27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var mikið af því gumað fyrir tæpum 4 árum, þegar Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að nú væri komin til valda sterk ríkisstj. sem hefði á bak við sig traustan meiri hl. Þá var mikið um það talað af stjórnarsinnum, að nú væri íslenska þjóðin loks búin að fá starfhæfa ríkisstj., sem þyrði og gæti tekið á vandamálunum.

Víst er það satt og rétt, að ekki skortir þingmeirihl., höfðafjöldinn er 42 sem að baki ríkisstj. stendur. Og þessum 42 höfða meiri hl. hefur tekist það á tæpum 4 árum að halda svo á málum þjóðarbúsins að sigla öllu í strand. Þetta vita jafnt stjórnarsinnar sem aðrir. Fram undan er hengiflugið og hæstv. ríkisstj. stefnir beint fram af því. Þetta er táknrænt þegar þess er gætt, að fyrir nokkrum dögum lét seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, það álit í ljós á aðalfundi bankans, að árferði og ytri aðstæður allar fyrir þjóðarbúskap Íslendinga hefðu verið með besta móti. Árferðið er með besta móti, segir seðlabankastjóri, en eigi að síður er allt efnahagskerfið í rúst. Mótsagnakenndara getur þetta varla verið, en eigi að síður er þetta alvarleg staðreynd.

Ríkisstj. hefur leikið efnahagskerfið svo grátt með skipulagslausum og óarðbærum fjárfestingum að vandfundin verða sambærileg dæmi. En það eru fleiri málaflokkar en efnahagsmálin og Krafla sem munað verður eftir við næstu kosningar, það má núv. ríkisstj. vera viss um. Launþegar eiga óuppgerðar sakir við ríkisstj. fyrir kaupránið sem hún stóð að fyrir nokkrum vikum.

Þrátt fyrir allt þetta má svo heyra það svona af og til frá hæstv. ráðh., að þeir hefðu svo sem ekkert á móti því að stjórna a. m. k. eitt kjörtímabil í viðbót. Það hvarflar svona ósjálfrátt að manni, að þeir séu búnir að finna lausnina á efnahagsmálunum og það sé sú niðurlægjandi ráðstöfun að skerða íslenska gjaldmiðilinn hundraðfalt, þá sé komið tækifæri. fyrir ráðh. að fikra sig aftur upp í talnaröðinni með gjaldmiðilinn. En ekki er þetta sannfærandi ráðstöfun efnahagsmála, þegar vitað er að ríkisstj. hefur engin haldbær tök á efnahagslífinu miðað við nútímaaðstæður. Það getur því varla nokkur verið í vafa um að núv. ríkisstj. hefur tekist öðrum ríkisstj. fremur að halda svo á efnahags- og launamálum að allur þorri vinnandi fólks í landinu, ekki síst það launafólk sem hvað mest þarf fyrir brauðstritinu að hafa, telur núv. ríkisstj. vera hina verstu um langan tíma, og skiptir þá ekki máli hvar menn hafa skipað sér í pólitíska flokka.

Og eitt þeirra séreinkenna, sem hæstv, ráðh. hafa, er hvað mest áberandi er í fari þeirra, er sú mælistika þeirra, að eftir því sem fleiri eru andsnúnir og á móti stefnu og störfum ríkisstj., þeim mun betri hljóti ríkisstj. að vera. Best væri að þeirra mati að allir landsmenn væru á móti ríkisstj. og stefnu hennar. Það sýndi hvað mesta festu og styrkleika hennar, hæfileika til góðrar og jákvæðrar stjórnunar, segja hæstv. ráðh. og ekki er dómgreindin lítil. Svo furðulegt sem þetta er, er það þó staðreynd, að hver ráðh. á fætur öðrum hefur haldið þessari firru fram á Alþ. að undanförnu.

Það fer ekki á milli mála, að stefna ríkisstj. í efnahags- og launamálum er í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna og launafólk í landinu.

Hinn 14. febr. s. l. var útvarpað héðan frá Alþ. umr. um þau huggulegheit hæstv. ríkisstj. — eða hitt þó heldur — að ógilda alla kjarasamninga í landinu og svipta þar með launafólk þeim launahækkunum sem koma áttu til framkvæmda 1. mars s. l. samkv. gildandi samningum, — launahækkunum sem ríkisstj. sjálf lagði blessun sína yfir með aðild að samningunum á s. l. sumri, — launahækkunum sem fyrst og fremst komu til vegna þeirrar verðbólgustefnu sem ríkisstj. hefur alið og elur enn við brjóst sér og kyndir undir. Með kaupskerðingarlögum stjórnarflokkanna hér á Alþ., sem gildi tóku 1. mars s. l., var ekki einungis samningsréttur verkalýðsfélaganna fótum troðinn, heldur var ranglætið með lagasetningunni slíkt að með endemum er.

Ráðh. og þm. Sjálfstfl. og Framsóknar sögðu eftirfarandi við launafólk með þessari lagasetningu: 117 þús. kr. mánaðarlaun verkamanns, sem hækka áttu samkv. samningum um 11200 kr. 1. mars, eru allt of mikið. Þjóðarbúið þolir ekki þessa hækkun. Við tökum helminginn af þeirri hækkun. Þetta kaup má aðeins hækka um 5 600 kr. Meira þolir þjóðarbúið ekki. — Og enn heldur stjórnarliðið áfram og segir: Þm. eru með 350 þús. kr. á mánuði. Jú, það erum við sjálfir. Við verðum að fá 18 600 kr. hækkun á það. Þjóðarbúið þolir það vel, þó að verkamaðurinn með 117 þús. kr. fái ekki nema 5600 kr. hækkun, Jú, þetta mun vera í lagi, segja hv. stjórnarsinnar. — Og enn heldur stjórnarliðið áfram og segir: Já, bankastjórar með 600–700 þús. kr. á mánuði lifa ekki án þess að fá 34 500 kr. hækkun á það kaup, enda ætti þjóðarbúið að þola það. Og flugstjórarnir, segja stjórnarmenn, hafa ekki nema ca. 550 þús. kr. á mánuði. Þetta er ekkert líf hjá þeim. Við látum þá hafa 29. þús. kr. hækkun á mánuði, það er í lagi. Og forstjórar flugfélaganna munu illa haldnir og verða því að fá 55 þús. kr. hækkun á mánuði á sitt kaup, sem er um 1 millj. til 1100 þús. kr. á mánuði. Það er nú ekki mikil hætta á að þjóðarbúið kollsigli sig vegna þessa, segja hv. stjórnarsinnar hér á Alþ. Og svo kemur að blessuðum ráðh. Við þá verður að gera vel. Þeir hafa úr heldur litlu að spila, segja hv. þm. stjórnarliðsins, ekki nema í kringum 1 millj. á mánuði. Það er nú víst í lagi þó að þeir fái hækkun upp á 50 þús. kr. á mánuði. Þoli þjóðarbúið það ekki, þá er eins gott að hætta þessu.

Það var þetta efnislega sem þingmeirihl, hér á Alþ. sagði við launafólk með þeim lögum sem afgreidd voru í febrúarlok. Það var þetta sem gert var. Þetta var kveðja stjórnarliðsins til launafólks 1. mars s. l. Því miður verður að segja að þær gagnaðgerðir, sem forusta verkalýðshreyfingarinnar hefur gripið til gegn þessum harkalegu árásum ríkisstj. á launafólk, hafa ekki verið með sem æskilegustum hætti. Það er því nauðsynlegt fyrir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og hreyfinguna sem heild að huga vel að því, með hvaða hætti best verði mætt þessum árásum, og umfram allt að beita engum þeim aðferðum sem orðið gætu vatn á myllu þess höfuðandstæðings sem við er barist, sem er ríkisstj. og meiri hl. Alþ. ásamt Vinnuveitendasambandi Íslands. Launafólk þarf að muna eftir að svara fyrir sig á réttan hátt í komandi kosningum. Launþegar verða að skilja, að aukin áhrif fulltrúa úr verkalýðshreyfingunni á Alþ. verða að koma til og tryggja að hvaða ríkisstj. sem er og hverjir sem hana skipa stjórni efnahagsmálum þjóðarinnar í samráði við verkalýðshreyfinguna, en ekki í andstöðu við hana.

En önnur kveðja er á leiðinni. Stjórnarliðið ætlar ekki að láta við svo búið standa. Nú er verið að keyra í gegnum þingið frv. til i. um að afnema verðlagseftirlit í landinu og gefa verðlagningu frjálsa, þ. e. að gefa kaupsýslustéttinni í landinu sjálfdæmi um að taka sér laun að eigin vild á sama tíma og launafólki er bannað að semja um kaup sitt og kjör. Hér er nú aldeilis á ferðinni vinarkveðja stjórnarliðsins til launþega. Þessi kveðja stjórnarliðsins er flutt undir því yfirskini, að samkeppnisaðstaða sé fyrir hendi og hún eigi að gefa lækkað vöruverð. Nú er það eigi að síður staðreynd, sem enginn hefur á móti mælt, að hin svokallaða samkeppnisaðstaða er einungis fyrir hendi hér á Reykjavíkursvæðinu og þá einungis í sölu á örfáum vörutegundum. Hvergi úti á landsbyggðinni eru þessar forsendur fyrir samkeppnisaðstöðu fyrir hendi. Frjáls álagning vöruverðs mundi því þýða stórhækkað vöruverð hjá landsbyggðarfólki. Hér er því enn stefnt að því að auka þann herfilega mismun og það hróplega ranglæti sem ríkir milli þessa fólks, sem býr úti á landsbyggðinni, og þess, sem býr hér á Reykjavíkurhorninu. Nóg var þetta óréttlæti fyrir, þó að ekki sé nú með þessu við það bætt.

Það er á fleiri sviðum en þessu sem þingmeirihl. hér á Alþ. hefur sýnt landsbyggðarfólki vígtennurnar. Hér hefur að undanförnu hvert frv. á fætur öðru, sem lotið hefur að því að rétta hlut landsbyggðarinnar gagnvart Reykjavíkursvæðinu, verið drepið af stjórnarliðinu og fylgifiskum þess úr öðrum flokkum. Ég minni á í þessu sambandi frv. til l. um aukna þátttöku ríkissjóðs í byggingu sundlauga í sjávarplássum. Þetta frv. miðar að því að gera þeim sjávarplássum, þar sem sjómennska er undirstöðuatvinnuvegurinn, kleift að koma upp sundaðstöðu. Fæst þessara plássa hafa þessa aðstöðu og engar líkur á því, að óbreyttum lögum fái þau þessa aðstöðu í náinni framtíð. Þetta frv. var drepið af stjórnarliðinu. Þess ætti landsbyggðarfólk að minnast við kjörborðið í sumar.

Ég minni einnig á frv. til l. um bætt móttökuskilyrði til sjónvarpssendinga á fiskimiðin, sem miðaði að því að sjómannastéttin nyti svipaðra mannréttinda og þjónustu og aðrir landsmenn, hún mætti njóta þessa sjálfsagða fjölmiðils. Þetta frv. var einnig drepið af stjórnarliðinu og fylgifiskum þess úr öðrum flokkum. Þessa ættu sjómenn að minnast við kjörborðið í sumar.

Ég minni á þáttill. um athugun á bættum flugsamgöngum við Vestfirði, þann landshluta sem langsamlega verst er settur í öllum tilvikum samgöngulega séð og byggir fyrst og fremst og svo til einvörðungu á flugsamgöngum 79 mánuði á ári. Hér liggur nú fyrir álit allshn. Sþ., undirritað af öllum nm., um að vísa þessari till. frá. Sá er hugur þessara fulltrúa hinna pólitísku flokka hér á Alþ. í garð Vestfirðinga, að ekki má einu sinni athuga með hvaða hætti hægt sé að búa svo að Vestfirðingum í samgöngumálum að svipað sé og hjá öðrum landsmönnum. Svo langt ganga þessir herrar í þessu máli að leggja til afgreiðslu á þessari till. sem vafasamt er að talist geti þingleg afgreiðsla. Þessa ættu Vestfirðingar að minnast við kjörborðið í sumar.

Ég vil að síðustu minna á að í fyrradag var samþykkt hér á Alþ. endurskoðuð vegáætlun. Sú afgreiðsla var með þeim hætti, að ekki verður annað séð en það sé fastmótuð stefna ráðandi manna í þjóðfélaginu og yfirgnæfandi meiri hl. Alþ., að Vestfirðir skuli hér eftir sem hingað til vera einangraður landshluti, bæði að því er varðar samgöngur innanhéraðs og við aðra landshluta. Það má með eindæmum teljast, að Vestfirðingum skuli boðið að vera alltaf við lágmarkið varðandi fjárframlög til vegaframkvæmda, þrátt fyrir þá óyggjandi staðreynd, sem hér hefur verið bent á um einangrun. Og nú gerðist það við þessa endurskoðun vegáætlunar, að hlutfallstala Vestfjarðakjördæmis í framlögum til vegaframkvæmda er lækkuð með afgreiðslunni frá í fyrradag, miðað við það sem hún var áður en endurskoðunin fór fram. Þessi er rausnin í garð Vestfirðinga af hálfu Alþ. Og rétt er að bæta því hér við, að á árunum 1970–1977 hefur Vestfjarðakjördæmi verið með langlægsta hlutfallstölu af heildarframkvæmdafé til vegamála eða 8.5% að meðaltali. Það kjördæmi, sem næst kemur þetta tímabil, er með 10.3% og síðan er hlutfallið allt upp í 27.7%. Getur nokkrum blandast hugur um það með þessar staðreyndir í huga, að svínað hafi verið á Vestfirðingum í þessum málaflokki eins og mörgum fleirum?

Með því, sem verið hefur að gerast hér á Alþ. að undanförnu í garð landsbyggðarfólks og þá sérstaklega Vestfirðinga, er engu líkara en þeir, sem ferðinni ráða, hafi viljað undirstrika, svo að ekki verði um villst, það mjög svo storkandi öfugmæli hv. þm. Sjálfstfl., Alberts Guðmundssonar, sem hann viðhafði hér á Alþ. fyrir skömmu, að Reykvíkingar væru orðnir vinnudýr fyrir landsbyggðina og þjóðfélagið hefði ekki efni á því að búa eins að landsbyggðarfólki og Reykvíkingum. Þessa ættuð þið, góðir hlustendur úti á landsbyggðinni, að minnast við kjörborðið í sumar.

Herra forseti. Það hefur mikið verið rætt og ritað og það réttilega um þá miklu spillingu sem virðist hafa þróast í þjóðfélaginu á undanförnum árum — spillingu sem allir þjóðhollir Íslendingar hljóta að hafa ímugust á. Enginn vafi er á því, að stóran þátt í þessari þróun á sú flokkspólitíska spilling sem hér hefur verið um langan aldur. Það pólitíska flokksræði, sem við höfum búið við og tröllriðið hefur allri pólitískri starfsemi í landinu, hefur haft í för með sér slíka óáran á öllum sviðum sem enginn sér fyrir endann á. Hér eiga allir pólitísku flokkarnir sök á, mismunandi mikla, en allir sök. Það pólitíska flokksgæðinga- og klíkusjónarmið, sem hér hefur verið þróað og ræður ríkjum undir handarjaðri peningavalds og flokksfjötra, hefur haldið öllum í heljargreipum. Almenningur hefur litlu sem engu ráðið. Örfáir einstaklingar, útvaldir af hinum pólitísku flokksklíkum, hafa hér deilt og drottnað í krafti flokksræðis. Sem betur fer er nú að rofa til. Augu almennings í landinu eru að opnast fyrir því, að ekki má lengur við svo búið standa. Almenningur í landinu mun nú segja: Hingað og ekki lengra. — Almenningi er að verða ljóst að hann hefur of lengi látið það afskiptalaust, að fáir útvaldir, sjálfskipaðir flokksgæðingar deili og drottni á kostnað alls almennings.

Flokksræðið riðar nú til falls. Í hönd farandi kosningum gefst fólki tækifæri til að veita hinum sjálfskipuðu fulltrúum flokkseigendafélaganna það aðhald og þá ráðningu sem til þarf til að ná fram þeirri breytingu í þjóðmálabaráttunni, að hún verði sveigð til heilbrigðari, heiðarlegri áttar frá þeirri spillingu sem hún hefur þróast i. Slík breyting er nú í augsýn. Fyrsta orrustan er fram undan. Komandi alþingiskosningar munu skera úr um hvort þessi atlaga að hinni pólitísku spillingu tekst. Margt bendir til þess í þjóðfélaginu nú, að hún takist. Verði það tækifæri, sem nú gefst, ekki nýtt er víst að flokksræðið og öll sú óáran, sem því fylgir, mun enn frekar hreiðra um sig. Það er á valdi ykkar, góðir tilheyrendur, hvort svo verður eða ekki. Segjum flokksræði og pólitískri spillingu stríð á hendur og veitum hinum sjálfskipuðu fulltrúum og pólitísku gæðingum flokksvaldsins í landinu það aðhald í kosningunum í sumar sem þarf til að þeir sjái að sér. Ég heiti á Vestfirðinga að ryðja þessu brautina sem og öðrum nauðsynjamálum. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.