála, og held að þetta sé ofureinfalt mál. Og enn til staðfestingar á þessu, ef menn eru í vafa um, hver sé skilningur og vilji hv. allshn., þá kemur eftirfarandi fram í hinni rökstuddu dagskrá okkar:

„Þar sem fram kemur í umsögn frá flugmálastjóra, að þegar hefur verið ákveðið, að fram fari sú athugun, sem þáltill. fjallar um, tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“

(KP: Það er rangt.) Ja, þetta er okkar skilningur. Þarna kemur því fram, að ef þessi rökstudda dagskrá er samþykkt, þá er það staðfest af Alþ., að við lítum svo á að þessi athugun hafi verið ákveðin. Það er því ekki verið að vísa málinu frá eða hafna því. Það er einmitt verið að staðfesta þann skilning sem ég hef hér margítrekað. Ég sagði ekki að það væri óþinglegt að tjá sig í málinu. Ég sagði að þegar lögð væri fram till. í þinginu og í millitíðinni, áður en að afgreiðslu till. kemur, er búið að samþykkja að framkvæma það sem till. felur í sér, þá finnst mér óþinglegt, og ég hygg að fleirum finnist það, að Alþ. sé að gera slíka ályktun um verk sem búið er að samþykkja að gert skuli. Því er ekki um nein afglöp að ræða, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson heldur fram. Þvert á móti eru þetta mjög eðlileg vinnubrögð. Þetta sagði ég 1. flm. þessarar till., Karvel Pálmasyni, hvernig umsögnin hljóðaði, hvernig allshn. öll ritaði um málið og skildi það. Ég lýsti því fyrir honum, að ég teldi eðlilegt að málið lægi kyrrt í n. þar sem það væri komið á rekspöl, það væri búið að samþykkja málið. En hann óskaði eftir því engu að síður, að afgreiðsla færi fram, og mæltist frekar til þess að allshn. afgreiddi málið. Ég sagði honum að hún gæti ekki afgreitt málið með öðrum hætti en þessum. Og svo koma menn og standa upp og eru að rífast yfir því, að við skulum vera að leggja fram þessa till. að rökstuddri dagskrá.

Ég vil endurtaka það sem ég hef sagt í þessari umr., að mér finnst fráleitt að allshn. fari að endurskoða afstöðu sína. Það liggur alveg ljóst fyrir, hver skilningur hennar er. Það kemur fram ákveðin viljayfirlýsing í tillögugerð hennar, og ég held að einfaldast sé að þingið sjálft taki afstöðu til þessa máls.