28.04.1978
Efri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

62. mál, grunnskólar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um þetta frv. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, að því er virðist, og vandratað út úr því. Þetta er orðið að vandamáli í viðkomandi kjördæmi og er vandséð hvernig hægt er úr því að bæta. Ekki er ég þess umkominn að segja til um það, ókunnugur maður á þessum slóðum, hvort þetta muni verða til nokkurra bóta þar. En ég hef ákveðið að greiða ekki atkv. um þetta frv. Þetta er næstum að segja orðið algert innanhéraðsmál, þannig að ég sé mér ekki fært að setja mig upp á móti þessu tiltekna atriði þrátt fyrir að ég sé í grundvallaratriðum á móti því að veikja fræðsluskrifstofurnar. Þetta er þegar orðin staðreynd þarna suður frá og ekki nein von til þess að þeirri illsku, sem þar er á milli, linni neitt á næstunni. Því þarf varla að búast við því, að við getum með því að fella þetta frv, komið viti fyrir þá sem viti þarf fyrir að koma þar suður frá, því að eitthvað hlýtur þar meira en lítið að vera að þegar svona er að málum staðið.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef gert ævinlega varðandi allar umr, um grunnskólalögin, að nauðsynlegt sé að styrkja og efla fræðsluskrifstofurnar. Þetta frv. er nú svo stórt í sniðum hvað snertir íbúafjölda, að það snertir ekki Austurlandið, kemur ekki við okkur þar neitt á næstunni og þess vegna engin hætta á því, að það, þótt samþykkt verði, veiki fræðsluskrifstofu okkar nokkuð, sem betur fer. Ég er nú svo mikill kjördæmamaður, að ef ég hefði séð það á frv., að það mundi hafa í för með sér að drægi úr athafnasviði fræðsluskrifstofu okkar, þá hefði ég ekki getað stillt mig um að greiða atkv. gegn þessu vitlausa frv. En málið er allt þess eðlis, að ég held að það sé best að sitja hjá og lofa þeim að stríða áfram eins og þeir hafa gert þarna suður frá. Einhver sjónarmið liggja þarna eflaust að baki sem eru réttlætanleg, en meginatriði málsins held ég að séu þó annarlegs eðlis, svo að ekki sé meira sagt. Ég þekki t. d. fræðslustjórann í Reykjanesumdæmi mætavel og ekki hefðu þeir Hafnfirðingar átt að fráfælast þann mæta mann og allra síst miðað við hans fyrri stöðu þar suður frá, enda mun annað liggja að baki en það.

Ég ætla hins vegar aðeins að mótmæla því, sem segir í grg. þessa frv., sem er til marks um ýmislegt annað í þessum málflutningi öllum. En þar stendur: „Það verður að teljast óeðlilegt að fela áhugasamtökum svo veigamikið hlutverk sem kosningu í fræðsluráð.“ Þetta er eitt af þeim gullkornum sem finnast í þessari grg., sem þeir .standa að fjórir þm.. í Nd. og menn gera með stuðningi við þetta ósjálfrátt eða sjálfrátt að sínum rökstuðningi einnig. Það er enn þá verið að klifa á því, og það skil ég vegna 1. flm. frv., að allmörg ákvæði í grunnskólafrv. hafi verið við það miðuð, að landshlutasamtökunum yrði markað ákveðið hlutverk með lögunum, þó að lög um landshlutasamtök hafi hins vegar ekki verið sett. Þetta er hrein endileysa og kemur þessu máli ekkert við. Landshlutasamtökin starfa algerlega jafnvel og ég hugsa að þau starfi betur vegna þess að þau voru ekki lögfest og kosning í fræðsluráð þeirra, að undanþegnu þessu tiltekna umdæmi, hefur farið fram, held ég, með miklum ágætum — a. m. k. veit ég þess dæmi úr mínu kjördæmi — og almenn ánægja verið með það og fræðsluráð þar gegnt í raun og veru mikilvægara hlutverki en vera bara fræðsluráð grunnskóla — og er það vel. Og þá er nú langt gengið þegar hv. þm. Ólafur G. Einarsson, sérstakur talsmaður óopinberra afskipta, segir að það sé óskaplegt að fela áhugasamtökum kosningu í fræðsluráð, — þá er nú langt gengið í lélegum og aumum rökstuðningi.

En sem sagt, eins og ég sagði áðan, ég hef lýst grundvallarafstöðu minni til þessa máls. Þetta snertir ekki mitt kjördæmi, en ég er hræddur um að það geti orðið til skaða. Ég hygg þó að Akureyringar séu það mikið þroskaðri en þeir þarna suður frá, að þeir muni ekki fara að hlaupa til og stofna sitt sérstaka umdæmi þar norður frá. Um aðra gildir þetta ekki en þá Kópavogsmenn, sem við höfum þegar fengið álitið frá. Ég held að ég taki ekki þátt í þessari vitleysu og greiði ekki atkv.