27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

6. mál, starfshættir Alþingis

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Till. sú, sem hér um ræðir, er flutt af hv. þm. Benedikt Gröndal og fjallar um bætta starfshætti Alþ. Hún er í sex liðum. Þar er kveðið á um að skipuð skuli sjö manna nefnd þm. til þess að gera breytingar á skipan og verkefnum fastanefnda þingsins, að láta fastanefndir starfa milli þinga, að setja í þingsköp reglur varðandi umr. utan dagskrár, að breyta meðferð þáltill., að taka upp forsætisnefnd og að staðfesta í lögum þá hefð, að þingforsetar gegni störfum milli þinga, jafnvel þegar þing er rofið.

Það er mat hv. allshn., að margar þessara till. séu athyglisverðar og það sé skammt undan að gera þurfi ýmsar slíkar breytingar á þingsköpum og öðrum lögum, sem lúta að Alþ. Þessari till. var vísað til umsagnar þriggja forseta Alþ., en n. barst ekki umsögn frá þeim. Hins vegar er það mat n., að þessi endurskoðun þurfi að haldast í hendur við endurskoðun á stjskr., sem m. a. snertir Alþ., svo og ýmislegt sem varðar kosningalög. Með vísan til þess, sem ég sagði áðan um það mál sem hér var á dagskrá næst á undan, þá hefur n. lagt til að þessi till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Þar sem allshn. hefur lagt fram till. til þál. um skipan nefndar sem m. a. skal fjalla um það mál, sem hér um ræðir, tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“