28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3341)

289. mál, heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi af ræðu hv. 3. þm. Vestf. Það kom fram nokkur misskilningur hjá honum. Hann sagði að hreppsnefnd mælti einróma með sölu jarðarinnar. Þetta er misskilningur. Eins og kemur fram í fskj. var hreppsnefndin klofin um málið, en mælt með sölu jarðarinnar af meiri hl. hreppsnefndar og meiri hl. jarðanefndar, Ég vil jafnframt upplýsa, að landbrn. hefur skilað áliti um þetta mál til landbrn. Nd. og leggst gegn sölu jarðarinnar, m. a. á þeim forsendum sem hér hafa komið fram, m. a. í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., en einnig hefur landbrn. vakið athygli á því, að jarðirnar tvær, sem hér er um að ræða, eru í leigu til bóndans á Veðrará til ársins 1981 og því alls ekki tímabært að taka afstöðu nú til þessarar sölu.

Hér hefur komið mjög greinilega fram, m. a. í umsögn ráðunauta sem hv. 5. þm. Norðurl. e las upp, að jörðin Veðrará er lítil og mjög skert og verður ekki búið þar nútímabúi án þess að fá viðbótarjarðnæði. Því held ég með tilliti til þess, að hér liggur satt að segja ekkert á, að langsamlega skynsamlegast sé að íhuga þetta mál betur, Ég veit að hv. 3. þm. Vestf. þekkir aðstæður þarna manna best af mönnum hér — hann er þaðan ættaður — og hann er sammála mér um að þarna er jarðnæði nóg inni í firðinum og mjög gott landbúnaðarland, a. m. k. ágætt á vestfirska vísu. Engin ástæða er til annars en þessir tveir ágætu bændur geti búið þarna góðu búi báðir, ef landi er skynsamlega skipt á milli þeirra.

Ég veit að hann vill hafa frið um slíkt mál sem þetta. Það er öllum byggðarlögum áreiðanlega fyrir bestu. Ég bið hann að hugleiða þá hugmynd mína nánar, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. með tilmælum um að það verði kannað, hvernig megi fullnægja þörfum þessara bænda beggja, og leggja síðan málið að nýju fyrir hv. Alþ. til meðferðar.