07.11.1977
Efri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það kom fram í lokaorðum hv. flm. áðan, að með þessum aðgerðum ætlaði hann sér að losna við vandamál framtíðarinnar. Ég held að það sé mjög vafasöm fullyrðing og sé ekki líklegt að þetta mundi verða til þess að draga úr vandamálum í framtíðinni. Ég verð að segja það, að mér finnst það eignarréttarfyrirkomulag, sem við búum við, vera aðgengilegt og eðlilegt og byggt á gömlum og sterkum grunni og við þurfum ekki að grípa til róttækra ráðstafana til að lagfæra einhverjar þær misfellur sem á því kunna að vera.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að þeir, sem aðhyllast sósíalisma, munu að sjálfsögðu vera mjög fýsandi þess að slíkt frv. sem þetta verði samþykkt. Grundvöllur undir sósíalismanum er að hafa eignarráð á landi og eignarráð á atvinnutækjum, og væri því mikill áfangasigur fyrir sósíalismann ef slík frv. sem nú eru hér til umr. yrðu samþykkt. En ég held að eitthvað sé okkur nauðsynlegra nú en að gera svo róttækar breytingar á okkar þjóðskipulagi.

Það er talað um að takmarka eignarrétt jarðhita við 100 m, við 200 m eða eitthvað meira. Ég man eftir því, að þegar ég var unglingur og gekk á reka á eignarjörð foreldra minna, þá varð ég að feta allar spýtur sem á land komu, því að ef þær voru meira en 14 fet, að mig minnir, þá voru þær eign einhverrar kirkju, en ef þær voru styttri, þá áttum við þær sjálfir. Ég held að það hafi verið 7 álnir. En ekki er ég með þessu að halda því fram, að við höfum verið óduglegri við að velta þeim upp úr fjörunni þó að þær væru kannske eitthvað meira en 7 álnir. Hins vegar voru menn almennt ekkert hrifnir af þessu. Og ég held að það fyrirkomulag sem nú er, að ríkið eigi 900 jarðir í landinu, sé alveg nægilegt magn til þess að byrja með. Ég hef ekki litið svo á að þessar jarðir væru betur setnar heldur en jarðir sem eru í einkaeign, hærri hlutfallstala þeirra mun nú vera í eyði heldur en hinna sem eru í eigu bænda.

Ég verð að segja það, að mér hefur stundum dottið í hug að þetta væri e.t.v. einn liður í þeirri stefnu flokks flm. að geta haft meiri áhrif á framleiðslu landbúnaðarafurða í þessu landi, því að þrátt fyrir allt tal um braskara sem séu að leggja jarðir í eyði, þá virðist vera svo, að landbúnaðarafurðir hafi aldrei verið framleiddar í meira magni heldur en nú, og hefur flokksbræðrum flytjanda stundum þótt nóg um. Það er því ekki annað hægt að segja en að hingað til hafi þetta gengið þolanlega vel fyrir þjóðarheildina, jarðir hafi jafnframt annað því að framleiða allt sem þarf af landbúnaðarafurðum fyrir okkur og miklu meira. Og annað er það, að jafnvel þó að jarðir séu í eyði nokkur ár, nokkurn tíma, þá er það nú svo, að þær bíða eftir nýjum ábúanda. Og samkv. gildandi lögum held ég að það séu yfirleitt ekki nein vandkvæði að fá jarðir á sanngjörnu verði, hver sem eignaraðilinn er. Hin nýju lög eiga að ganga þannig frá þessu. Hitt er svo annað mál, að þetta sífellda tal um hátt verð á jörð held ég að sé ekki sanngjarnt vegna þess að það er alveg rétt, sem kom fram í máli hv, flm., að bændur, sem standa upp af jörðum sínum, fá gjarnan ekki einu sinni andvirði einnar íbúðar þegar þeir flytja á mölina, eins og sagt var. Og það mun vera hrein undantekning ef jörð er seld á hærra verði en gott íbúðarhús í Reykjavík.

Hér er í fyrsta lagi ákvæði um að ríkið skuli hafa eignarráð á öllu landinu. Það er nú svo, að mikill meiri hluti allra landsmanna býr í þéttbýli og á þess vegna ekki mikið land, það er rétt. Hins vegar heyrum við það oft hér á Alþ., að þeir menn, sem búa hér á Faxaflóasvæðinu og víðar í þéttbýli, séu ekki afskiptir á öllum sviðum, og þykir mörgum nóg um hve miklu þeir hafi náð til sín af hlunnindum þjóðfélagsins. Ég held að það sé engin sanngirni í því, að þeir leggi nú undir sig það sem eftir er, því að þeir eru svo mikill meiri hluti þjóðarinnar, að ef landið verður allt gert að þjóðareign, þá má segja að þeir hafi náð þar öllum yfirráðum.

Ég verð að segja það líka, að mér finnst að það séu ekki rök fyrir því að taka veiðirétt í ám og vötnum undan ábúendum á jörðum, vegna þess að ég tel það fyrirkomulag, sem við búum við, hafa gefist sérlega vel, og á þeim krepputímum, sem gengið hafa yfir veiði í ám, bæði vegna mengunar og ofveiði, þá höfum við sloppið mjög vel. Ég veit ekki betur en við séum hér betur settir en víðast hvar annars staðar og ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem ekki eingöngu mengun, heldur vanræksla hefur beinlínis eyðilagt veiði í fjöldamörgum ám og vötnum. Og þótt það sé rétt, að það hafi verið gert mikið upp á síðkastið til þess að hreinsa ár og hreinsa vötn og bæta aðstöðu til veiði í þeim, þá er það svo mjög víða, að það er hægt að fá veiðirétt, en það er verra að fá veiði.

Ég verð að segja það, að ég held að það fyrirkomulag, sem við búum við í dag, hafi gefist það þolanlega að við getum þróað þetta eins og hvað annað, en þurfum ekki neinar byltingarkenndar aðgerðir til þess að geta haft þetta í sæmilega góðu lagi. Ég viðurkenni að það getur komið illa við sveitarfélög að þurfa að kaupa mikið af dýru landi til sinna nota. En sveitarfélög gera kannske of lítið að því að hagnýta sér þann rétt sem þau eiga til þess að fá 1/3 af því landi sem tekið er til skipulags og bygginga — fá það fyrir ekki neitt til sinna þarfa samkv. skipulagslögum — og væri e.t.v. hægt að breyta og hækka þetta hlutfall, ég skal ekki segja um það. En ég sé ekki að það sé alger nauðsyn að hver lóð, sem úthlutað er, sé endilega eign þess sveitarfélags, heldur eins og sums staðar hefur verið gert, að þar væru lóðir seldar og síðan væri byggt á þeim. Það er svo alveg rétt, að á tiltölulega fáum stöðum hefur það reynst sveitarfélögum mjög erfitt að ráða við þetta fjárhagslega. Ég sé hins vegar ekki að ríki eða sveitarfélög séu í stakk búin til þess að kaupa upp landið.