28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4189 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Hæstv. forseti. Á mörgum undanförnum þingum hefur þingflokkur Alþfl. flutt till. um gagngerar breytingar á skattkerfi Íslendinga. Hann hefur bent á það, að þau skattalög, sem sett voru 1972 og hafa verið í framkvæmd til þessa dags, hafa verið og séu mjög ranglát, hafi fyrst og fremst í raun og veru jafngilt því, að ríkissjóður tæki tekjuskattinn fyrst og fremst af launamönnum, en í reynd hefur atvinnurekstur sloppið ótrúlega undan greiðslu tekjuskatts til ríkissjóðs. Það er gegn þessum annmörkum á gildandi kerfi sem till. Alþfl. á mörgum undanförnum þingum hafa beinst.

Nú þegar loksins í lok fjögurra ára kjörtímabils virðist vera ætlun hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að ný skattalög verði sett, og líkur virðast vera á, að þær breytingar nái fram að ganga, sem ég út af fyrir sig fagna og styð í grundvallaratriðum, þá er sannarlega ekki ástæðulaust að athuga, hvað hefur falist í till, þingflokks Alþfl. á undanförnum þingum, og bera það saman við ýmis grundvallaratriði þeirra nýju skattalaga sem nú má gera ráð fyrir að verði sett af hinu háa Alþ. í lok kjörtímabilsins. Ég endurtek: Eftir að undan því hefur verið vikist í 4 ár að efna skýlaust ákvæði stjórnarsáttmála um setningu nýrra laga um tekjuskatt og eignarskatt og eftir að annar núv. stjórnarflokkur hafði áður í 3 ár gagnrýnt gildandi skattalög mjög harðlega ásamt Alþfl.

En það liðna að þessu leyti má gjarnan vera gleymt af minni hálfu þegar loksins sér til þess að sett verði skattalög sem eru mun réttlátari og skynsamlegri heldur en þau sem gilt hafa síðan 1962. En þitt tel ég gagnlegt og raunar nauðsynlegt vegna allrar sögu málsins, að rekja það, hverjar hafa verið till. þingflokks Alþfl. á undanförnum þingum, og athuga, hvað af þeim kynni að hafa komist inn í till. hæstv. ríkisstj. Það er nefnilega meira en men skyldu halda að óathuguðu máli.

Við fluttum á síðasta þingi í byrjun eða fljótlega á síðasta þingi till. til þál. um afnám tekjuskatts af launatekjum. Hún var í 10 liðum. Sumpart var um endurtekningu á fyrri till. að ræða, sumpart um nýjar hugmyndir, og skal ég láta þess getið, um leið og ég rek þennan tillöguflutning sem er rúmlega árs gamall. Tillagan var flutt áður en hæstv. ríkisstj. flutti skattalagafrv. sitt á s. l. ári, það skattalagafrv., sem ekki hlaut afgreiðslu þá, sem betur fer, vegna ágreinings innan stjórnarflokkann um afgreiðslu málsins, en ekki vegna þess að stjórnarandstaðan legði stein í götu afgreiðslu þess.

Fyrsti liðurinn í skattatillögu Alþfl. frá því í fyrra hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Greint skal milli þess, hvort skattgreiðandi er launþegi eða hefur tekjur af atvinnurekstri hvort sem atvinnureksturinn er stundaður af einstaklingum, sameignarfélögum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða opinberum aðilum.”

Þetta er endurflutningur á hugmynd sem Alþfl. flutti inn á Alþ. fyrstur flokka. Því hafði aldrei verið hreyft áður á Alþ., þegar Alþfl. hafði það í einu sínum fyrstu tekjuskattstillögum, að greina skuli milli þess, hvort skattgreiðandi sé launþegi eða hefur tekjur af atvinnurekstri, hvort sem atvinnureksturinn er stundaður af einstaklingum, sameignarfélögum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða opinberum aðilum. Þessari hugmynd að láta atvinnurekanda greiða tekjuskatt af áætluðum tekjum, samsvarandi tekjum og gera mætti ráð fyrir að annar maður í svipaðri stöðu ynni sér fyrir, þó fyrirtæki hans væri rekið með tapi, — þessari hugmynd var fyrst hreyft af þingflokki Alþfl. hér á hinu háa Alþingi. Þessi hugmynd komst inn í frv. ríkisstj. á sl. l. ári, en hún olli stórkostlegum deilum í stjórnarflokknum og var ein af mörgum ástæðum þess, — það vitum við vel sem eigum sæti í fjh.- og viðskn. beggja þd., — var ein af ástæðum þess, að frv. í fyrra náði ekki fram að ganga. En sem betur fer er ákvæði um þetta í þessu frv. nú, og nú virðist stjórnin, ég segi enn : sem betur fer, — það er ekki svo oft sem maður getur sagt: sem betur fer, þegar maður ber sér ríkisstj. í munn, — en sem betur fer er þetta ákvæði í þessu tekjuskattsfrv. líka. En ég vek athygli á því, að það erum við í þingflokki Alþfl. sem fyrst vöktum máls á þessari hugmynd. Þá var henni ekki aðeins mótmælt, heldur um hana farið hæðnisorðum og væri lítill vandi að lesa þau upp þeim til lítils sóma sem þau viðhöfðu. En það fer sem betur fer oft þannig, að réttur málstaður og góður sigrar, og það hefur átt sér stað í þessu tilfelli. Og það er ástæða til að færa ríkisstj. serstakar þakkir fyrir að hún skuli hafa gert þessa hugmynd þingflokks Alþfl. — þessa 5 ára gömlu hugmynd þingflokks Alþfl. að sinni hugmynd, og ég vona að þetta ákvæði er langt frá því að vera óumdeilanlegt. En það hefur alla tíð verið skoðun okkar þm. Alþfl., að hér væri um miklar endurbætur að ræða, hér væri ýmsum aðilum, sem eyða miklu fé og búa við góð lífskjör, gert að greiða sinn hluta af skattbyrði þjóðfélagsins, en komast ekki undan því í skjóli þess, að fyrirtæki þeirra er gert upp með tapi. Þetta var raunar skýrt nánar í 2. lið með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Við ákvörðun á skattskyldum tekjum einstaklinga af eigin atvinnurekstri skulu laun hans áætluð eins og telja má eðlilegt miðað við vinnuframlag hans í þágu fyrirtækisins sem og stöðu hans og vera hliðstæð tekjum fyrir samskonar störf í atvinnurekstri.”

Þetta er nákvæmlega sama efnisinnihald og er í hliðstæðum ákvæðum frv. í fyrra og þessa frv., sem nú má vænta að verði að lögum.

Þá segir í 3. lið, með leyfi hæstv. forseta, — ég vona að ég fái leyfi einu sinni fyrir allt til þess að mega vitna í þessa till. okkar:

„Af atvinnurekstri, hvort sem hann er stundaður af einstaklingum, sameignarfélögum, hlutafélögum eða opinberum aðilum, skal greiddur stighækkandi tekjuskattur.”

Til þessa hefur hæstv. ríkisstj. ekki tekið tillit. Það er ekki gert ráð fyrir stighækkandi tekjuskatti af félögum.

Í 4. lið till, okkar segir:

„Reglur um afskriftir eigna skulu við það miðaðar, að afskriftirnar svari til eðlilegrar verðmætarýrnunar miðað við verðmæti eignarinnar þegar afskrift fer fram. En að jafnaði sé miðað við mat á upphaflegum endingartíma eignarinnar, þ. e. að kaupandi eignar afskrifi hana með sama hætti og seljandi hennar hefði orðið að gera, þannig að sama eign verði aldrei afskrifuð oftar en einu sinni.“

Hér er í öllum grundvallaratriðum um að ræða sömu hugsun og felst í ákvæðum þessa frv. um afskriftir og söluhagnað af eignum. Þegar við settum þessar hugmyndir fram fyrst á sínum tíma var þeim ekki ansað. Það hefur ekki heldur náð eyrum hæstv. fjmrh. eða embættismanna hans í fyrra, vegna þess að þær afskriftarreglur og söluhagnaðarreglur, sem voru í frv. í fyrra, voru ekki byggðar á þeim hugsunarhætti sem lýst er í þessum 4. lið till. okkar frá því í fyrra sem ég var að enda við að lesa. En grundvallarhugmyndin í ákvæðum frv, núna um afskriftir og söluhagnað er hin sama í frv. og lýst var í 4. lið till. þingflokks Alþfl. frá því í fyrrahaust.

Við sögðum í 5. lið:

„Reglur um heimild til þess að draga vexti af skuldum frá tekjum verði við það miðaðar, að um hafi verið að ræða nauðsynlega lánsfjáröflun í þágu atvinnurekstrarins.“

Það er ekki tekið að fullu tillit til hugsunarinnar sem í þessum 5. lið felst. En sumpart er það þó gert í bráðabirgðaákvæðum frv., þar sem gert er ráð fyrir sérstökum verðjöfnunarsjóðum sem lúta þar sérstökum reglum. Að hluta til er því um sömu hugsun að ræða. Og það er mikil endurbót á núv. frv. miðað við frv. í fyrra. Við sögðum í 6. lið:

„Hagnaður af sölu eigna verði skattlagður að svo miklu leyti sem hann á ekki rót sína að rekja til rýrnunar á verðgildi peninga.“

Til þessa sjónarmiðs var ekki tekið tillit í fyrra, en það er í grundvallaratriðum í frv. núna. Þetta er einn af meginkostum frv. núna miðað við frv. í fyrra. En þessi hugmynd er eldri. Hún er orðin 5 ára gömul í till. þingflokks Alþfl.

7. liðurinn lýtur að ákvæðum um framtal, og ég geri það ekki frekar að umtalsefni.

8. liðurinn er um endurskoðun á útlánakerfi ríkisins.

En svo kemur 9, liðurinn og hann fjallar um sérsköttun hjóna. Við höfum hreyft því í þingflokki Alþfl. í mörg ár, að nauðsynlegt væri að taka upp sérsköttun hjóna. Við höfum í mörg ár talað fyrir daufum eyrum. Meira að segja í fyrra var ríkisstj. ekki á þeim buxunum að stinga upp á sérsköttun hjóna. Samt sem áður var ríkisstj. komin það langt í áttina að réttlæti í þessu efni — ég ætti kannske heldur að segja það langt frá ríkjandi og gömlu ranglæti í þessu efni — að hún lagði til sérstaka reglu um skattgreiðslu hjóna, þ. e. a. s., eins og allir hv. þm. muna, helmingaskiptaregluna, það skyldi skipta tekjum hjóna til helminga. Það höldum við og teljum enn vera mjög ranglátt. Við lögðum fram brtt. við tekjuskattsfrv. í fyrra sem ekki hlaut afgreiðslu frekar en frv. sjálft, en hún hljóðaði þannig, enn með leyfi hæstv. forseta:

„Hjón eru hvort um sig sjálfstæðir skattaðilar og skal þeim reiknaður tekju- og eignarskattur hvort í sínu lagi. Launatekjur og tekjur af séreign hvors hjóna skulu skattlagðar: hjá því hjóna sem þeirra aflar. Tekjur hjóna af hjúskapareign og aðrar sameiginlegar tekjur skulu skattlagðar hjá því hjóna sem hærri sértekjur hefur. Sá hluti persónuafsláttar annars hjóna, sem enn er óráðstafað, skal notaður til hækkunar á skatti hins hjóna eða til greiðslu útsvars fyrir það skattárið. Sá hluti persónuafsláttar, sem það á enn óráðstafað, fellur niður.“

Hér er um að ræða nákvæmlega sams konar ákvæði og er í þessu frv. Þetta vildi hæstv. ríkisstj. í fyrra ekki fallast á, meðan það var 5 ára gömul tillaga Alþfl., og auðvitað ekki þegar henni var hreyft fyrst, látum það vera, ekki enn í fyrra. Þá hélt hæstv. ríkisstj. sig enn við helmingaskiptaregluna og tók ekki undir þessa till. En síðan í fyrra hefur hún tekið þeim framförum, að nú flytur hún, nú er í frv. grein um sérsköttun hjóna sem er að efni til alveg eins, bókstaflega alveg eins og brtt. sem við fluttum við frv. í fyrra. Það er því enginn vafi á því, hvaða aðili það er sem leitt hefur hæstv, ríkisstj. í allan sannleika varðandi skattamál hjóna, að það er þingflokkur Alþfl. (Gripið fram í: Batnandi manni er best að lifa.) Það er alveg rétt hjá fjmrh., að batnandi mönnum er best að lifa og honum mætti gjarnan batna enn.

Ég læt þetta nægja til þess, að það sé svart á hvítu, til að það komi alveg skýrt fram, að það helsta, sem er til bóta í þessu frv., eru sömu atriðin og Alþfl. hefur vakið máls á hér þing eftir þing, síðast fyrir áramót á s. l. þingi. Ég segi þetta hæstv. fjmrh, til hróss, að hann skuli þó hafa tileinkað sér þau sjónarmið sem við í þingflokki Alþfl. höfum verið talsmenn fyrir á undanförnum árum. Og þetta er auðvitað meginástæðan til þess, að þegar við í þingflokki Alþfl. sáum frv., lýstum við því yfir, að við mundum stuðla að því, að það næði fram að ganga. Við létum hjá líða við 1. umr. að rekja það, hvernig á því stæði, en þegar við fyrsta lestur varð mér það ljóst, að margt í þessu frv., flestar breytingarnar frá því fyrra, mætti í raun og veru rekja til þeirra hugmynda um skattamál sem við í þingflokki Alþfl. höfum verið að setja fram á undanförnum þingum.

Það, sem finna má þessu frv. enn fyrst og fremst til foráttu, þó margt sé í því til bóta, er að það gengur ekki til móts við eina grundvallarhugmynd okkar í þingflokki Alþfl. á undanförnum árum, þá hugmynd að lækka mjög verulega tekjuskatt á einstaklingum, en til þess ber brýna nauðsyn. Það var eitt af meginatriðum í efnahagsáætlun viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu þegar hún tók við völdum í árslok 1959, að lækka stórlega tekjuskatt á einstaklingum og gera í reynd venjulegar launatekjur tekjuskattsfrjálsar. Síðar, þegar leið á áratuginn, seig mjög á hina verri hlið í þessum efnum og tekjuskattur á launafólki fór sífellt hækkandi í hlutfalli við skatt á atvinnurekstri, og þetta keyrir um þverbak eftir lagasetninguna 1972, þannig að áberandi ósamræmi hefur verið í skattbyrði einstaklinga annars vegar og atvinnurekstrar hins vegar á undanförnum 6 árum. Það hefur verið svo margrakið, að ég eyði ekki tíma hv. d. í að benda á þær staðreyndir enn. En það, sem við þm. Alþfl. höfum fyrst og fremst við þetta frv. að athuga, er að enn er haldið óhæfilega þungri skattbyrði á launamönnum, meira að segja á lágtekjufólki, og við viljum freista þess að fá breytingar á þessu. Þess vegna hef ég fyrir hönd þingflokks Alþfl. flutt sérstakar brtt. í þessa átt á þskj. 788, þ. e. sérstakar brtt, í þá átt að lækka tekjuskatt á almennum launatekjum og þó fyrst og fremst á lágum launum. Till. okkar um þetta efni eru þær, að gert er ráð fyrir því, að frá útreiknuðum tekjuskatti, en ekki útsvari, skuli draga sérstakan viðauka við persónufrádrátt sem nemi 50 þús. kr. hjá hverjum manni, en hann geti færst milli hjóna. Og þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að 10% frádráttarheimildin í 30. gr., sem menn eiga kost á í stað þess að draga frá tiltekna frádráttarliði, — þessi frádráttarheimild hækki úr 10% í 12%. Þessi breyting leiðir til þess, að mun fleiri gjaldendum verður hagstætt að nota heimildina til fasts frádráttar, og þar með ætti að sparast vinna við framtalsgerð hjá fjölda gjaldenda, bað, sem um er að ræða, er að í stað þess að tíunda lífeyrissjóðsgjöld, stéttarfélagsgjöld, vaxtagjöld, sem hafa langmesta þýðingu, og gjafir til menningarmála, þá eigi menn þess kost að draga samkv. till. hæstv. ríkisstj. 10% af tekjum sínum frá, en við leggjum til að sú hlutfallstala verði hækkuð upp í 12%. Þessi hækkun mundi eflaust valda því, að miklu fleiri gjaldendur en ella notuðu þessa heimild, og eins og ég sagði áðan, ætti að spara vinnu við framtalsgerð hjá fjölda framteljenda og jafnframt auðvelda skattstofum yfirferð framtala. Með henni ætti enn fremur að nást aukin nákvæmni í staðgreiðslu opinberra gjalda þegar staðgreiðslukerfið kemur til framkvæmda, auk þess að horfa þannig til einföldunar. Leiðir það einnig til réttlátari dreifingar á skattbyrðinni, vegna þess að frádrátturinn kemur þeim að auknum notum sem hafa ekki notið verulegs frádráttar vegna vaxtagjalda — og þetta skiptir meginmáli — t. d. þeim sem búa í leiguhúsnæði og hafa þess vegna engan vaxtafrádrátt. Hér er hækkun úr 10% upp í 12%. Með þeirri hækkun er komið verulega til móts við þær ábendingar af hálfu leigjenda, að þeim sé íþyngt með gildandi kerfi miðað við íbúðareigendur.

Nú er eðlilegt að sú spurning vakni: Hvaða áhrif mundu þessar brtt. hafa, ef samþykktar yrðu, þessar tvær, annars vegar 50 þús. kr. viðbótin við persónuafsláttinn og svo hækkun fastafrádráttarins úr 10% í 12% hins vegar? Skal ég nú leyfa mér að gera grein fyrir því ítarlega, en þó á grundvelli einfaldra dæma.

Þetta mundi hafa þau áhrif á einstaklinga, að skattfrelsismörk einhleypinga mundu hækka úr 1 millj. 550 þús. kr. í 1 millj. 870 þús. kr., og þessar tölur eiga einnig við um hjón. M. ö. o.: skattskyldar lágmarkstekjur hækka frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, úr 1 millj. 550 þús. kr. í í millj. 870 þús. kr., bæði hjá einstaklingum og hjónum. Þetta lýtur eingöngu að hækkun skattfrelsismarkanna. En hvaða áhrif mundi þetta hafa á einstaklinga og hjón sem greiða skatt? Tökum einhleypingana fyrst.

Einhleypingur er skattfrjáls samkv. ákvæðum frv. ef hann hefur 1 millj. 542 þús. kr. í tekjur nákvæmlega. En ef brtt. yrðu samþykktar, þá yrði hann skattfrjáls með 1 millj. 893 þús. kr. tekjur, en þá ætti hann að greiða samkv. frv. 57 þús. kr. í tekjuskatt. M. ö. o.: einstaklingur, sem hefur 1 millj. 893 þús. kr. tekjur, á samkv. frv. að greiða 57 þús. kr. í tekjuskatt, en samkv. brtt, sparar hann þessar 57 þús. kr., þ, e. a. s. skattgreiðsla hans fellur niður.

Hjón, þar sem aðeins annað aflar tekna, eru skattfrjáls samkv. ákvæðum frv. við 2 millj. 820 þú s. kr. tekjur, en yrðu skattfrjáls við 3 millj. 322 þús. kr. tekjur samkv. till., en þá ættu þau að greiða samkv. frv. 117 þús. kr. í tekjuskatt. Ég endurtek: Hjón með 3 millj. 322 þús. kr. tekjur ættu samkv. frv. að greiða 117 þús. kr. í tekjuskatt, en yrðu skattlaus samkv. tillögunni.

Einhleypingi, sem hefur 2.5 millj. kr. í tekjur, ber að greiða samkv. frv. 175 þús. kr. í tekjuskatt. Samkv. brtt. mundi tekjuskattur hans vera 112 þús. kr. Lækkun einhleypings með 2.5 millj. kr. í tekjur nemur þannig 63 þús. kr.

Ef menn spyrja hve slíkir einstaklingar séu margir, sem hafa 2.5 millj. kr. í tekjur — þetta er allt miðað við verðlag ársins í ár, þá eru þeir um 10 þús. að tölu. Þessi lækkunartillaga varðandi einhleypinga með 2.5 millj. kr. í tekjur mundi taka til 10 þús. einhleypinga.

Hjón, þar sem aðeins annað hjóna aflar 3.5 millj. kr. tekna, en hitt engra tekna, greiða samkv. frv. 159 þús. kr. í tekjuskatt, en samkv. brtt. 41 þús. kr. Lækkunin er 118 þús. kr. hjá hjónum með 3.5 millj. kr. tekjur, þar sem annað hjónanna aflar teknanna. Þetta dæmi er mjög nálægt meðaltali áætlaðra tekna slíkra hjóna, þar sem annað aflar allra teknanna, á árinu 1978. Skattlækkun slíkra hjóna með 3.5 millj. kr. tekjur yrði 118 þús. kr.

Ef menn spyrja: Hvað eru þetta mörg hjón, sem hafa 3.5 millj. kr. tekjur sem annað hjónanna aflar? — þá er ekki um að ræða nema um 3000 hjón. Um 3000 hjón með 3.5 millj. kr. tekjur, sem annað hjónanna aflar, mundu njóta 118 þús. kr. skattlækkunar samkv. þessum tillögum.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að það er algengt að bæði hjónin afli teknauna, og þá er langalgengast að annað hjónanna afli um 3/4 hluta teknanna. Þetta sýnir athugun á skattframtölum að er algengast, og það er algengast að slík hjón hafi 4 millj. kr. í tekjur, þar sem annar aðilinn aflar 3 millj. og hinn aðilinn aflar einnar millj. Þetta dæmi er mjög nálægt meðaltali áætlaðra tekna slíkra hjóna á árinu 1978. Hvernig færi með skattgreiðslu þessara hjóna? Samkv. frv. ættu þau að greiða 263 þús. kr. í tekjuskatt, samkv. till. 144 þús. Lækkun á þessum stóra hópi hjóna nemur 119 þús. kr. Og ef menn spyrja hvað slík hjón séu mörg, þá kemur í ljós að þau eru 6000. Það eru m. ö. o. helmingi fleiri hjón, þar sem bæði afla teknanna, heldur en þar sem aðeins annað aflar teknanna. Hjónin þar sem annað aflar teknanna eru um 3000, hjónin þar sem bæði afla teknanna eru um 4000, og hlutfallið er þannig, að tekjurnar eru samtals 4 millj. og algengast að annað afli 3 millj. og hitt afli einnar millj.

Þetta eru áhrif 50 þú s. kr. aukningar persónuafsláttarins sem gert er ráð fyrir í tillögunum.

Ef við nú athugum hver áhrif hækkun 10% frádráttarins í 12% hefur, þá er hlutfallslegur fjöldi þeirra, sem hefðu fremur hag af föstum frádrætti, fastri prósentu, en sundurliðuðum frádrætti, þannig: Samkv. frv. er hlutfallslegur fjöldi hjóna, sem hagnast á þessu, 65%. Við hækkunina má gera ráð fyrir að þetta hlutfall ankist í 73%, það mundu verða 73% hjóna sem högnuðust á föstum hlutfallslegum frádrætti miðað við það að draga frá vextina, stéttarfélagsgjöldin og þetta sem ég nefndi áðan.

Varðandi einstaklinga er talið að 94% einstaklinga hefðu hag af því að nota 10%-regluna miðað við fasta frádráttinn. Þetta hlutfall eykst upp í 93% ef frádrátturinn er aukinn upp í 12%.

Ef skoðaðir eru sérstaklega einstæðir foreldrar, sem er hópur sem þessi regla er mikil hagsbót fyrir, þá má samkv. frv. gera ráð fyrir að um 75% einstæðra foreldra hafi hag af 14% frádrættinum miðað við einstöku frádráttarliðina. Ef frádráttur er hækkaður upp í 12%, þá hækkar þessi hlutfallstala upp í 80% af einstæðum foreldrum. Og ef teknir eru allir framteljendur, þá má telja að um 75% framteljenda mundu nota sér 10% frádráttarheimild frv. En verði hún hækkuð upp í 12%, er talið að um 80% framteljenda mundu nota sér þá reglu frekar en vaxtafrádráttarregluna. Hér er nefnilega um að ræða mjög mikilvægan aðstöðujöfnuð milli þeirra, sem hagnast á frádráttarliðunum, annars vegar og almennra launþega hins vegar. Einnig ber að leggja á það sérstaka áherslu, eins og ég gerði áðan, að þetta jafnar aðstöðu leigjenda og íbúðareigenda, auk þess sem það er mikil einföldun á skattkerfinu í heild.

Það fer því ekki á milli mála, að launafólki yrði mikil hagsbót að því, ef þessar brtt., sem ég flyt á þskj. 788, yrðu samþykktar, enda gefur það auga leið, ef höfð er hliðsjón af þeim dæmum um skattlækkun á algengum launamannahópum sem ég gat um áðan. En þá er eðlilegt, fullkomlega eðlilegt, að menn spyrji: Er þetta hægt? Er það framkvæmanlegt? Hvað kostar þetta? Á því hef ég gert rækilega athugun og niðurstaðan er sú, að samþykkt þessara brtt. mundi lækka tekjur ríkissjóðs um 5.5 milljarða. En til þess að menn geri sér grein fyrir því, hvað 5.5 milljarðar raunverulega eru nú á dögum, þá ber að hafa það í huga, að fjárlög líðandi árs eru 140 milljarðar kr. Hér er m. ö. o. um það að ræða, að ríkið afsali sér 3.5–4% af tekjum sínum. Þá vaknar auðvitað spurningin: Getur það það? Getur ríkið misst af 3.5% eða 4% af tekjum sínum?

Áður en ég svara þessu í einstökum atriðum eða áður en ég geri grein fyrir því, að það er skoðun mín, að þetta sé hægt ef vilji er fyrir hendi, þá leyfi ég mér að minna á þær till. eða þá valkosti sem Þjóðhagsstofnun lagði fyrir verðbólgunefndina svokölluðu nú fyrir skömmu, fyrir fáeinum mánuðum, í febrúar þessa árs, í febrúar 1978. Það hefur áður verið rætt hér á Alþ., að Þjóðhagsstofnunin lagði fyrir verðbólgunefndina fimm valkosti til þess að velja á milli. Af þessum valkostum, eftir að þeim till. hafði verið hafnað sem við stóðum að, fulltrúar Alþfl., Alþb., Samtakanna og Alþýðusambandsins, í verðbólgunefndinni, taldi ég dæmi 2, svo sem er kallað, valkost 2, vera aðgengilegastan og skynsamlegastan frá öllum sjónarmiðum, og enginn vafi getur talist á því, að Þjóðhagsstofnunin hefði ekki sett þennan valkost frekar en aðra ef hún hefði talið hann vera óframkvæmanlegan. En einmitt í valkosti 2 var gert ráð fyrir 5 milljarða lækkun á fjárl., þ. e. á framkvæmdum samkv. fjárl. og framkvæmdum samkv. lánsfjáráætlun. M. ö. o.: það liggur fyrir í ekki tveggja mánaða gömlu plaggi yfirlýsing um það frá Þjóðhagsstofnuninni, að það sé hægt að lækka fjárlög þessa árs um 5 milljarða kr. Með hliðsjón af þessu, — ég bendi á það sem dæmi, — getur nokkur leyft sér að segja að það sé goðgá eða ábyrgðarleysi að nefna þann möguleika í sambandi við afgreiðslu á tekjuskattsfrv., að hægt sé að lækka 140 milljarða útgjöld um 5.5 milljarða, þegar Þjóðhagsstofnunin sjálf hefur talið að hægt væri og jafnvel nauðsynlegt að lækka framkvæmdaútgjöld ríkisins um 5 milljarða.

Í valkosti 3, dæmi 3, var gert ráð fyrir eins milljarðs lækkun á fjárfestingarútgjöldum ríkisins. Í dæmi 4 var gert ráð fyrir 3 milljarða lækkun á útgjöldum ríkisins. Í dæmi 5 var gert ráð fyrir 2 milljarða lækkun á útgjöldum ríkisins. Það var aðeins í fyrsta valkostinum, sem enginn tók undir og í raun og veru var ekki í alvörn mælt með af Þjóðhagsstofnuninni, að ekki var gert ráð fyrir neinni lækkun á útgjöldum ríkisins, enda var þar um að ræða sérstaka kosti sem í raun og veru voru aldrei sérstaklega ræddir. En í valkostum nr. 2, 3, 4 og 5 var alls staðar gert ráð fyrir mjög verulegum niðurskurði á framkvæmdum ríkisins, frá 1 milljarði og upp í 6 milljarða.

Fulltrúar stjórnarflokkanna í ríkisstj, mæltu með dæmi 5, með valkosti 5. Þeir mæltu með því fyrir tveim mánuðum, að hann skyldi valinn, og þar er gert ráð fyrir 2 milljarða lækkun á framkvæmdafé ríkissjóðs. Sjálfir stjórnarflokkarnir, fulltrúar þeirra, mætir menn í verðbólgunefndinni, töldu þá fært að lækka framkvæmdafé ríkisins um 2 milljarða. Ég nefni þetta aðeins sem varnaðarorð til þeirra sem kynnu að taka upp á því síðar í þessum umr. að segja að till. Alþfl. um 5.5 milljarða lækkun á fjárl. miðað við núgildandi verðlag sé einhver fjarstæða. Það er ekki hægt að kalla slíkt fjarstæðu, miðað við þær till. sem Þjóðhagsstofnun setti fram í verðbólgunefndinni og miðað við afstöðu sem fulltrúar sjálfra stjórnarflokkanna studdu þá.

Þegar það er haft í huga, að fjárfestingarútgjöld ríkisins, miðað við verðlag ársins í ár, eru 35–40 milljarðar kr., og þegar það er haft í huga, að bein rekstrarútgjöld ríkisins eru 15–20 milljarðar kr., þá sést glögglega um hvaða stærðargráðu hér er að ræða. Þó að fjárfestingarútgjöld ríkisins væru ekki lækkuð nema um 10%, bara um 10%, svo að maður taki meðaltal, þá sparar það um 3.5–4 milljarða. Og þó að rekstrarútgjöld ríkisins væru ekki lækkuð nema um 10%, þá spöruðust við það 1.5–2 milljarðar. M. ö, o.: með því að lækka fjárfestingarútgjöldin í heild og rekstrarútgjöldin í heild um aðeins 10% fengjust 5–6 milljarðar, einmitt sú tala sem útreikningar sýna að er nauðsynleg til þess að geta komið fram þeirri stórkostlegu lækkun og réttmætu lækkun á tekjuskattsgreiðslum launþega, einhleypinga og hjóna, sem hér er gerð till. um.

Auðvitað kostar öll útgjaldalækkun hjá ríkinu átök og auðvitað kemur það einhvers staðar niður, það er augljóst mál. Það er ekki hægt að minnka framkvæmdir án þess að einhver sakni þeirra framkvæmda sem lagðar eru niður. Og það er ekki hægt að spara í rekstrarútgjöldum nema því aðeins að það komi við einhverja skrifstofuna, einhvern skrifstofustjórann, einhvern forstjórann, sem verður að sætta sig við það að hafa minna fé að eyða í rekstur sinn heldur en hann hefði ella haft. En ef við berum þennan sársauka, ef ég má nota það orð, þennan sársauka þeirra, sem verða fyrir lækkun á framkvæmdafé um 10%, og forstjóranna og skrifstofustjóranna, sem verða að draga saman rekstrarkostnað stofnana sinna um 10%, — ef við berum þann sársauka, sem þetta veldur, saman við réttlætið sem felst í því að lækka tekjuskattinn hjá einhleypingum og hjónum um þær upphæðir sem ég nefndi áðan, þá ættu menn ekki að vera í vafa um hvort ætti að gera. Ég sagði áðan að 10 þús. einstaklingar mundu njóta skattalækkunar samkv. till., að 3000 hjón með 3.5 millj. kr. tekjur mundu njóta góðs af till. og að 6000 hjón með 4 millj. kr. tekjur mundu njóta góðs af þeim. Ef við berum saman hagsmuni þessara 19 þús. skattgreiðenda, sem mundu njóta góðs af þessu, berum hagræði þeirra, réttlætiskröfu þeirra til þess að vera ekki íþyngt með óhóflegum tekjusköttum, saman við þann sársauka sem þeir mundu verða fyrir sem verða að sætta sig við 10% lækkun á framkvæmdum og 10% niðurskurð á rekstrarfé, þá hygg ég, ef menn þora að hugsa upphátt, að ekki sé mikill vafi á því, hver orðun þeirrar hugsunar yrði.

Nú er það að vísu svo, að hér nefni ég meðaltalstölur, og það er auðvitað engan veginn rétt, að þó að hægt væri að skera fjárfestingar að meðaltali niður um 10%, þá ætti að gera það.

Fjárfestingarliðirnir eru mjög ólíkir og þola mjög misjafnan niðurskurð og að sjálfsögðu ætti að hafa hliðsjón af því. Sama er um stofnanirnar. Sumar eru vel reknar og gætu eflaust ekki framkvæmt 10% niðurskurð á sínum rekstrarkostnaði. Í öðrum er sukk — vitanlega og viðurkennt sukk, þar sem ætti að láta stofnanirnar draga saman um miklu meira en 10% , 20%, 25%.

Að því er varðar framkvæmdaféð vil ég vekja alveg sérstaka athygli á því, að fjárveitingar til opinberra framkvæmda og framlög til fjárfestingarsjóða, sem hafa farið mjög vaxandi á allra síðustu árum og hæpið er að ríkissjóður og skatthorgarar eigi að leggja fé til með þeim hætti, sem nú á sér stað, þ. e. a. s. með beinum fjárveitingum á fjárl., beinni skattheimtu á sama ári, — þessar fjárveitingar nema nú milli 25 og 30 milljarða kr. Það er búið að koma inn á sjálf fjárl, framkvæmdafé sem í raun og veru ætti samkv. öllum eðlilegum efnahagslögmálum að fjármagna með lánum. En vegna þess hve lánstraustið hefur verið hagnýtt út í æsar hefur verið farið inn á þá leið að leggja skatt á skattborgarana, tekjuskatt og söluskatt og aðra skatta til þess að afla fjár. Það er ekki heilbrigð efnahagsstefna, það er ekki heilbrigð fjármálastefna að fjármagna lán, lánveitingar til langs tíma, með tekjuöflun á fjárl. Það er að leggja óeðlilega þunga byrði á samtímann, á nútímann, á þá einstaklinga og félög, sem nú greiða skatt sem framtiðin á að njóta góðs af. Í þessum efnum höfum við farið út á mjög háskalegar brautir, og það er kominn tími til þess að hverfa af þessum röngu brautum. Þessar fjárveitingar mætti skera niður um miklu meira en 10%. Ég hika ekki við að nefna 15–20%, sem mundi auðvitað geta þýtt það, að hægt væri að halda óbreyttum fjárveitingum til margra annarra framkvæmda, t. d. vega, svo að ég nefni eitt dæmi.

Ég segi það því með fyllsta þunga, að það er engin goðgá að ræða í alvöru um lækkun á 140 milljarða kr. fjárl. um 5.5 milljarða, miðað við verðlag núgildandi árs. Það er hægt að gera þetta ef vilji er fyrir hendi, og þeir mörgu skattgreiðendur, sem nú eiga að greiða tiltölulega háan tekjuskatt til ríkisins af tekjum sínum, en við leggjum til að tekjuskattur sé lækkaður á, þeir munu taka eftir því, hvort vilji er fyrir því, að ríkissjóður dragi saman seglin sem svara 5.5 milljörðum til þess að geta dregið úr ranglæti sem felst í núgildandi skattheimtu á þessa tekjuaðila.

Ég skal ljúka máli mínu með því að leggja áherslu á að hér er ekki um neinar óraunhæfar till. að ræða. Hér er ekki um neins konar yfirboð að ræða gagnvart till. ríkisstj. að ræða. Hér er um að ræða raunhæfar till. sem eru framkvæmanlegar ef vilji er fyrir hendi, og eftir því mun verða tekið, hverja athugun þessar till. fá hjá hæstv. ríkisstj. og þeim n. sem áfram munu eflaust fjalla um þetta mál. Það hefur verið of algengt undanfarið og er raunar enn, að í slíkum málum sem þessum sé varpað fram óraunsæjum yfirboðstillögum, tillögum sem þýða tekjumissi fyrir ríkissjóð, án þess að sinna því nokkurn skapaðan hlut, hvernig bæta eigi upp tekjumegin. Þannig högum við þm. Alþfl. ekki tillöguflutningi okkar. Við gerum till. um lækkun á tekjuskatti hjá hópum launþega sem eiga skilið, sem eiga í raun og veru nánast kröfu á því, að tekjuskattur þeirra sé lækkaður. Við reiknum út nákvæmlega hvað þetta mundi þýða mikla tekjulækkun fyrir ríkissjóð, og við teljum okkur í aðalatriðum benda á hvernig hægt væri að gera þetta ef vilji væri fyrir hendi. Og að sjálfsögðu erum við reiðubúnir til þess að taka þátt í starfi sem miðaði að því að leiða í ljós hvernig hægt væri að ná fram 5.5 milljarða kr. sparnaði með útgjaldalækkun á 140 milljarða kr. fjárl. Við lýsum okkur reiðubúna til að taka þátt í ítarlegri og alvarlegri vinnu að þessum efnum og mundum þá í einstökum atriðum sýna fram á hvernig við teldum þetta vera hægt. En það er auðvitað ekki ástæða til að fara lengra út í einstök atriði í þessum efnum ef hugmyndin sjálf fær engan hljómgrunn hjá hæstv. ríkisstj. Um leið og gefið er í skyn, að grundvallarhugmyndin sem hér er um að ræða, lækkun tekjuskatts á almennum launþegum með því móti að draga úr fjárfestingarútgjöldum og auka sparnað í rekstri ríkisins, — um leið og því yrði lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að hún sé reiðubúin til viðræðna um þessa athugun, þá munum við taka þátt í henni og sýna fram á það í einstökum atriðum, hvernig við teljum að þetta muni vera framkvæmanlegt.

Ég lýk máli mínu með því að benda á, að ég held að hæstv. ríkisstj. ætti að taka þessar till. alvarlega. Hún hefði satt að segja betur fyrr tekið alvarlegar hugmyndir Alþfl. um að greina á milli atvinnurekstrar og tekna einstaklinga, þ. e. a. s. gera atvinnurekanda skattskyldan þó að fyrirtæki hans sé gert upp með tapi. Hæstv. ríkisstj. hefði fyrr átt að hlusta á hugmyndir Alþfl. um þetta efni, þó að ég sé síst að vanþakka það, að nú sé hún komin á þessa skoðun. Sömuleiðis hefði hæstv. ríkisstj. fyrr átt að hlusta á hugmyndir þingflokks Alþfl. um sérsköttun hjóna. Það hefur tekið hana langan tíma að komast að þeirri réttu niðurstöðu, sem við þó bentum á fyrir mörgum árum. Ég tel hæstv. ríkisstj. gera rétt í því að hlusta eftir þessum till., en bíða ekki eftir því, að þær séu endurfluttar, áður en ríkisstj. sannfærist um að hér er um réttar og sanngjarnar hugmyndir að ræða.