28.04.1978
Efri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

62. mál, grunnskólar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég stend nú þér upp til að gera greitt fyrir skoðunum mínum á þessu máli og um leið til að þakka hæstv. ráðh. fyrir eftirtektarverða ræðu. Hann lýsti yfir andstöðu sinni við þetta frv. og hef ég ekki áður heyrt hann gera það. Hann upplýsti, að leitað hefði verið til sín með framgang þessa máls á sínum tíma, en hann og samstarfsmenn hans í rn. hefðu ekki getað fallist á þá lausn sem hér væri gerð till. um, og þá væri farin sú leið í þessu máli að þröngva þessu máli í gegnum Alþ. í andstöðu við menntmrh. Hæstv. menntmrh. sagði það ekki einu sinni, heldur líklega þrisvar sinnum, að hér væri um einsdæmi að ræða, að einn ráðh. í samsteypustjórn ryddist þannig inn á valdsvið annars ráðh. og þröngvaði fram máli sem undir hann heyrði, þrátt fyrir að viðkomandi ráðh. væri þar í andstöðu. Mér þóttu þetta hin mestu tíðindi. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, að málið væri þannig vaxið. Ég verð að segja það eins og er og taka undir með hæstv. ráðh., að í sjálfu sér ber það ekki vott um mikla tillitssemi af hálfu eins ráðh. að fara þannig að gagnvart samstarfsmanni sínum.

Mér fundust líka ábendingar ráðh. um margt skynsamlegar. Ég verð hins vegar að segja eins og er, að mér sýnist ekki að þetta sé neitt stórmál. Ég held að samþykkt frv. muni ekki breyta miklu til eða frá. Ég satt að segja lít svo á, að sum þau mál, sem hafa verið hér til afgreiðslu í d. á seinustu dögum og varða menntamál og ágreiningur hefur orðið um, hafi í raun verið miklu stærri í sniðum en þetta mál. Ég geri miklu meira úr því persónulega, svo að ég nefni dæmi, að frv. um Kvikmyndasjóð, sem kom frá ríkisstj. eftir þriggja ára umþenkingu, skyldi vera látið fara í gegnum Alþ. jafnafskræmt og það var, en það er hrein sýndarafgreiðsla í raun og veru, ef málið er skoðað grannt. Það var virkilega stórt mál, en mér sýnist að þetta sé ekki sérlega stórt mál. Mér sýnist að samþykkt þessa frv. muni ekki skapa nein alvarleg fordæmi. Það eru ekki horfur á að fylgt gætu þarna í kjölfarið aðrir staðir en Akureyri og svo hugsanlega Kópavogur. Mér skilst að það sé fyrst og fremst raunhæft í sambandi við Akureyri, en hins vegar afar hæpið að það sé neinn sérstakur vilji fyrir hendi að fá þessu framgengt þar. Ég tel ákaflega ósennilegt að Akureyringar vilji fara að kljúfa sig frá kjördæminu. Þeir fyrir norðan vilja áreiðanlega hafa samstarf sín á milli. Þar af leiðandi er ekki útlit fyrir að þeir muni nota þetta sem fordæmi fyrir sig.

Ég vil bæta því við, að ég, eins og ég hef þegar sagt, hafði aldrei orðið var við andstöðu menntmrh. eða menntmrn. í þessu máli. Hins vegar hafa Reyknesingar sótt fast á að fá þessa skrifstofu. Ég er einn þeirra mörgu sem hafa fallist á að leysa þennan hnút, höggva á þennan hnút og verða við bón þeirra, vegna þess að ég hef út af fyrir sig alls ekki óttast að þetta hefði neinar alvarlegar afleiðingar. Mín afstaða er hins vegar alveg hrein og bein hvað það snertir. Ég kæri mig ekki um að splundra fræðsluskrifstofnnum, sem nú hefur verið komið upp víða um land, og mun á engan hátt líta á það, sem hér hefur verið gert fyrir Hafnarfjörð, sem nokkurt fordæmi í þá áttina. Ef ég raunverulega óttaðist að slíkt gæti verið á ferðinni, þá mundi ég alls ekki fylgja þessu frv.

Þetta er sem sagt afstaða mín í grófum dráttum. Ég þakka ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér áðan og voru nýjar fyrir mig, en satt best að segja fannst mér að ræða hans væri heldur seint á ferðinni og hann hefði mátt halda þessa ræðu fyrr. Ég mun greiða frv. atkv. við 2. umr, í samræmi við afstöðu mína í menntmn., en að sjálfsögðu áskil ég mér fullan rétt til þess að kynna mér þær brtt, sem fram kynnu að koma við 3. umr.