27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

Almennar stjórnmálaumræður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Senn lýkur síðasta þingi þessa kjörtímabils. Tímamót eru fram undan. Þess vegna er eðlilegt að skyggnast nú bæði aftur á bak og fram á við. Auðvitað er aðalatriði að horfa til framtíðarinnar. Björt framtíð íslenskrar þjóðar á að vera mark okkar allra. En heilbrigð framtíðarstefna verður ekki mörkuð nema lært sé af reynslu fortíðar. Þess vegna mun ég fyrst fara nokkrum orðum um þróun mála á Íslandi á undanförnum árum.

Því miður verður ekki annað sagt en stjórn íslenskra efnahagsmála hafi farið mjög úr böndum á þessum áratug. Svo alvarleg hafa lausatökin á sviði efnahagsmála orðið, að sjálfu þjóðfélaginu hefur stafað og stafar hætta af. Mistökin hafa fyrst og fremst verið fólgin í því, að á þessum áratug hefur árlegur vöxtur verðbólgu verið um þrisvar sinnum meiri en hann var á s. l. áratug. Eitt árið var hann svo gífurlegur að um Evrópumet var að ræða. Þetta hefur valdið margvíslegu tjóni. Lífskjör almennings hafa orðið lakari en þurft hefði að vera. Ranglæti í skiptingu tekna og eigna hefur aukist. Atvinnurekstur hefur átt í erfiðleikum, þótt sem betur fer hafi tekist að komast hjá atvinnuleysi. Hagnýting auðlinda hefur orðið óhagkvæmari en ella. Mat á verðmætum hefur brenglast. Í kjölfar alls þessa hefur siðgæðisvitund þjóðarinnar hrakað. Þeirrar staðreyndar er of sjaldan getið. Hún er þó e. t. v. alvarlegasti fylgifiskur óðaverðbólgu þegar til lengdar lætur.

Þá hafa átt sér stað stórkostleg mistök í fjárfestingu. Sumpart standa þau í sambandi við verðbólguna, sumpart hafa þau ýtt undir hana. Fyrst og fremst bera þau vott um rangar ákvarðanir, aðallega af hálfu stjórnvalda. en einnig af hálfu forráðamanna fyrirtækja. Á síðasta ári hafði fjárfesting aukist um 80% frá árinu 1970 samtímis því sem þjóðartekjur jukust um 44%. Á sviði orkumála verður þjóðin nú og á næstu árum að standa straum af arðlausri fjárfestingu sem nemur á annan tug milljarða. Sérfræðingar sem starfað hafa á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, telja að afkastageta fiskiskipaflotans sé orðin rúmlega tvöfalt meiri en nauðsynlegt geti talist. Haldið hefur verið áfram að stórauka fjárfestingu í landbúnaði, þótt augljóst hafi átt að vera að viðbótarfjárfesting gat engum arði skilað. Sauðfé í landinu er 50% fleira en þarf til að fullnægja innanlandsþörf fyrir afurðir þess.

Þá hefur fjármálastefna opinberra aðila verið mjög ógætileg. Ríkisútgjöld og útgjöld sveitarfélaga hafa vaxið úr hófi fram. Þess vegna hefur ríkissjóður safnað meiri óreiðuskuldum í Seðlabankanum en dæmi eru um áður. Verðbólgan stjórnleysið á fjárfestingarmálunum og fjármálastefna opinberra aðila hefur síðan leitt til stórhættulegrar skuldasöfnunar erlendis, sem nemur nú upp undir 600 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu.

Enn er samt ónefnt það mál sem við hlið verðbólgunnar er að mínu viti alvarlegasta vandamál Íslendinga, þótt of sjaldan sé um það rætt af hreinskilni. Það er sú staðreynd, að þrátt fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ofveiðum við mikilvæga fiskstofna við Ísland. Ef því verður haldið áfram eiga komandi kynslóðir e. t. v. eftir að dæma það alvarlegustu mistök þessara ára. Svipað á raunar við um landið, þótt þar séu ekki jafnmikil verðmæti í húfi. Um ótvíræða ofbeit á landið er að ræða.

Allar þessar staðreyndir bera því miður vott um slæma ráðsmennsku á þjóðarbúinu á undanförnum árum. Lífskjörin hafa orðið lakari en ella. En skert lífskjör má bæta. Þess vegna er efnahagshliðin á vanda okkar kannske ekki alvarlegasta þróun mála á undanförnum árum. Mér finnst margt benda til þess, að í kjölfar verðbólguhugsunarháttarins sé þjóðin að bíða tjón á sálu sinni. Ef sá ótti minn er á rökum reistur er þar um að ræða tjón sem erfiðara er að bæta, en þeim mun nauðsynlegra er að við þeim vanda verði brugðist.

En nú skulum við horfa til framtíðarinnar. Hvers er þörf til þess að ráða fram úr þeim efnahagsvanda sem allir viðurkenna að við er að etja? Hvernig á að bægja frá dyrum þjóðarinnar þeim háska sem heilbrigt þjóðlíf í landinu stendur andspænis? Í þessu sambandi tel ég nauðsynlegt að vekja athygli á að ekki aðeins er nauðsynlegt að tekin verði upp algerlega ný stefna í efnahagsmálum, heldur að í þjóðlífinu sem heild skapist nýtt hugarfar, ný afstaða atvinnurekenda til launþega og launþega til atvinnurekenda, ný afstaða ríkisvaldsins til skattgreiðenda og skattgreiðenda til þess, ný afstaða stjórnmálaflokka hvers til annars og til mikilvægustu samtaka þjóðfélagsins, svo sem samtaka launþega, samvinnufélaga og vinnuveitenda. Síðast, en ekki síst ber að nefna nauðsyn þess, að við öll sem einstaklingar breytum afstöðu okkar hvert til annars, aukum skilning okkar á skoðunum andstæðings, virðum rétt hver annars og vinnum sameiginlega gegn hvers konar órétti, sýnum umburðarlyndi. en stöndum fast um kröfuna um réttsýni og heiðarleika. Þetta eru forsendur þess, að okkur takist að sigrast á þeim vanda sem nú er við að etja.

Ég skal nefna nokkrar raunhæfar ráðstafanir sem ég tel eiga að vera grundvöll nýrrar stefnu.

Í fyrsta lagi verður að koma verðbólgunni niður í viðráðanlegt horf. Í því skyni verður að verður hagnýta verðjöfnunarsjóði til þess að jafna tekjusveiflur í útflutningsatvinnuvegunum. Launþegasamtök, vinnuveitendur og ríkisvald verða að koma sér saman um stefnu í launamálum sem sé innan ákveðinna þjóðhagsmarka og taki fyrst og fremst mið af hagsmunum láglaunafólk, en ofbjóði ekki gjaldgetu vel rekinna fyrirtækja. Í því sambandi ætti að hverfa frá hinu sjálfvirka vísitölukerfi sem nú gildir, en koma á skipan er hefði hliðsjón af breytingum á þjóðhagsvísitölu. Öll fjárfesting verður að fara fram samkv. áætlun, miðast við innlendan sparnað og vera á hverjum tíma innan marka sem efnahagsjafnvægi og framleiðslugeta þjóðarbúsins setur. Stefnan í fjármálum og peningamálum verður að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Í öðru lagi verður ríkisvaldið að hafa forustu um heildarátak til aukningar á framleiðni og arðsemi í íslensku atvinnulífi, bæði í framleiðslu og dreifingu, m. a. með því að auka heilbrigða samkeppni.

Í þriðja lagi verður að taka upp markvissa stjórnun á sókn í þá fiskstofna sem hafa verið ofveiddir. Eina skynsamlega leiðin til þess að tryggja hæfilega hagnýtingu þessarar mikilvægustu auðlindar Íslendinga er að gera veiðar háðar leyfum sem greitt yrði fyrir, en nota tekjurnar til þess að auka hagkvæmni sjávarútvegsins sem heildar. Slík ráðstöfun hefur verið furðulítið rædd, en þó hafa ýmsir helstu sérfræðingar á sviði sjávarútvegsmála lýst fylgi sínu við hana.

Í fjórða lagi verður að byggja framkvæmdir á sviði orkumála í miklu ríkari mæli á arðsemisjónarmiðum en átt hefur sér stað.

Í fimmta lagi verður að móta nýja stefnu í landbúnaðarmálum, þannig að smám saman yrði að því stefnt að landbúnaðurinn framleiddi fyrir innanlandsmarkað, en kæmist hjá útflutningi í stórum stíl, enda verður ekki stundaður blómlegur landbúnaður á Íslandi með öðru móti.

Í sjötta lagi er þörf nýs skattkerfis, staðgreiðslukerfis, og breytingar söluskatts í virðisaukaskatt, jafnframt því sem tekjuskatturinn hætti að vera fyrst og fremst skattur á launafólk, en atvinnurekstur beri réttláta skattbyrði.

Í sjöunda lagi er endurskipulagning á almannatryggingakerfinu og heilsugæslunni orðin tímabær, ekki aðeins til að bæta kjör gamals fólks og barnmargra fjölskyldna og auka þjónustu við sjúka, heldur ekki síður til þess að auka hagkvæmni á þessu sviði og gera þjónustuna ódýrari.

Í áttunda lagi ber brýna nauðsyn til að hið fyrsta verði komið á samfelldu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn og tryggi það elli- og örorkulífeyrisþegum viðunandi og verðtryggðan lífeyri en þess nýtur nú aðeins hluti eftirlaunamanna í landinn.

Í níunda lagi þarf að gera ráðstafanir til þess að bæta árangur þess mikla starfs sem fram fer í skólum, þannig að það leiði til hvors tveggja: sannari menntunar og meiri starfshæfni.

Í tíunda lagi verður að gera nýtt átak til þess að efla vísindarannsóknir í landinu og hagnýta niðurstöður þeirra í þágu atvinnuveganna. Listir eiga að hljóta veglegri sess í daglegu lífi þjóðarinnar. Jafnframt þarf að efla heilbrigt fjölskyldulíf og þroskandi notkun tómstunda.

Í ellefta lagi ber brýna nauðsyn til þess, að dómskerfi landsmanna verði traustara og fljótvirkara.

Og í tólfta og síðasta lagi þarf að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá, þar sem m. a. sé kveðið á um jöfnun kosningarréttar.

Mér er ljóst að í þessum orðum er markið sett hátt og miklar breytingar taldar nauðsynlegar. En við skulum vera hreinskilin við sjálf okkur og gera okkur þess fulla grein, að við höfum verið á hættulegri braut. Hér er ófremdarástand í efnahagsmálum. Heilbrigðu þjóðlífi er hætta búin. Við skulum ekki gleyma því, að ekki er vandalaust fyrir örfámenna þjóð við ysta haf að varðveita fullveldi sitt. Okkur tekst því aðeins að endurreisa efnahagslífið, hægja háskanum frá þjóðlífinu og varðveita fullveldið, að tvennt gerist: annars vegar að ný siðgæðisvitund móti gerðir okkar, hins vegar að við eflum samstarf okkar og samstöðu á öllum sviðum, í stjórnmálum, á vinnumarkaðinum, í félagsmálum, á sviði menningarmála. Sannleikurinn er sá, að opinberar umræður á Íslandi, og þá ekki síst hér á Alþ., mótast of sjaldan af slíkum sjónarmiðum. Hér á Alþ. tölum við tímum saman um smámál. Við pexum um alls konar aukaatriði, en leiðum hjá okkur það, sem mestu máli skiptir, en það er að mótuð sé ný heildarstefna í efnahagsmálum byggð á víðtæku og traustu samstarfi helstu þjóðfélagsafla. Þá er varanlegri lausung og hættulegri sundrung boðið heim og þá er persónuleg hamingja okkar fyrr en varir í hættu.

Ég lýk þessum orðum mínum með því að minna á, að öll höfum við skyldur við sjálf okkur og þá um leið við þjóðfélagið. Því aðeins að við gegnum þessum skyldum okkar eigum við rétt til frelsis og velmegunar og því aðeins fáum við notið frelsis og velmegunar að við séum á verði, þegar þjóðarvanda ber að höndum. Sómi okkar er í veði ef við leysum ekki þann vanda. Auðvitað hlýtur frjálsa menn að greina á um fjölmarga hluti. En hitt er jafnljóst, að slíkan þjóðarvanda getur borið að höndum,að nauðsynlegt sé að allir skilji að þjóðin þarf að eiga eina sál. Við slíkan þjóðarvanda er nú að etja. Vonandi verður gæfa Íslendinga slík, að þeir bregðist vel og réttilega við honum. — Þökk fyrir áheyrnina.