27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þeim ræðutíma, sem ég hef hér, get ég varla drepið á nema fátt eitt af því, sem ég vildi þó gera, af þeim fjölda mála sem liggja á borðum þm. og komið hafa til umr. Frá því að ég tók sæti á þingi finnst mér hafa haft mesta þýðingu frv. sem nýlega var lagt fram af hálfu stjórnarinnar, þ. e. frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þetta frv. ásamt fleiri er ríkisstj. að knýja í gegn nú í þinglok með hörku. Frv. er þó ekki þýðingarmikið hvað varðar almenna hagkvæmni fyrir launafólkið í landinu, heldur vegna þess að það speglar umbúðalaust stefnu ríkisstj. í veigamiklum atriðum og gefur nokkurn veginn örugga vissu um framhaldið, ef ekkert verður að gert.

Um þetta frv. hafa farið fram á þingfundum kátleg orðaskipti milli núv. viðskrh. Ólafs Jóhannessonar og viðskrh. viðreisnarstjórnarinnar, Gylfa Þ. Gíslasonar, þar sem báðir hafa af miklu kappi reynt að sannfæra verslunarvaldið, rammasta íhaldið í landinu, um að þeir hvor um sig hefðu verið og væru þess albúnir að leggja sig alla fram til að fá að stjórna landinu með Sjálfstfl. Gylfi Þ. Gíslason hefur fært að því rök, að frv. sé að efni til það sama og hann flutti á tíma viðreisnar, haustið 1969, og ekki um teljandi orðalagsbreytingar að ræða frá því sem þá var, en þá hafi Ólafur Jóhannesson beitt sér fyrir því, að frv. yrði fellt. Það hefur komið greinilega fram í hinum broslegu umr. þeirra, að þeir keppa um það, hvor muni verða trausts verðari að mati Sjálfstfl. að kosningum loknum. Að sjálfsögðu er það persónubundnara keppikefli hæstv. ráðh. Ólafs Jóhannessonar, þar sem hann enn um sinn er ótvíræður foringi Framsfl. og ekkert bendir til að hann hugsi til breytinga þar á. Öðru máli gegnir um Gylfa Þ. Gíslason sem nú býr sig undir það að láta af þingmennsku, en engu að siður reynir hann að skila hlutverkinu sæmilega af hendi til arftakanna.

Orðið „frelsi“ er mjög notað til skýringar á þessu frv. og óspart gefið í skyn að frjáls og eftirlitslaus verslunarálagning leiði til lækkaðs vöruverðs, samkeppnin fell slíkt í sér. Því er þó öfugt farið. Að geðþótta og kröfu ýmissa verslunaraðila komu fljótlega til umtalsverðar verðhækkanir eftir kjarasamningana s. l. vor. Þannig hækkaði verslunarálagningin almennt um 1.5 prósentustig snemma á haustdögum, en þá hækkun gekk illa að réttlæta með rökum. Við afgreiðslu fjárl. um s. l. áramót voru beinir skattar auknir og lagður á skyldusparnaður. Áhrif þessara aðgerða jafngiltu 2.5% rýrnun ráðstöfunartekna miðað við það sem annars hefði verið. Í framhaldi af þessu kom svo gengisfellingin og ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, sem m. a. fólu í sér ógildingu kjarasamninga með þeim hætti, sem kunnugt er, og hótun um að taka beina skatta út úr grundvelli vísitölunnar. Á sama tíma og launastéttirnar eru með lagaboði sviptar réttinum til að gera samninga á eðlilegan og frjálsan hátt er lagt til að verslunin í landinu fái það frelsi sem hún hefur lengi krafist, frelsi til að ákveða vöruverðið eftirlitslaust á kostnað launastéttanna, á kostnað alls vinnandi fólks í landinu. Samtímis því sem orðið „frelsi“ er misnotað svo herfilega til að túlka ágæti ákvörðunar ríkisstj. um að afnema eftirlit með verslunarálagningu er Morgunblaðið með síðdegiskálfum sínum látið básúna óspart að frjáls álagning þýði lægra vöruverð. Þessar fullyrðingar eru settar fram með algeru virðingarleysi fyrir því sem sannara reynist. Reynslan er í þessum efnum sem öðrum ólygnust. Kannanir hafa leitt í ljós að verð á vöru hækkar óeðlilega við það að álagning er gefin frjáls.

Ég sagði fyrr í ræðu minni, að stefna ríkisstj. væri nokkurn veginn ljós og örugg vissa væri um framhaldið ef ekki yrði spornað við. Stefnan er ljós að því leyti, að foringjar verslunarinnar hafa markað hana. Aðeins er tekist á um það, hvor muni aðstoða við að framkvæma hana að kosningum loknum, Framsfl. eða Alþfl. Það er stefnt að svipuðu frelsi handa fólkinu í landinu og við blasti að afloknu viðreisnartímabilinu. Of langt mál yrði að rifja það upp hér, hvernig ástatt var, en á örfátt skal þó minnt.

Vandamálin blöstu hvarvetna við. Atvinnuleysi var þó alvarlegast af þeim öllum og af því leiddi að sjálfsögðu almennan og vaxandi tekjuskort. Illur aðbúnaður var á vinnustöðum, félagsleg og menningarleg afturför, öryggisleysi í heilbrigðis- og heilsugæslumálum, ófullnægjandi skólakerfi, slæmar samgöngur og léleg þjónusta hins opinbera að einhverju eða öllu leyti, sérstaklega hvað varðaði landsbyggðina. Óvissan og öryggisleysið. sem er dæmigerður fylgifiskur atvinnuleysisins, sagði auðvitað mest til sín úti um dreifbýlið, þannig að fólksflótti til þéttbýlissvæðanna varð mjög mikill og óx stöðugt og varð jafnvel landflótti, svo að við borð lá að blómlegar byggðir legðust í auðn af þeim sökum.

Þannig var viðskilnaður Sjálfstfl. og Alþfl eftir 12 ára setu í ríkisstj. Þannig var ástandið í landinu í grófum dráttum. þegar gengið var til kosninga vorið 1971. Út úr þeim kosningum kom greinilegur og ótvíræður vilji kjósenda fyrir því. að breytt yrði um stefnu. Það var líka tekin upp önnur stefna af stjórninni sem við tók, vinstri stjórninni: stefna framfara og bjartsýni, sem byggðist á trú á landið og þjóðlega atvinnuvegi, trú á eigin getu og vilja. Grundvallarmarkmið þeirrar stefnu var og er að beita samfélagslegum aðgerðum til stuðnings og eflingar hverju því byggðarlagi sem kann að halla á hverjum tíma.

Viðreisnarstjórnin gerði smánarsamning við Breta og Vestur-Þjóðverja um að landhelgin yrði ekki færð út án þeirra samþykkis. þrátt fyrir stórfellda rányrkju þeirra á miðunum hér við landið og augljóst hrun fiskstofnanna. Í þess stað var treyst á erlenda stóriðju og opnuð leið fyrir viðamikil umsvif erlendra auðhringa í atvinnulífi landsmanna. Í vinstri stjórninni beitti Alþb. sér fyrir uppsögn smánarsamningsins við Breta og Vestur-Þjóðverja og útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur ásamt eflingu útgerðar og fiskvinnslu um allt land. Á þeim skamma tíma, sem sú stjórn var við völd, gekk yfir sjávarútveg og fiskiðnað okkar stórkostleg bylting sem gerbreytti öllu atvinnuástandi í landinu til hins betra. Sú bylting og þær ráðstafanir, sem gerðar voru, eru grundvöllur þeirra lífskjara sem þjóðin býr við í dag.

En hvernig er útlitið nú að loknu kjörtímabili undir samstjórn Sjálfstfl, og Framsfl.? Það sækir greinilega í sama horf og á dögum Viðreisnar. Einkennin eru hin sömu. Þau koma m. a. fram í því stéttastríði sem ríkisstj. hefur efnt til. Nú eru allir launasamningar í landinu lausir og bólar ekki á lausn þess vanda frá hendi ríkisstj., heldur hið gagnstæða. Áform eru uppi um að takmarka eða afnema samningsréttinn. Stjórnin vill ófrið, hún vill stríð við samtök launafólks. Atvinnuleysisdraugurinn er farinn að ríða húsum. Það er farið að bera á samdrætti á mörgum sviðum. Einkennin koma vel fram í tómlæti stjórnvalda um það að bregðast við á eðlilegan hátt til hjálpar byggðarlögum sem af einhverjum orsökum ráða ekki við aðsteðjandi og tímabundinn vanda.

Glöggt dæmi um það er aðgerðaleysið varðandi atvinnuástandið á Suðurnesjum. Allt kjörtímabilið hefur sjávarafli þar farið minnkandi. Af þeim sökum hefur atvinna dregist saman. Ekkert er aðhafst til bjargar, en þar er treyst á herinn á Miðnesheiði. Gengið er út frá auknum umsvifum hersins og á hans vegum. Þetta er tímabundið ástand til að kanna nýjar stríðsmaskínur, segir utanrrh. En atvinnuvandamál Suðurnesjabúa eru óleyst. Í hernum felst engin framtíð, því að það dylst ekki að „varnarliðið“ — að sjálfsögðu innan tilvitnunarmerkja — í næsta nágrenni við byggðarlögin á Suðurnesjum veldur margvíslegum vandræðum, það veldur siðleysi og spillingu, það glepur mönnum sýn, það eykur dáðleysi, það dregur úr sjálfsbjargarhvöt manna og kjarki til að takast á við vandamálin á raunsannan hátt. Og það veldur sundrungu, þannig að menn verða vanbúnir til allra eðlilegra viðbragða sem þarf til að ráða við þau félagslegu verkefni sem fyrir liggja hverju sinni. Atvinnumál á Suðurnesjum verða ekki leyst til frambúðar nema með brottför hersins. Í því máli nægja ekki neinir fataskiptasamningar. Því heyrast nú æ fleiri raddir taka undir þau kjörorð herstöðvaandstæðinga : Ísland úr NATO, herinn burt.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Senn líður að kosningum. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé: Verður breyting á stjórn og stefnu? Því er auðsvarað. Það verður engin breyting á stjórnarstefnu, þótt þeir hafi vistaskipti í hjáleigu Íhaldsins, Framsfl. og Alþfl. Það þarf meira til. Til þess að um breytingu á stefnu geti verið að ræða og til þess að komið verði í veg fyrir að sama ráðleysið ríki þarf að stórefla Alþb., þannig að það verði að kosningum loknum a. m. k. næststærsti stjórnmálaflokkur landsins, svo að það verði fært um að veita nægjanlegt aðhald. Þann þátt treysti ég kjósendum til að sjá um. — Ég þakka þeim sem hlýddu.