28.04.1978
Efri deild: 90. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

62. mál, grunnskólar

Frsm. minni hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá var menntmn. þessarar hv. d. ekki sammála við afgreiðslu þessa máls. Við Steingrímur Hermannsson skilum séráliti þar sem við leggjum til að frv. verði fellt.

Eins og fram kemur í grg. með frv. var þetta frv. lagt fram í lok síðasta þings, en komst ekki á dagskrá. Því fylgdi þá svo hljóðandi grg., með leyfi forseta:

„Frv. þetta er flutt að beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Á fundi bæjarstjórnar 5. nóv. 1974 var samþykkt áskorun til Alþingis þess efnis, að heimila að Hafnarfjörður verði sérstakt fræðsluhérað með sérstökum fræðslustjóra. Hafa þessi tilmæli verið ítrekuð við menntmrh. og viðræður hafa farið fram um málið milli bæjaryfirvalda . og þm. kjördæmisins.

Árið 1969 stofnaði Hafnarfjarðarbær eigin fræðsluskrifstofu. Jafnframt réð bærinn fræðslustjóra samkv. sérstökum samningi við menntmrn. Hafnarfjörður hafði því að eigin frumkvæði komið þessari stjórnunar- og þjónustuaðstöðu upp í sínum skólamálum löngu áður en grunnskólalögin tóku gildi. Er eðlilegt að svo fjölmennt sveitarfélag fái að halda þessari aðstöðu sinni áfram.

Þegar frv. til l. um grunnskóla var til meðferðar á síðustu dögum þingsins vorið 1974, lá einnig fyrir Alþingi frv. til l. um landshlutasamtök sveitarfélaga. Hafði það frv. hlotið afgreiðslu í fyrri þd, ágreiningslítið. Allmörg ákvæði í grunnskólafrv. voru við það miðuð, að landshlutasamtökunum yrði markað ákveðið hlutverk með lögum. Lög um landshlutasamtök hafa hins vegar ekki verið sett.

Það verður að teljast óeðlilegt að fela áhugasamtökum svo veigamikið hlutverk sem kosningu í fræðsluráð. Frv. þetta bætir ekki þá annmarka grunnskólalaga, sem stafa af því að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa ekki fengið lögfestingu. Hins vegar opnar það leið fyrir bæjaryfirvöld í Hafnarfirði til þess að halda áfram fræðsluskrifstofu í skólahéraði sínu, en það verður að teljast mikilvægt, m.a. vegna þess að Hafnarfjörður á ekki aðild að samtökum sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi og hefur því engin áhrif í fræðsluráði umdæmisins. Auk þess má benda á að íbúafjöldi Hafnarfjarðar er um 12 þús. eða meira en í sumum fræðsluumdæmum eða kjördæmum.“

Herra forseti. Ég vildi rifja þetta upp til þess að hv. þm. glöggvuðu sig á því, hver væri forsendan fyrir flutningi þessa frv.

Ég er kunnugur því, að þegar frv. til l. um grunnskóla var á undirbúningsstigi, þá var greinilegt að í það var lögð jafnvel meiri vinna en tíðkast við undirbúning frv. Það var margkynnt víðs vegar um landið. Sérstaklega er ég kunnugur meðferð málsins í Reykjaneskjördæmi. Þar var mjög ítarlega unnið að því að kynna málið öllum þeim aðilum sem fjölluðu fyrst og fremst um skólamál, þ. e. a. s. skólamönnum annars vegar og sveitarstjórnarmönnum hins vegar, sem kynntu sér frv. ítarlega á undirbúningsstigi. a1 lokastigi við undirbúning málsins vorn teknar til greina ábendingar frá Reyknesingum varðandi þetta mál og er þær að finna í 15. gr. frv. og 85. gr. þess. Í grg., sem fylgdi frv. í lokagerð þess, er sérstaklega vitnað til þess, að tekið hafi verið tillit til óska sveitarstjórna úr Reykjaneskjördæmi.

Reynslan, sem fengin er af störfum fræðsluskrifstofunnar á Reykjanesi, er góð. Þó ber á það að líta, að hér er um byrjunarstarf að ræða. Starfsemin er enn í mótun. Aðstæður í Reykjaneskjördæmi eru máske nokkuð aðrar en í öðrum kjördæmum. Ég bendi m. a. á að þar eru betri samgöngumöguleikar að vetri til en annars staðar. Svo er annað atriði. Allt frá því 1969 höfðu sveitarfélögin þar rekið sameiginlega á sinn kostnað sálfræðiþjónustu innan barnaskólanna, þannig að fyrir var vísir að samræmdu starfi innan kjördæmisins á því sviði sem grunnskólalögin tóku síðan yfir.

Svo var ástatt, að tvö stærstu sveitarfélögin, Kópavogur og Hafnarfjörður, höfðu samkv. sérsamningi við menntmrn. sérstaka fræðslustjóra. Þeirra verksvið breyttist við samþykkt grunnskólalaganna og báðir þessir staðir halda áfram að reka fræðsluskrifstofur sínar. Þær heita raunar samkv. grunnskólalögunum skólaskrifstofur núna, og þeir starfsmenn þar, sem áður hétu fræðslustjórar, heita samkv. grunnskólalögunum skólafulltrúar og eru nú starfsmenn sveitarfélaganna í stað þess að vera ríkisstarfsmenn áður.

Eitt af meginmarkmiðum grunnskólalaganna var að flytja tiltekna þætti fræðslumálanna út í héruðin, þ. e. a. s. frá menntmrn. og út í kjördæmin. Til þess að ná því markmiði eru settar á stofn fræðsluskrifstofur í kjördæmunum og ráðnir fræðslustjórar sem eru ríkisstarfsmenn. Ég tel, og er ekki einn um það álit, að sú skamma reynsla, sem fengin er af þessari skipan, lofi góðu. Ég vitna enn til þess héraðs, sem ég er kunnugastur í, Reykjaneskjördæmis. Reynslan af fræðsluskrifstofunni í Reykjaneskjördæmi er slík, að sveitarstjórnir þar vilja fremur efla starfsemina en að draga úr henni, og það er álit margra, sem gleggst til þekkja, að gerbreyting til batnaðar hafi átt sér stað í þessum málum þann skamma tíma, sem fræðsluskrifstofa hefur verið rekin í þessu formi í kjördæminu. Störf hennar hafa leitt til hagræðis og hreins sparnaðar fyrir sveitarfélögin.

Eitt af því, sem skrifstofan gerir án þess að henni sé falið það lögum samkv. og er þar af leiðandi ekki lögum samkv. í hennar verkahring, er að skrifstofan annast útreikning varðandi alla aukavinnu kennara í kjördæminu. Þetta hefur orðið til samræmingar og til mikils hagræðís og sparnaðar fyrir sveitarfélögin. Fræðsluskrifstofan bauð öllum sveitarstjórnum kjördæmisins þessa þjónustu sína og þáðu þau það öll, einnig bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Hafnarfjörður hefur einnig verið aðili að hinni sameiginlegu áður áminnstri sálfræðiþjónustu, sem nú hefur verið færð yfir á allt grunnskólastigið. Þetta gera Hafnfirðingar þrátt fyrir að þeir séu ekki lengur aðilar að landshlutasamtökum kjördæmisins og þó svo þeim beri engin skilda lögum samkv. til þess að notfæra sér þessa þjónustu fræðsluskrifstofunnar. Þeir sjálfsagt einfaldlega sjá sér hag í þessu samstarfi.

Fjárveitingavaldið hefur óneitanlega verið fremur sparsamt á fjárveitingar til fræðsluskrifstofa, bæði hvað snertir húsnæðismál þeirra og til rekstrar. Það skýtur því nokkuð skökku við reynsluna, ef tilkoma fleiri fræðsluskrifstofa en nú eru verður ekki til þess að takmarka enn frekar fjárveitingar til hverrar einnar þeirrar og þar með draga úr starfseminni í stað þess að þörf er á því að hún sé aukin og efld.

Menntmn. hv. Nd. hafði mál þetta lengi til meðferðar. Allt í einu var rokið til og málið afgreitt úr n. án þess að það væri sent til umsagnar nokkurs einasta aðila. Við í menntmn. þessarar hv. d. höfum ekki lengi haft þetta mál til meðferðar, en það var talið eðlileg og sjálfsögð skylda að kanna viðhorf nokkurra aðila til þessa máls, og þess vegna var það sent til umsagnar fræðsluráðanna úti um landið svo og til Sambands ísl. sveitarfélaga. Hafa borist umsagnir frá fræðsluráðunum í Reykjaneskjördæmi, Suðurlandskjördæmi, Austurlandskjördæmi, Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra, og þær eru allar efnislega í einu hljóði á þann veg, að þær mæla gegn samþykkt þessa frv. Auk þess hefur borist erindi frá bæjarstjórn Kópavogs, Samtökum sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi og frá stjórn Landssambands framhaldsskólakennara. Þessir aðilar allir leggjast gegn samþykkt þessa frv. Ég ætla, herra forseti, að kynna samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs, sem samþ. var einróma í bæjarstjórn Kópavogs hinn 11. apríl, en þar segir svo:

„Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að skora á Alþ. að fella fram komið frv. til breytinga á grunnskólalögum, sem gerir ráð fyrir því, að heimilt verði að stofna fræðsluskrifstofur í sveitarfélögum með yfir 10 þús. íbúa. Bæjarstjórn telur, að sú fræðsluumdæmaskipan, sem ákveðin er í grunnskólalögum, sé heppileg og sú reynsla, sem af þessari skipun er fengin, sé mjög jákvæð. Sérstaklega vill bæjarstjórn Kópavogs vekja athygli á þeirri ágætu reynslu sem nú þegar er fengin af fræðsluskrifstofu Reykjaneskjördæmis, en hún veitir sveitarfélögum í umdæminu hina bestu fyrirgreiðslu og þjónustu. Á þeim stutta tíma, sem fræðsluskrifstofan hefur starfað, hefur orðið gagnger breyting til bóta í þeim málum, sem hún annast, til mikils hagræðis og sparnaðar fyrir sveitarfélögin í umdæminu. Bæjarstjórn Kópavogs telur að það þjóni best hagsmunum sveitarfélaga, að þær fræðsluskrifstofur, sem fyrir eru í landinu, verði efldar, en ekki að þeim verði fjölgað.“

Í svipuðum dúr eru áður áminnstar umsagnir og erindi sem borist hafa.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur ekki sent frá sér umsögn, en ég vitna til þess, herra forseti, að í des. 1915, þegar til umr. voru hér á Alþ. breyt. á lögum um verkefni sveitarfélaga, þá lagði stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ríka áherslu á að auknar yrðu fjárveitingar til þessarar starfsemi, til þess að efla starf fræðsluskrifstofa: Það var eitt af þeim atriðum sem þeir sendu frá sér til ábendingar og athugunar við meðferð þess máls hér á hv. Alþ. í des. 1975.

Ég hef rakið í stuttu máli hvað hefur skeð á þeim skamma tíma sem þessi skipan hefur verið. Flestir, sem til þekkja, telja að góð reynsla sé fengin af þessari starfsemi og frekar sé ástæða til að auka hana en draga úr henni. Ef aukið fjármagn fæst til þessara starfa er það betur komið í því að efla það starf, sem fyrir er, í stað þess að dreifa kröftunum frekar.

Aðaltilefni þessa frv. og allar röksemdir fyrir því sem eru ekki vegna þess kerfis sjálfs sem við erum að koma upp og móta, virðast runnin af rótum þess, að menn eru ekki ánægðir með þá skipan, að áhugasamtökum sveitarfélaga sé falið það hlutverk að kjósa fræðsluráð kjördæmanna. Þetta virðist vera mergurinn málsins í sambandi við þetta frv., en ekki óánægja með sjálft skipulagið og það starf sem þarna er unnið. Og meginástæðan fyrir þessu liggur í því, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur afsalað sér því að hafa áhrif á val fræðsluráðsins með því að segja sig úr landshlutasamtökum Reykjaneskjördæmis, sem lögum samkv. á að kjósa þar fræðsluráð. Þessi skipan getur verið óeðlileg. Ég endurtek: Þessi skipan getur verið óeðlileg, að áhugasamtök sveitarfélaga, eins og landshlutasamtökin eru í dag, eigi að kjósa í fræðsluráð kjördæmanna. Það geta nánast öll sveitarfélög, stór eða smá, afsalað sér rétti sínum til þess að hafa áhrif á kosningu fræðsluráða í dag. Það er ekkert sem í lögum bindur þau til þess að vera í landshlutasamtökunum og taka á þann hátt þátt í kosningu fræðsluráða. Þarna er því vissulega um nokkra missmið á lögunum að ræða og eðlilegt að snúa sér að kjarna málsins, sem er þessi. Þetta frv. bætir hins vegar að ákaflega litlu leyti úr þeim vanda. Það miklu fremur getur orðið til þess að auka á vandamálið, en það hygg ég að sé ekki tilgangurinn. Hliðstæður geta komið upp um allt land hvað það áhrærir, að sveitarfélög geta að þessu leyti sett sig í sömu spor og Hafnarfjörður er í nú. Þetta frv. bætir ekkert úr varðandi það efni. Og hvað verður gert ef óskir koma frá fámennari sveitarfélögum en þeim sem hafa 10 þús. íbúa og þar yfir? Hvað gerir hv. Alþ. þá? Hvers eiga þau sveitarfélög að gjalda, sem eru með innan við 10 þús. íbúa, en setja sig í sömu aðstöðu og bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur gert með því að afsala sér valdinu eða réttinum til þess að kjósa fræðsluráð kjördæmisins, með því að vera ekki aðili að þessum áhugasamtökum sveitarfélaganna? Sömu eðlilegu rökin geta legið fyrir ótal umsóknum annarra sveitarfélaga um það, að nauðsyn sé á að stofnaðar séu fræðsluskrifstofur hjá þeim vegna þess að þau séu ekki lengur aðilar að landshlutasamtökum og taki þá ekki lengur þátt í kosningu fræðsluráðs.

Ég endurtek: Mér hefur skilist að það sé ekki tilgangurinn með þessu frv, að brjóta niður það kerfi sem verið er að byggja upp, — það er a. m. k. ekki haft á orði, — en aðalástæðan sé þessi, að sveitarfélagið hafi afsalað sér réttinum til að velja í fræðsluráð kjördæmisins. Og þannig getur það orðið, eins og ég áður sagði, um æ fleiri sveitarfélög hvað þetta snertir. Þetta frv. leysir því ekki þann vanda sem ávallt getur verið fyrir hendi samkv. lögunum núna.. Miklu fremur væri að snúa sér að því að leysa það mál á annan hátt, tryggja að sveitarfélögin gætu tekið þátt í kosningum fræðsluráðs án þess að þurfa að vera í landshlutasamtökum, sem eru og verða aðeins áhugasamtök. Það eru til lögformlegir stjórnunaraðilar í hverju sveitarfélagi, bæjarstjórnir í kaupstöðum, hreppsnefndir í hreppum og samnefnari þeirra, sýslunefndirnar, í sýslunum. Þessir aðilar geta vissulega, kosið fræðsluráð og þá væri enginn út undan og þá þyrfti Alþ. ekki að standa, kannske árlega, frammi fyrir því að vera að breyta þessum ákvæðum vegna sömu raka og flutt eru fram fyrir þessu frv. hvað snertir stöðu Hafnarfjarðarbæjar í dag.

Herra forseti. Niðurstaða mín í þessu máli er því þessi:

1. Það er ánægja með þá reynslu sem fengin er af starfi fræðsluskrifstofunnar á Reykjanesi, þó hún hafi aðeins starfað um skamman tíma, og vilji er fyrir því, að sú starfsemi verði efld. Frv., ef að lögum verður, getur leitt til þess að brjóta þetta kerfi niður.

2. Fjölgun fræðsluskrifstofa frá því sem er hefur í för með sér aukin útgjöld miðað við sömu starfsemi og nú er. Samþykkt frv. leiðir því af sér annað tveggja, að dregið verður úr núverandi störfum fræðsluskrifstofanna eða að hægar gengar að fá aukið fjármagn til að auka við þá starfsemi sem þar er rekin nú og almennur vilji er fyrir.

3, Frv. tekur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti á þeim vanda sem uppi er og upp getur komið vegna þess að landshlutasamtökum sveitarfélaga er falið það verkefni að kjósa í fræðsluráð, en þau samtök eru aðeins áhugasamtök, eins og ég hef áður minnst á. Samþykkt frv. getur hins vegar beinlínis kallað á enn meiri vanda í þessum efnum. Sveitarfélög með innan við 10 þús. íbúa geta krafist sama réttar með sömu rökum og tilfærð eru með þessu frv.

4. Það ber því að snúa sér frekar að því að finna lausn á þessum heildarvanda, þ.e. kosningatilhöguninni til fræðsluráðanna, án þess að tefla í hættu þeirri skipan, sem er í dag, og vinna að því að lögfesta breytingu í þá átt á næsta þingi.

Samþykkt þessa frv. getur skapað mikinn og alvarlegan vanda, en það leysir ákaflega litinu vanda og því tel ég að það eigi að fella frv.