27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

41. mál, sérfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um skipulag sérfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, flutt af hv. þm. Helga Seljan og Stefáni Jónssyni. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipuleggja þjónustu sérfræðinga í sem flestum greinum læknisfræðinnar á heilsugæslustöðvum landsbyggðarinnar og auka og bæta þannig þá þjónustu, sem heilsugæslustöðvarnar eiga að veita samkv. 21. gr. laga um heilbrigðisþjónustu.

Áætlun um þessa sérfræðiþjónustu verði gerð af heilbrrn. og liggi fyrir eigi síðar en, 1. maí 1978 og jafnframt verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að hrinda áætluninni í framkvæmd þegar á næsta ári.“

Þessari till. var vísað til hv. allshn. og hún hefur tjáð sig um till. á þskj. 595, þar sem fram kemur að n. sé efnislega sammála þessari till., en vísar til þess, að nú hefur verið lagt fram á Alþ. stjfrv, til laga um heilbrigðisþjónustu þar sem fjallað er um heilsugæslu og skipulag hennar. Leggur allshn. til að till. verði afgreidd með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem lagt hefur verið fram á Alþ. stjfrv. til laga um heilbrigðisþjónustu, sem fjallar m. a. um efni þáltill. tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það má segja um þetta mál eins og það, sem hér var á dagskrá áðan, og ýmis önnur sem eru á dagskrá þessa fundar, að alltaf megi deila um hvernig n. eigi að afgreiða mál. Og víst er það rétt, að undir vissum kringumstæðum er farin sú leið að vísa málum til ríkisstj. frekar en salta þau í n. eða beinlínis leggja til að þau séu felld. Þegar um er að ræða till. eins og þessa, þar sem n., sem fjallar um málið, er efnislega alveg sammála því sem felst í till., en á sama tíma eða skömmu eftir að till. er lögð fram er lagt fram frv. um sama málaflokk, þá finnst allshn. óeðlilegt eftir atvikum að vera að vísa slíkri till. til ríkisstj., þar sem hún er þegar búin að tjá sig með því að leggja fram sitt frv. Þess vegna hefur allshn. valið þann kostinn í þessu máli og ýmsum öðrum að leggja til, að þessi till. sé afgreidd með rökstuddri dagskrá, og vísað til þess, að nefnt stjfrv. er komið fram.