28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4119 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Jón Árm Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér, með leyfi forsetans, að vitna í ræðu minni í Alþýðublaðið og dreifibréf Alþfl. er varða þetta mál, þar sem ekki verður komist hjá því að ræða það á nokkuð breiðum grundvelli. Það hefur verið sagt, og var sagt strax þegar þetta frv. kom fram, að grg. væri lúaleg árás á Alþfl. og Alþýðublaðið. Hófst þegar innan flokksins skipulagður áróður gegn mér og hefur ekki linnt enn þá. Það getur vel verið, að síðari hluti grg. sé klaufalega orðaður, það hafði ég ekki hugleitt nægilega, en hún er skýring á því, hvert var upphaf að þessu máli, og þurfti þó varla að taka það fram, þar sem aldrei var farið leynt með það sem um var að ræða af hálfu Alþfl., hvorki af mér né öðrum, að um tímabundinn styrk væri að ræða. Ég andmælti styrk þessum engan veginn heldur og taldi hann mjög eðlilegan. Ég sagði það opinberlega. Hins vegar andmælti ég því, að haldið yrði áfram á þeirri braut að bjarga rekstri blaðsins við með erlendu fjármagni, þó í formi pappírsgjafar væri. Og þeir eru miklu fleiri en aðeins ég, sem hafa sagt það. Það hefur sagt einn eftirsóttasti frambjóðandinn, a. m. k. í röðum Alþfl., í útvarpinu: Já, ég styð þetta frv. — Og það eru margir fleiri. Og mér er ekki grunlaust um að í hjarta sínu telji 4. landsk. þm. þetta ekki eðlilega leið, þó að hann vilji vísa málinu frá. Í ágætri ræðu taldi hann raunverulega að þetta væri ekki leið til björgunar, þó að hún gæti verið réttlætanleg. Ég tel hana réttlætanlega við erfiðar aðstæður.

Það er ekkert nýtt, að Alþýðublaðið hafi átt við erfiðleika að stríða. Ég hef liggjandi fyrir framan mig lista með 36 nöfnum. Ég stóð fyrir því ásamt fleirum, að vísu mjög duglegum mönnum, fyrir nærri 4 árum að safna fé. Og okkur tókst þá að krafsa saman 4.2 millj. Þetta var ekkert leyndarmál. Þetta var birt opinberlega. Og Tíminn greip það strax á lofti og byrjaði að ráðast á okkur, en hætti því skyndilega. Við földum ekki eitt eða neitt. Sama hefur komið fyrir við Þjóðviljann, að alþm. hafa lagt stórfé fram — mér skilst milljón á höfuð — og margir aðrir myndarlegt framlag. Ég hef alltaf talið það rétt og skylt, sé um raunverulegt fylgi flokks að ræða, að hafa málgagn sem brjóstvörn. Ég mun telja það áfram. Og hafi einhver efni á meiru en 1 000 kr., hafi einhver efni á meira en 5 000 eða jafnvel 100 þús., þá leggi hann það fram af fúsum og frjálsum vilja. Þegar leitað er til manna, sem eru í ákveðnum flokki, sem aðhyllast ákveðna hugsjón og kalla það flokk, þá hlýtur það að skapa ákveðin tengsl að styrkja brjóstvörn sína. Hins vegar hefur það komið fram, og kom fram hjá Vilmundi Gylfasyni löngu áður en hann fór að tala um framboð, að hann teldi Alþýðublaðið það lélegt að best væri að lóga því. Hann hefur ekkert farið leynt með það enn þá. Ég hef ekki gengið svo langt. Ég vil að blaðið lifi, en ég vil að það lifi á fúsum og frjálsum stuðningi stuðningsmanna Alþfl. í landinu og dreg enga dul á það.

En þetta hefur þróast þannig, sem ég tel enga ástæðu til að dylja, að ósætti er orðið. Með leyfi forseta mun ég nú lesa orðrétt úr dreifibréfi Alþfl., þar stendur svart á hvítu það sem ég mun lesa á eftir. Er ekkert leyndarmál lengur, að ég tilkynnti það form. flokksins, að ef hann drægi ekki þessa árás sína á mig og þrjá aðra þm. til baka, þá sæti ég ekki lengur við sama borð og hann. Orðrétt hljóðar plaggið þannig, það er dags. 13. mars 1978, Dreifibréf undir flokksmerki Alþfl. í Reykjavík:

„Fjárhagsleg aðstoð, sem Alþfl. hefur fengið frá norðurlöndum, er orðin að meiri háttar kosningamáli, enda grípa hinir flokkarnir nú allt til að stöðva sókn okkar. Þótt skiptar séu skoðanir um þetta, jafnvel í okkar röðum, er ekki hægt að sjá merki þess, að málið skaði okkur í augum almennings.“ — Ég vona að svo sé sannarlega ekki. — „Það hefur ekkert verið falið og verður ekkert falið. Rétt er þó að kynna ykkur nokkur meginatriði varðandi það.

Aðstoðin er tvíþætt:

Vorið 1976 stofnaði framkvæmdastjórn flokksins norrænan fræðslusjóð og hafa jafnaðarflokkar hinna Norðurlandanna lagt nokkuð fé í hann, greitt í reikning hjá Landsbankanum.

Um síðustu áramót stóðum við andspænis því að leggja Alþýðublaðið niður. Þá bauð norræna A-pressan, sem alþýðusamböndin eru aðilar að, okkur bráðabirgðahjálp. Vonandi dugir hún til að fresta örlagaríkum ákvörðunum um blaðið fram yfir kosningar. Að öðrum kosti hefðum við orðið að safna stórskuldum til að halda blaðinu úti.

Hér fara á eftir nokkrir punktar um þetta mál:

1. Jafnaðarstefnan og verkalýðshreyfingin eru alþjóðlegar hreyfingar og fjárhagsleg aðstoð þeirra milli landa er algeng, opinber og almennt talin eðlileg.

2. Í hvert sinn sem íslensk verkalýðsfélög hafa gert stórverkfall hafa þau, eða A. S. Í. óskað eftir norrænum stuðningi og hann hefur verið fáanlegur. Alþb.-menn hafa staðið að þessu og aldrei gagnrýnt það. Sum stéttarfélög eru aðilar að norrænum verkalýðssjóðum, t. d. Blaðamannafélagið.

3. Alþfl. hefur þegið boð um norræna aðstoð fyrir opnum tjöldum, engu leynt og í öllu farið að lögum.

4. Það er útilokað annað en Þjóðviljinn fái erlenda aðstoð. Hann tapaði 26 millj. 1976 og miklu meira 1977. Á sama tíma var byggi glæsilegt blaðhús fyrir tugi millj. Það stendur aldrei á greiðslum Þjóðviljans, t. d. fyrir prentun. Er þetta fjársöfnun frá íslenskri alþýðu — eða hvað? Hafa þeir ekki í áratugi fengið stórfellda aðstoð, ólöglega og leynilega?“

5. liður er sá liður, sem ég tek ekki þegjandi og gerði ekki, strax og mér var bent á að þetta bréf væri í umferð. Hann hljóðar þannig:

„5. Fjórir þm., Stefán Jónsson, Steingrímur Hermannsson, Oddur Ólafsson og Jón Árm. Héðinsson, hafa flutt frv. um að banna erlenda aðstoð við stjórnmálaflokka. Ef þetta frv. væri í dag lög á Íslandi, væri formaður Alþfl, í varðhaldi og flokkurinn sektaður um milljónir.“

Já, við 4 þm. erum að reyna að koma einum starfsfélaga okkar í fangelsi og milljónasektir. Ég krafðist þess, að þetta yrði dregið til baka, því þótt við deilum hart og höfum skiptar skoðanir á þingi, þá ætla ég engum þm. þá lágkúru, að hann sé með frv: flutningi, sem auðvitað aldrei mundi vinna aftur fyrir sig, að koma einhverjum félaga sínum í fangelsi og milljónasektir. Slíkt er alger fjarstæða og ekki sæmandi formanni flokks og síst Alþfl. Hann fékk viku frest. Fresturinn var ekki notaður og ég hef ekki mætt á fundi síðan. Lái mér hver sem vill, en ég læt ekki bjóða mér allt í þessum efnum, hvorki mér né öðrum mönnum sem vissu ekki um bréfið.

„6. Slíkt bann væri auðvitað óframkvæmanlegt, eins og kommarnir hafa sýnt og sannað. Þeir mundu sleppa, en við hinir, sem fylgjum gjaldeyrislögum, en brjótum þau ekki, sem segjum þjóðinni satt, en ljúgum ekki að henni, mundum hljóta refsingu.“ — Hvaða maður á Íslandi hlýtur refsingu, sem fer að lögum og segir satt? Ekki einn einasti og svo mun vonandi aldrei verða.

„7. Menningarsjóður Norðurlandaráðs hefur veitt miklu fé til stjórnmálafræðslu og sjóðir Evrópuráðsins gera það einnig. Frv. mundi útiloka þátttöku Íslands í slíku samstarfi. Það byggir því á óraunhæfri einangrunarstefnu.“

Þetta er það blað, sem ég sætti mig ekki við. Ég bauð fullar sættir ef það yrði dregið til baka, taldi það til orðið vegna misskilnings eða kannske gremju eða fljótfærni. Því var ekki svarað og þá fer að sköpum. Og lítum nú nánar á málið.

Hér hefur komið fram, að menn vilja blanda ýmsu í, kurteisisboðum milli þjóðþinga og menningarstarfsemi. En slíkt er gerólíkt.

Það sagði hér einn ræðumaður, 1, flm. þessa frv., — ég veit ekki hvaðan honum kemur sú viska og ekki var mér kunnugt um það, enda var mér aldrei boðið eitt eða neitt því um líkt, — að Alþfl. hefði fengið boð um 50 ferðir 1977 á vegum bræðraflokkanna. Mér er kunnugt um að farnar hafa verið nokkrar ferðir, en svo margar vissi ég ekki um og veit ekki hvernig hann hefur reiknað slíkt út. Ég hef aldrei beðið um eitt eða neitt í mína þágu í þessi 11 ár — aldrei. Ekki er hægt að tilfæra eitt einasta atvik. Ég hef talið það nóg starf að vera þm., þó ég væri ekki að hlaða á mig pinklum og nefndastörfum út um hvippinn og hvappinn. Hins vegar hef ég stundum tekið að mér viss störf, ef annar hefur gengið úr skaftinu, og jafnvel ferðalög, en aldrei sem fyrsti aðili.

Afstaða manna til þessa máls er misjöfn. Það er ósköp eðlilegt og heilbrigt. Það, sem við viljum framvegis, er að þetta sé á hreinu, með hvaða hætti á að skipa þessum málum. Það skiptir engu máli, þó að í deiglunni sé frv., sem eigi að koma einhvern tíma, um starfsemi stjórnmálaflokka á landinu. Það er vel tímabært að setja lög um hana og hefði verið betra ef það hefði verið gert fyrir löngu. Það hefur bara ekki gengið betur að ná um slíkt samstöðu hér á Alþ. eða milli manna er starfa að þessu. Stjórnmátaflokkarnir eru lýðræðislegt skipulag samkv. stjórnarskrá Íslands og það er ósköp eðlilegt að um þá starfsemi gildi nokkuð góð rammalöggjöf og síðan reglugerð. Fjármálin eiga að vera á hreinu, a. m. k. ef menn láta af hendi vissar upphæðir og vissar ábyrgðir. Við þekkjum það langflestir þm., að við höfum orðið að taka á okkur stórábyrgðir vegna rekstrar blaðanna og e. t. v. flokkanna.

Ég hef gengið í ábyrgð fyrir Alþýðublaðið. Það skiptir millj, og er ekkert leyndarmál. En það hindrar mig ekki frá því að gera þá kröfu til flokksmanna, að ef þeir vilja Alþýðublaðið sem brjóstvörn baráttu sinnar, þá leggi þeir því lið. Ég vil ekki þiggja erlent fé sem lífsviðurværi fyrir blaðið. Þar skilur á milli. En ég var því samþykkur í þetta skipti. Formlegt samþykki þurfti ekki, því að aðstoð var þegin í annarri mynd. Okkur var skýrt frá því bæði í þingflokki og flokksstjórn og enginn andmælti, og það tel ég sama og samþykki. Þó þurfti ekki formlegt samþykki til að þiggja þessa aðstoð.

Þetta er orðið með ólíkindum stórt mál og kann að hafa alvarlegar afleiðingar, þó að formaður flokksins voni að svo verði ekki í kosningabaráttunni.

Menn hafa ekkert verið feimnir við að segja: Sumir eru með og aðrir á móti. — Hins vegar er það dauðasynd hjá mér að hafa verið á móti þessu. Það nær þá ekki lengra. Það er mat manna, að best sé að losna við mig, og þar við stendur.

En er það nú svo, að hið opinbera veiti blöðunum og flokkunum ekki styrk? Ég man ekki betur en frá Alþ. eigi að koma 16.5 millj. til flokkanna og á fjárlögum fari 40 millj. í blöðin. Í stefnuskrá Alþfl. er einfaldlega sagt, að gerð sé krafa til þess, að ríkisvaldið styrki frjálsa blaðaútgáfu ríflega og þar með flokksblöðin fyrst og fremst, svo að þau geti starfað. Þetta tel ég réttlætanlegt. Af hverju? Af hverju tel ég þetta réttlætanlegt? Jafnvel í skattafrv. nýja er auglýsingakostnaður frádráttarbær. Hvað þýðir það? Jú, hafi fyrirtæki 5 millj. í hreinar tekjur og auglýsi fyrir 2 millj., þá skulu þær 2 millj. dragast frá áður en ríkissjóður fær sitt, þ. e. skattstofninn lækkar. Hver borgar þá brúsann af auglýsingunum? Ríkissjóður. Þess vegna þykir okkur félagshyggjumönnum engin goðgá að tryggja það í gegnum fjárlög, að dagblöðin, sem minna fá af auglýsingum, en eru nauðsynleg í heilbrigðu og eðlilegu stjórnarfarslegu ríki, fái styrk frá ríkissjóði beint. Mun ég ekki skammast mín fyrir að tala fyrir slíku.

Því er ekki haldið á lofti núna frá því á tímum viðreisnarstjórnarinnar, þegar við vorum að koma á fót Blaðaprenti. Ég man ekki betur en ég væri flm. að ríkisábyrgð á kaupum á vélunum. Af hverju var mér ýtt fram fyrir skjöldu? Það voru nefnilega sumir fínir pappírar feimnir við að standa við hugsjón sína. Kannske var ég nógu vitlaus að gera það. Ég man ekki betur en Magnús Kjartansson væri með mér á plagginu og Þórarinn Þórarinsson. Það fór í gegn sem betur fór, og endurskipulagning í blaðaútgáfunni hér átti sér stað. Síðan hefur því verið slegið upp, að þetta væri orðið milljónatuga virði. Vissulega er það rétt. Krónan er nú orðin svo lítilfjörleg, að milljón þá og jafnvel meira telst tugmilljarða virði í dag. Það kemur þó þessu máli alls ekkert við. Við náðum samkomulagi um það, þrír flokkarnir, og Vísir flaut með í þeirri endurskipulagningu, að gera sérstakt átak með aðstoð ríkisvaldsins. Þetta er tugmilljóna verðmæti í dag eða jafnvel meira. Það skiptir bókstaflega engu máli þótt það yrði talið í milljörðum. Grundvallarafstaðan er sú, að við töldum heilbrigt og eðlilegt að ríkisvaldið aðstoðaði við að halda blöðunum gangandi — og munum vonandi margir telja það áfram — með íslensku fjármagni og í gegnum fjárlög og fela ekki neitt. Ef Alþýðublaðið þarf meira en hin blöðin, þá verður það að fá meira. Þá kemur upp deila um það, hvers vegna það á að fá meira, sem er minnst og kannske verst rekið. Um þetta eru skiptar skoðanir. Í Noregi eru þær reglur, held ég, að það blað á viðkomandi svæði, sem er stærst, fær ekkert. Svo er aftur beitt þeirri reglu, eftir því sem mér hefur verið sagt, að blöðin, sem verst eru sett, fá hlutfallslega mest og jafnvel langmest. Þetta fengist sennilega aldrei í gegn á Íslandi í þeim frjálshyggjuheimi sem hér ríkir, og er því vonlaust að vera um það að tala, a. m. k. ekki fyrr en raunveruleg vinstri stjórn kæmi hér til valda og sæti lengi, sem vonandi verður.

Mikið hefur verið rætt um blöðin. Síðasti ræðumaður kom inn á það, hvers við alþm. megum vænta af blöðunum. Kannske vildu menn blöðin steindauð vegna þeirra árása á Alþ. sem um er að ræða. Ég ætla ekki að neita mér um það, fyrst það kom hér upp, og lesa upp — með leyfi hæstv. forseta — úr Alþýðublaðinu, þó að það hafi verið lesið upp í útvarpinu, vegna þess að ég tel þau skrif ekki sæmandi. Sé eitthvað rétt í þessu, þá krefst ég rannsóknar þegar í stað, hvorki meira né minna á efni þessa leiðara, það er svo alvarlegt. En leiðarinn er svona og birtist miðvikudaginn 26. apríl 1978 í Alþýðublaðinu:

„Gunnar krafinn svara.” — Með stórri þriggja dálka fyrirsögn.

„Ekki er ein báran stök við Kröflu. Um þessar mundir er Gunnar Thoroddsen orkumálaráðherra loksins að skila af sér skýrslu um framkvæmdir við Kröflu. Á sama tíma verður ljósara, að æ fleiri þættir þessa sérstæða fjármálaævintýris eru með þeim hætti, að sérstakra skýringa er þörf. Skýrt hefur verið frá því, að í apríl 1976 fóru fram útboð í raflagnir við Kröflu. Útboðinu var sérstaklega frestað til þess að verktakafyrirtæki í Reykjavík, Rafafl, gæti tekið þátt í útboðinu. Þeir komu með lægsta tilboð, sem upphaflega var um það bil 28,5 millj. kr. Aðrir verktakar, sem buðu í verkið á þessum tíma, töldu gersamlega útilokað að vinna verkið fyrir þetta verð nema þá með því að greiða fjárfúlgur með verkinu. Engu að síður var þetta lægsta boð og því var tekið. Nú hefur hins vegar komið í ljós, að verkið var aldrei unnið fyrir 28.5 millj.

Í haust höfðu verktökunum verið greiddar rúmar 130 millj. kr. og má gera ráð fyrir að nú hafi þeim verið greitt mun meira. Skýringar á þessum aukaupphæðum eru ærið flóknar, en ljóst er að engin útboð hafa farið fram vegna þessara aukaverkefna.

Rafafl er samvinnufélag. Helsti forustu maður þess og talsmaður hefur verið Sigurður Magnússon, sem jafnframt hefur um nokkurt skeið verið einn helsti forustumaður Alþb. í Reykjavík. Það vekur einnig athygli, að Þjóðviljinn hefur að undanförnu staðið í sérstæðum framkvæmdum. Sjálfir segja þeir, að þessar framkvæmdir séu fjármagnaðar af öreigum þessa lands. Slik söguskoðun stenst trauðla nánari athugun, vegna þess að í ljós hefur komið að þegar þeir seldu gamla Þjóðviljahúsið til þess að byggja nýtt í Síðumúla í Reykjavík var kaupandinn enginn annar en Rafafl — verktakinn sem hefur mokað fjármunum upp af almannasjóðum norður við Kröflu fram hjá öllu venjulegu viðskiptasiðferði. Sambandið þarna á milli virðist vera augljóst. Það hefur komið mörgum á óvart, hvers vegna Ragnar Arnalds hefur öll þessi ár setið í Kröflunefnd ásamt Jóni G. Sólnes og beinlínis tekið þátt í að verja þá augljósu fjármálaspillingu sem hefur átt sér stað í sambandi við þessa gufulausu virkjun í smáu og stóru. Það virðist ekki fráleitt að álykta að 100 millj., sem gæðingar hans hafa fengið fram hjá öllum venjulegum útboðsaðferðum og hafa að hluta runnið til þess að kaupa gamla Þjóðviljahúsið við Skólavörðustig, sé ein ástæðan fyrir þátttöku þm. í Kröfluævintýrinu.

Alþýðublaðið krefst þess, að dr. Gunnar Thoroddsen orkumálaráðherra svari því undanbragðalaust, hvernig á því standi, að rafverktakar við Kröflu, sem fyrir tveimur árum taka að sér verk fyrir 30 millj. kr., hafa nú fengið greiddar eitthvað hátt á annað hundrað millj. Málið lyktar af pólitískum hrossakaupum. Það virðist nærtækt að draga þá ályktun, að Kröflunefnd hafi verið notuð til þess að flytja verulegar upphæðir úr vösum skattgreiðenda til pólitískra gæðinga, en skattgreiðendur hafa ekkert fengið fyrir sinn snúð nema gufulausa virkjun og 72 milljarða sem hafa farið í vindinn.“ — Undirskrift er Ó.

Þegar svona lagað birtist í blaðinu sem við erum mjög að ræða um vegna þessa frv., þá geri ég kröfu hér úr ræðustól í Ed. að málið sé rannsakað. Annað er ekki hægt.

Við vorum að tala um árásir blaða á Alþingi og almennt siðgæði í þjóðfélaginu. Ekki verður lengur undir þessu setið. Hafa verður þetta á hreinu. Að vísu er það boðað, að raunsóknarblaðsmennska sé að leysa Ísland úr efnahagsvandræðum og margt margt fleira, og kunna þá að koma betri tímar. En fram hjá svona skrifum verður ekki gengið og þess vegna tek ég þessi skrif upp í Alþingistíðindi. Það er ekki hægt annað. Þetta er það mikilvægt mál.

Við fórum, nokkrir þm. að skoða Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun á sumardaginn fyrsta. Reyndar skal ég viðurkenna að ég hafði ekki ætlað að gefa mér tíma til að fara þessa ferð, en þegar ég heyrði að við þm. værum sérstakir dýrðlingar og dekurbörn þjóðfélagsins, sem mér var reyndar ekki kunnugt um áður, þá ákvað ég, og sagði konu minni það strax, að nú færi ég og hún kæmi hiklaust með. Og mér skilst að sumir þm. hafi tekið ákvörðun eftir að þeir heyrðu að við værum óvelkomnir á staðinn. En vinnubrögðin við að koma þessari frétt út í fjölmiðlunum voru bæði fjölmiðlunum og þeim, sem aðstoðuðu, til lítils sóma. Mun ég ekki rekja það. En samt fór svo, að Morgunblaðið tók fréttinni fegins hendi og líkti jafnvel stjórnarmönnum við Bokassa, einhvern mesta og versta einræðisherra sem til er á jarðríki. Er þetta hægt, Matthías? mundi nú einhver segja. Á hvaða stigi er íslensk blaðamennska? Og ætla alþm. að sitja undir þessu endalaust? Enginn svarar, því að við megum ekki svara neinu.

Íslenskt réttarfar virðist vera komið á það stig, að í fjölmiðlum skulum við sanna sakleysi okkar hvað sem um okkur er sagt. Ég er svo mikið barn, að ég hélt að það ætti að sanna á alþm. og aðra sök, ef þeir væru sekir. Nei, það er um að gera að láta í veðri vaka að við höfum eitthvað unnið til saka, það er aðalatriðið. Ég frábið mér ríkisstyrk til handa slíkri pressu. Þá skal ég falla frá kröfu minni, að hún sé rekin dag frá degi, þó með erfiðismunum sé. Og ég ætla blaðamönnum þá siðgæðisvitund, að þeir hætti svona skrípaleik. Ef eitthvert blað lifir ekki með öðrum hætti, þá má það blað deyja, með því blaði og rétti ég ekki mína hægri hönd við atkvgr. til að fá fjármagn úr ríkiskassa, þó ég hafi gert það hingað til.

Fjölmiðlarnir sleiktu út um. Af hverju sleiktu þeir út um? Það var sérstakt tækifæri á Sumardaginn fyrsta, þegar allir óska hver öðrum til hamingju samkv. gamalli íslenskri venju og bjóða gleðilegt sumar, að ráðast á Alþingi. Hinn virðulegi forseti Sþ. sagði í snjallri og ágætri ræðu, eins og honum einum er lagið, að hann hefði varla getað gert sér í hugarlund þegar hann á jólanótt kveikir ljósin á sínum bóndabæ, að þau væru raunverulega tendruð uppi í óbyggðum Íslands. En alþm. eiga ekki að fá tækifæri til þess að fylgjast með framkvæmdum sem kosta milljarða við slíkar aðstæður. Það voru 7 ár síðan flestir höfðu komið þarna. Reyndar hafði ég lagt það á mig að fara þangað áður á góðviðrisdögum og njóta þess að horfa á margar hendur vinna, en einnig notið dýrlegs útsýnis og öræfakyrrðar. Þetta er furðuleg ranghverfa á því, sem er jákvætt og eðlilegt í þjóðfélaginu. Og að mínu mati hefðum við átt að fara miklu fleiri ferðir. Veisluföng voru ekkert sérstök. Það hefði á venjulegum bóndabæ verið gert miklu betur við okkur en þarna var gert og sæí enginn eftir því. Þó var snyrtilegt og sómasamlegt í hvívetna, og þeim, er að stóðu, til sóma að mínu mati. En það má ekki gagnrýna neitt. Sjálfsagt verður maður hæddur fyrir að segja frá þessu. Það skiptir mig þó engu máli, af því að ég tel rétt og skylt að svara þessu, þó að úr þessum ræðustóli sé.

Það getur vel verið að mórallinn, bæði í þingsölum og á meðal þm. og annarra sé kominn á sérstaklega lágt stig í samanburði við eitthvað annað sem fjarlægðin hafi gert óskaplega fallegt og fínt. Ég veit það ekki. Ég þekki það ekki nógu vel. En ég ætla það engum samstarfsfélaga mínum í þessari háu stofnun, sem ég er nú að yfirgefa, að hann starfi óheiðarlega. Það hvarflar ekki að mér. Við skiptumst á skoðunum og við kunnum að rífast hressilega, bæði í n. og hér á Alþ., en að menn starfi hér óheiðarlega með svindl og brask í huga, — ég frábið mér að hugsa þannig um þessa menn. Ég þekki marga þeirra vel og hef starfað lengi með þeim, þó að við séum hatrammir andstæðingar á hugsjónasviði.

Ég barðist hér fyrir því, einmitt á vordögum eins og þessum, að fjarlægja auglýsingar úr íslenskum blöðum. Þetta var fyrir 7 árum. Það urðu hatrammar deilur hér og það svo langar, að svo fór, að forseti varð að ávíta mig, ekki fyrir orðbragð, heldur fyrir að nota of mikinn tíma, af því að ég vildi ekki gefast upp við að losna við tóbaksauglýsingar, sem voru kostaðar af erlendu fé, ómældu og ótæmdu, úr íslenskum blöðum og var það af mörgum ástaeðum sem ég ætla ekki að fara að rekja. Þá var lítill tími til stefnu. Ég gerði það fyrir beiðni forseta að stytta mál mitt og skal líka stytta mál mitt nú, en legg á það megináherslu, að engum væri hollt að lifa á þessu fé. Þó það sé jafnvel tugir millj. yrði að reka íslenska blaðaútgáfu með öðrum hætti. Það voru svo margir ágætir þm. á sömu skoðun og ég þá, að þingið féllst á þetta og blessunarlega urðu þetta lög á Íslandi, fyrstu lögin í Evrópu, fullyrði ég, sem tóku þetta skref og hreinsuðu þennan áróður úr íslenskum blöðum. Sjálfsagt sjá margir enn í dag eftir þeim peningum sem þessi lög höfnuðu. Við því er hreinlega ekkert að segja. Mönnum er frjálst að bera fram frv. um að leyfa bæði auglýsingar á tóbaki og brennivíni í blöðunum og moka í það peningum. Það hefðu sjálfsagt fengist 100 millj. með þeim hætti. Ég mun hins vegar og margir aðrir fylgjast spenntir með hvaða þm. taka það hlutverk að sér. Það frv. mundi vekja þjóðarathygli, ekkert síður en bjórfrv.

Þessi upphæð, sem Alþýðublaðið þiggur og hefur valdið svona miklu fjaðrafoki, bæði innan Alþfl. og nú hér á Alþ. og í fjölmiðlum, er um l0 millj. kr. að mati þeirra manna er til þekkja. Þetta er út af fyrir sig ekki mikið fé, en var lífsnauðsynlegt, eins og rakið var í þessu margumrædda dreifibréfi, sem ég amaðist við vegna sérstaklega eins þáttar í bréfinu, sem var ósanngjarn og órökstuddur með öllu. Þetta ýtti við ýmsum mönnum og vakti efasemdir um, að hér væri verið að fara inn á rétta braut. Mér var boðin aðild að þessu frv. og ég tók þá ákvörðun, án þess að ræða við einn eða neinn, að eiga aðild að því. Það er skammarleg frammistaða af góðum flokksmanni að gera slíkt, það skal ég viðurkenna og skorast ekkert undan því að vera hundskammaður þess vegna. Em ég hef þó fullt frelsi til að taka afstöðu eftir minni samvisku og geðþótta. Til þess sitja menn hér á Alþ. að starfa þannig, en vera ekki bundnir á höndum og fótum og með bundið fyrir augu. Ég get vel fallist á og mönnum er alveg frjálst að líta þannig á svo alvarlegt agabrot, að það jaðri við brottrekstur eða sé brottrekstrarhæft og þurfi að senda dreifibréf til að vara við slíkum fyrirbrigðum. En þá nær það ekki lengra og hver hefur sitt. Ég vil alls ekki með nokkru móti líkja við þetta samskiptum milli þjóðþinga, milli sendinefnda, milli félagssamtaka, né kalla skylt, jafnvel ekki starfsemi Varðbergs, æskulýðsstarfsemi og þar fram eftir götunum, þó þar komi við sögu ákveðin pólitísk hliðstæð samtök erlendis. Slíkt er allt annað. Auðvitað má setja um það reglur og lög, að allt ætti að vera eins og síðasti ræðumaður sagði og menn hafa gert hér í ræðum sínum, að heilbrigt væri að setja víða og eðlilega rammalöggjöf um alla stjórnmálastarfsemi í landinu. Það kann vel að vera, að hægt sé að brjóta slík lög. En hvaða lög er ekki hægt að brjóta, ef það er ásetningur manna að brjóta lögin á annað borð? Ætla menn að þm. eða starfsmenn flokkanna mundu leggja sig í lima við að brjóta slíka löggjöf? Ég ætla engum slíka lágkúru, ekki nokkrum manni. Og hvar er okkar réttarríki á vegi statt og allt okkar eftirlitskerfi niður komið, sem er farið að telja mörg hundruð manna og velta milljörðum, allur þessi eftirlitsher sem er þegar fyrir hendi og á að koma? Hvað á hann að starfa? Við þurfum ekki að hræðast löggjöf þess vegna. Það má ekki gera mönnum upp sakargiftir fyrir fram og fella dóm samkv. því. Það er ekki hægt í lýðfrjálsu ríki og er engum þm. samboðið að hugsa þannig. Þess vegna vísa ég á bug, þó að vel sé fram sett, þeirri hugsun, að þetta sé eitthvað skylt. Það er ekkert skylt og mun vonandi aldrei verða.

Þetta mál er orðið stórt og mikið mál og verður sjálfsagt frægt í sögu blaða hér á landi. Það gerir ekkert til. Það aðeins vekur menn til umhugsunar um það, að óhjákvæmilegt er að setja um þetta lög, bæði þennan þátt í starfsemi íslenskra blaða og íslenska stjórnmálastarfsemi almennt, en einnig um íslensku stjórnmálaflokkana. Það er alveg tímabært, eins og ég sagði áðan. Og þá verð ég að segja það alveg hreinskilnislega, að það var ekki slæmt að þetta frv. kom fram á hv. Alþingi.