28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

170. mál, Þjóðleikhús

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka það fram strax í upphafi máls míns, að ég teldi mjög ánægjulegt ef frv. þetta gæti loks orðið að lögum. Við höfum fjallað um það áður á Alþ. og aldrei tekist að afgreiða það endanlega. Ég á sæti í þeirri n., sem fær þetta til meðferðar, og er kunnug frv. frá fyrri tíð. Ég tel að ýmislegt í þessu frv. sé til bóta frá fyrri gerð þess, en tel að það hafi ekki verið gengið nógu langt til móts við óskir starfsmanna leikhússins, sérstaklega varðandi stjórn leikhússins og skipun í Þjóðleikhúsráð.

Í Ed. flutti hv. þm. Ragnar Arnalds brtt. m. a. við 5. gr., sem fjallar um þjóðleikhúsráð, og þessi brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds er í samræmi við brtt. sem ég og aðrir þm. Alþb. höfum áður flutt. Ég tel mjög miður farið að afgreiðsla málsins í Ed. skyldi hafa farið svo, að haldið yrði í algjörlega úrelt fyrirkomulag, þ. e. a. s. að miða skipun í þjóðleikhúsráð við alþingiskosningar og gefa því þann pólitíska svip sem fólk, sem fæst við listir, hefur árum saman barist gegn. Það er í samræmi við tíðaranda og í samræmi við nútímavinnubrögð, að starfsfólk við leikhúsið fái meira að segja um innri málefni þess en það hefur nú.

Ég vil einnig lýsa óánægju minni með afgreiðslu Ed. á brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds við 12. gr. Í frv er kveðið svo á að Þjóðleikhúsinu sé heimilt, eftir því sem ástæður leyfa, að ráða til starfa leikritahöfund eða aðra höfunda til þriggja eða sex mánaða. Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur tekið upp fyrri till. Alþb. um að heimildin verði gerð rýmri og að höfundur, leikritahöfundur eða tónskáld, verði ráðinn til eins árs í senn. Hvort tveggja er heimild. Í frv. er þó veikar kveðið að orði, þar sem sagt er: „eftir því sem ástæður leyfa“, en það er auðvitað ákaflega veikt. Ég er að gera þetta að umtalsefni hér vegna þess að mér virðist hv. þm. ekki gera sér alveg fyllilega ljóst, að hér getur það ráðið úrslitum fyrir leikhúsið, fyrir leikritahöfund og þá jafnframt fyrir áhorfendur, hvort þessi heimild nær til lengri tíma en aðeins sex mánaða. Ef heimildin nær til árs, þá er von til þess, að sá tími nægi höfundi til þess að skrifa verkið og fylgjast með uppfærslu. Hvort tveggja er nauðsynlegt. Þetta er ekki hægt að slíta í sundur. Þarna er því aðeins gefinn hálfur biti.

Ef menn vilja halda þeirri grósku í leikritun og leiksýningum sem nú er, þá held ég að hv. þm. verði að gera sér það ljóst, að hálfur biti getur verið verri en enginn, ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona.

Ég mun taka upp brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds í menntmn. Nd, og vona að bæði nm. og hv. þm. athugi vandlega hvað hér er um að ræða.