27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

44. mál, fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Hér er um að ræða till. til þál., sem flutt er af hv. þm. Jóni Skaftasyni, um upplýsinga- og fræðslustarfsemi um efnahagsmál í sjónvarpi. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að beita sér fyrir því, að sjónvarpið hefji svo fljótt sem verða má reglulega upplýsinga- og fræðsluþætti um efnahagsmál í umsjá viðskiptadeildar Háskólans og Þjóðhagsstofnunar.“

Þessari till. var vísað til umsagnar Þjóðhagsstofnunar, viðskiptadeildar Háskóla Íslands og frétta- og fræðsludeildar sjónvarps. Tveir fyrrnefndu umsagnaraðilarnir mæltu með eflingu slíkrar fræðslu í sjónvarpi. Reyndar gerði frétta- og fræðsludeild það einnig, en vakti athygli n. á því, að nú þegar væri búið að ákveða og lengi hefðu verið í undirbúningi þættir um efnahagsmálafræðslu í sjónvarpinu, sem mundu verða undir umsjón dr. Þráins Eggertssonar og Ásmundar Stefánssonar. Þessir þættir verða væntanlega í dagskrá sjónvarps innan mjög skamms tíma. Af þessum ástæðum, þar sem ljóst er og fyrir liggur að það, sem felst raunverulega í till., hefur nú þegar verið samþykkt og ákveðið að gera, þá leggur allshn. til að þessi till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Þar sem upplýst er, að þegar hefur verið ákveðið að umrædd efnahagsmálafræðsla verði á dagskrá sjónvarpsins á þessu sumri, tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“