28.04.1978
Efri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

62. mál, grunnskólar

Jón Helgason:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í menntmn, sem fékk þetta frv. til athugunar, en var fjarverandi við afgreiðslu málsins, þá vil ég láta það koma fram, að ég styð álit frá minni hl. menntmn., sem Axel Jónsson og Steingrímur Hermannsson skrifa undir, þar sem þeir leggja til að frv. verði fellt.

Ástæðuna fyrir því, að ég er því meðmæltur, tel ég vera augljósa, þar sem ég finn engin rök fyrir þeirri breytingu á lögum um grunnskóla, sem frv. gerir ráð fyrir. Ef frv. yrði samþykkt væri verið að brjóta niður það skipulag, sem komið var á fót með grunnskólalögunum, eins og hv. frsm. minni hl. gerði glögga grein fyrir áðan. Þegar byrjað er að hverfa frá þessu skipulagi, þá er erfitt að sjá hvar yrði staðar numið. Það virðist þá a. m. k. fjarstæða að telja að þörfin fyrir sérstakan fræðslustjóra í sveitarfélagi fari eftir því hvort íbúar sveitarfélagsins eru 10001 eða 9999. Ég held að slík skipting geti varla verið bundin við íbúatölu. Það virðist a. m. k. furðulegt, ef það er meiri þörf fyrir t. d. Hafnfirðinga og Kópavogsbúa að fá sérstakan fræðslustjóra, eins og frv. veitti heimild til ef það yrði samþykkt, vegna þess hvað það væri erfitt fyrir þá að sækja til sameiginlegs fræðslustjóra í Garðabæ, þar sem hann situr nú, — ef það væri meiri þörf fyrir þá heldur en t. d, fyrir Vestmanneyinga, sem eiga að sækja upp á Selfoss, svo að eitthvert dæmi sé nefnt. En það kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl., að Kópavogsbúar telja fjarstæðu að breyta þessu skipulagi enda þótt heimildin mundi ná til þeirra líka.

Það væri hægt að halda lengi áfram að telja upp rökin sem mæla gegn þessu, en það hefur nú þegar verið gert af hv. frsm. og ég mun ekki lengja þessar umr. þess vegna. Ég vil þó taka það fram, að ég sé engin rök, sem mæla með samþykkt frv., og vil undirstrika, að ég tel ákaflega hæpið af hv. Alþ. að fara að samþykkja þetta frv.