28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

292. mál, ríkisreikningurinn 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1976 liggur hér fyrir á þskj. 622 og hefur frv. verið afgreitt frá hv. Ed. Þá hefur verið lagt fyrir þingið frv. til fjáraukalaga vegna sama árs.

Eins og fram kemur í aths. með frv. er það samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1976. Reikningurinn, A-hluti hans, var afhentur yfirskoðunarmönnum til meðferðar og lagður óendurskoðaður fyrir Alþ. í maímánuði 1977 og B-hlutinn í nóv. sama ár. Nú er hann lagður fyrir Alþ. endurskoðaður með aths. og till. yfirskoðunarmanna og svörum ráðh.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. fyrir þetta ár gerði ég nokkra grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1976 og ríkisreikningi. Í maímánuði 1977 lagði ég einnig fram skýrslu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1976. Hinn 11. jan. það ár gaf fjmrn. út sérstaka tilkynningu um afkomu ríkissjóðs samkvæmt bráðabirgðatölum ríkisbókhalds. Skýrsla mín til Alþ. var síðan nánari grg. um afkomuna. Enda þótt niðurstöðutölur reikningsins séu aðrar en bráðabirgðatölur skýrslunnar m. a. vegna þess að hún var fyrst og fremst byggð á niðurstöðutölum greiðsluhreyfinga, en reikningurinn er gerður upp á rekstrargrunni, eru efnislegar breytingar óverulegar og mun ég því ekki gera nema örstutta grein fyrir ríkisreikningi nú, enda hafa hv. þm. haft hann til athugunar, eins og ég sagði, frá 1977.

Yfirskoðunarmenn gerðu fyrirspurnir í 14 liðum og birtu auk þeirra yfirlit um viðskipti innheimtuembætta við ríkissjóð samkv. bókhaldi ríkisbókhaldsins fyrir árið 1976 með hliðstæðum hætti og áður hefur verið gert. Svör við fyrirspurnum sínum telja yfirskoðunarmenn ýmist fullnægjandi eða rétt að viðkomandi atriði verði til athugunar. Tillögum sínum skiluðu yfirskoðunarmenn í þessum mánuði og leyfi ég mér að vísa í ríkisreikninginn varðandi þær svo og sjálfar fyrirspurnir þeirra og svör við þeim. Tel ég ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir þeim að svo stöddu.

Með frv. til fjáraukalaga fyrir 1976 gerði ég stutta grein fyrir helstu frávikum reiknings og fjárlaga þess árs og tel ekki ástæðu að þreyta hv. þm. með því að endurtaka þær tölur sem þar var getið.

Heildarniðurstaða rekstrarreiknings A-hluta ríkisreikningsins fyrir 1976 var að gjöld námu 70 milljörðum 507 millj. 766 þús., en tekjur námu 71 milljarði 323 millj. 851 þús. kr. Afgangurinn á rekstrarreikningi var því 816 millj. 85 þús. kr. Greiðsluafkoma ríkissjóðs á árinu 1976 samkv. breytingum sjóðseignar, innistæðu og skuldaávísana á hlaupareikningi við Seðlabanka Íslands og við innlánsstofnanir ásamt breytingum lánareikninga við Seðlabankann var hins vegar óhagstæð á árinu 1976 um 518 millj. Lausafjárstaðan við aðra en Seðlabankann og innlánsstofnanir batnaði hins vegar um 2 milljarða 739 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Ég vísa til þess, sem sagt var við framlagningu fjáraukalaga, og leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Vildi ég mega vonast til að það tækist að afgreiða ríkisreikninginn áður en þinglausnir fara fram, svo fremi að Alþ. hafi samþykkt þau fjáraukalög sem nú liggja fyrir þinginu fyrir sama ár.