28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4116 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir ræðum frsm. minni hl. sem hér töluðu við fyrri hluta þessarar umr. Annar þeirra ræðumanna, hv. þm. Jón G. Sólnes, er ekki hér viðstaddur.

Ég kvaddi mér hljóðs, því að mér þótti að í ræðum þeirra kæmi fram ýmiss konar misskilningur, m. a. á tilgangi þess frv. sem hér er til umr. Fram kom hjá þeim báðum, að fjármagnsstreymi inn í íslenskt þjóðfélag er ákaflega viðtækt og í margs konar mynd, en ég er þeim ekki sammála, að allt sé það jafnskaðlegt. Ég held að þar sé ákaflega mikill munur og beri að gera mjög mikinn greinarmun á því fjármagni sem inn streymir. Ég vil að vísu taka það fram, að ég er hræddur við alli slíkt fyrir hönd okkar litla íslenska þjóðfélags, því að það er ákaflega auðvelt fyrir eina meðalstofnun í hinum stóra heimi að hafa hér gífurleg áhrif með tiltölulega litlu fjármagni á mælikvarða slíkrar stofnunar. Þó geri ég stóran greinarmun á, eins og ég sagði áðan, t. d. því, hvort hingað koma listamenn og sýna hér fyrir okkur og tengja okkur þannig list í hinum stóra heimi í kringum okkur eða hvort um er að ræða fjárstreymi t. d, til stjórnmálaflokks eða til verkalýðsfélaga í verkföllum. Þarna geri ég mikinn greinarmun á. Vitanlega er það rétt, að viðkomandi þjóð er eflaust að reyna að hafa nokkur áhrif á skoðanir hér, þegar hún sendir hingað listafólk, vill kynna þjóðlíf sitt, land sitt og hafa þannig óbein áhrif. En þetta tel ég samt sem áður allt annað en þau dæmi, sem ég nefndi áðan, og gæti ég nefnt fjölmörg fleiri. Mér fannst allt of mikið bera á því í ræðum þessara hv. þm., að þessu væri öllu slengt saman í eina kippu og sett undir sama hattinn.

Ég sagði áðan, að mér þætti t. d. varhugaverð aðstoð við verkalýðsfélög í verkföllum. Þetta bar á góma við fyrri hluta þessarar umr. Ég geri engan greinarmun á því, hver aðilinn er sem veitir slíka aðstoð, en staðreyndin er vitanlega sú, að slík aðstoð, einmitt við verkalýðsfélög, hefur víða um heim verið notuð jafnvel til þess að kollvarpa ríkisstjórnum. Það er ákaflega auðvelt fyrir svokölluð vinveitt verkalýðsfélög, hvort sem þau eru í austri eða vestri eða ég veit ekki hvar, að halda hér gangandi verkfalli árum saman án þess að það sjáist högg á vatni hvað snertir fjárhag þeirra, og ég tel slíkt vera ákaflega varhugavert. En þetta er raunar alls ekki til umr. Hér er til umr. annar þáttur fjárhagsstuðnings, þ. e. a. s. við stjórnmálaflokka. Kem ég að sjálfsögðu nánar að því síðar.

Einnig fannst mér mjög mikið á því bera, að menn vildu gera að líku innlendan stuðning við stjórnmálaflokka og erlendan. Ég lít svo á að þar sé mjög mikill munur á. Ég sé ekkert athugavert við það, ef íslenskir heildsalar vilja styrkja þann flokk, sem þeir hallast einkum að, með verulegu fjármagni, enda væri það þá opinbert. Hér var á það minnst, að ekki gengi hnífurinn á milli Framsfl. og samvinnuhreyfingarinnar. Við styðjum samvinnuhreyfinguna, við teljum hana heppilegasta skipulagið í okkar litla þjóðfélagi á ýmiss konar atvinnurekstri. Ég harma að það er ekki rétt sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson sagði, að mikið fjármagn streymi frá samvinnuhreyfingunni til Framsfl. Ég held að það mætti vera, mætti koma fram sá stuðningur. Ég tel ekkert rangt við slíkt, enda ætti hann þá að vera opinber og öllum ljós. Ég vil t. d. benda á að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga vakti athygli á því á beinni línu í Ríkisútvarpinu fyrir tveimur árum eða svo, að Samband ísl. samvinnufélaga auglýsir meira í Morgunblaðinu en í Tímanum. Mér er sem sagt ekki kunnugt um það feikna fjármagn sem þarna streymir á milli. Ég held að það mætti gjarnan vera meira.

Svipað gæti ég sagt um einhverjar aðrar hreyfingar. Ég tel að innlendur fjárhagsstuðningur við stjórnmálaflokka eigi að vera opinber, hann eigi að telja fram, hann eigi að leggja fram í reikningum þeirra og um hann eigi vitanlegan að gilda ákveðnar reglur, eins og að er stefnt, að því er ég best veit, í drögum að frv. sem sérstök nefnd hefur samið þar um. En ég lít á slíkan opinberan innlendan stuðning allt, allt öðrum augum en stuðning erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka.

Hér hefur nokkuð verið á það minnst, að á frv. þetta mætti líta sem sérstaka árás á Alþfl. Ég harma það, ef svo er á málið litið. Hins vegar er rétt, að umr. um fjárhagsstuðning við Alþfl. vöktu okkur flm. til hreyfings í þessu sambandi. En því fer víðs fjarri að ég vilji sérstaklega ráðast á Alþfl. í þessu sambandi.

Ég efa ekki að það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Braga Sigurjónssyni, að aðrir íslenskir flokkar hafi notið slíks stuðnings. Ég er honum hins vegar ósammála um, að það sé í lagi að slíkt hafi verið gert. Það hefur kannske ekki valdið miklu tjóni, — það hugsa ég að sé rétt, — en það má vel vera að stjórnmálaþróun hér hefði orðið önnur, ef það hefði ekki verið gert og innlendar aðstæður einar ráðið.

Ég er sem sagt mjög eindregið þeirrar skoðunar, að erlent fjármagn til stjórnmálaflokka hér á landi eigi alls ekki að hafa áhrif á þróun slíks grundvallarþáttar í íslensku lýðræði — eigi alls ekki að hafa þar áhrif.

Ég skipa íslenskum stjórnmálaflokkum, og reyndar stjórnmálaflokkum í öðrum lýðræðislöndum öllum, í flokk þeirra stofnana sem mikilvægastar eru í hverju landi. Stjórnmálaflokkar eru hornsteinn þess lýðræðis sem við viljum hafa. Við þekkjum ekki annað betra. Ég harma mjög þær árásir sem íslenskir stjórnmálaflokkar hafa orðið fyrir í síðdegisblöðum og virðist nokkuð vinsælt hjá ýmsum aðilum og hefur að mínu mati tvímælalaust grafið undan þeirri lýðræðishugsjón sem þarf að byggjast á því, að stjórnmálaflokkar starfi á heilbrigðan hátt. Ég tel slíkt ákaflega skaðlegt og alls ekki séð fyrir endann á þeim áhrifum, sem það getur haft, ef ekki tekst að sporna við. Ég lít svo á, að þetta frv. sé þáttur í slíkri viðleitni, að reyna að búa íslenskum stjórnmálaflokkum þann sess sem þeir eiga að skipa sem hornsteinn lýðræðis okkar. Ég lít á þetta frv. sem þátt í að undirstrika það, að þetta séu íslenskir flokkar, þótt ég hafi ekkert við það að athuga að þeir tengi hugsjón sína hugsjónum stjórnmálaflokka í öðrum löndum. Ég sé ekkert við slíkt að athuga og ég sé heldur ekkert við það að athuga og tel það útúrsnúning, að frv. beinlínis banni t. d. boðsferðir jafnvel til Kína, Rússlands eða Randaríkjanna. Ég sé ekkert við það að athuga. Það er misskilningur. Ég tel að 1. gr. frv. sé það skýr, að slíkur misskilningur sé óþarfur. Þar er talað um fjárhagslegan stuðning við starfsemi stjórnmálaflokka hér á landi. Þetta tel ég ekki fjárhagslegan stuðning við starfsemi stjórnmálaflokka. Og ég er sannfærður um að forustumenn flokkanna hafa gott af því að ferðast til þessara landa og sjá, hvernig þar er hagað málum.

Hér er verið að tala um það grundvallaratriði, sem greinilega kemur fram, að íslenskir stjórnmálaflokkar eða starfsemi þeirra verði ekki kostuð af erlendu fjármagni, þ. e. a. s. starfsemi þeirra hér á landi né stofnanir, sem eru nátengdar þessum flokkum, eins og t. d. blaðaútgáfa þeirra. Ég geri mér fyllilega ljóst, að það kunna að vera ýmsar leiðir til að fara fram hjá þessu. Því miður er svo með flest lög og er sjálfsagt að gaumgæfa í framhaldi af þessu, hvernig úr því verði dregið. Ég held hins vegar að hér sé gerð tilraun til þess að koma í veg fyrir fjárstuðning við grundvallarstarfsemina, stjórnmálaflokkana sjálfa, og því sé um ágæta byrjun að ræða.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil aðeins að lokum undirstrika að hér er alls ekki um að ræða árás á neinn einstakan flokk. Ég vil ekki að stuðningur minn við þetta frv. sé skilinn svo, heldur sem viðleitni til þess að íslenskir stjórnmálaflokkar skipi æðra bekk en þar hafa því miður skipað upp á síðkastið í fjölmiðlum, m. a. í umr. um erlendan fjárstuðning til þessara flokka.