28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það er fjarri mér að fara út í það að ræða þetta frv. í heild, enda styð ég það í megindráttum og tel ekki ástæðu til að fjölyrða um það nema í einstökum atriðum. Sá er þó háttur minn, þegar ég er í þeirri aðstöðu að vera stuðningsmaður ríkisstj. sem með völd fer á hv. Alþ., að láta þess getið í umr. ef ég get ekki fallist á einstakar greinar eða einstaka þætti í þeim frv. sem hún ber fram.

Ég vil segja það strax, að ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með það, að í þeirri endurbættu útgáfu af frv. til skattalaga, sem hér liggur fyrir, skuli sú grein, sem nú er 59. gr., vera efnislega að mestu óbreytt. þessari grein er ég andvígur og tel að hún geti leitt af sér ranglæti sem stangast á við mínar grundvallarhugsjónir. Ég vil í þessu efni taka undir og þakka ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., Ólafs Óskarssonar, áðan og einnig það er fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar um þetta efni hér síðast.

Í þessari grein er, eins og fram hefur komið, ákvæði þess efnis, að skattstjórar skuli reikna tekjur þeim mönnum, sem starfa að eigin atvinnurekstri og eigi hafa talið sér tekjur af þessu starfi til samræmis við það sem verið hefði ef þeir hefðu unnið starfið hjá öðrum óskyldum aðila, — þá skuli þeim reiknaðar tekjur til samræmis við það, að þeir hefðu unnið hjá öðrum. Inn í greinina hafa komið nokkrir fyrirvarar sem eru e, t. v. til einhverra bóta, en þó þannig að það er ekki hægt að festa á þeim hendur að neinu marki eða sjá til hvers þeir muni leiða. Þar segir m. a., að skattstjóri skuli ákveða tekjur þessar með hliðsjón af viðmiðunarreglum, og skal þá gætt aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta. Þetta er góðra gjalda vert. En það er ekki unnt að sjá fyrir fram hvernig framkvæmd slíkra viðmiðunarreglna verður. Enn segir, að viðmiðunarreglur þeirra, er landbúnað stunda, skuli miðast við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni, þá á m. til afurðaverðs, árferðis og annarra atriða er máli skipta. Ég tel að þessi ákvæði, sem þarna eru í 59. gr., taki fyrst og fremst til þeirra, sem stunda smáatvinnurekstur, og taki lítt til stærri atvinnurekstrar, enda eingöngu stefnt að því að ná til einkaatvinnurekenda.. Þetta veldur því, að þeir aðilar, sem að þessu starfa og minnst bera úr býtum, eiga mest á hættu. Þeir, sem reka sín fyrirtæki með litlum eða engum hagnaði, gefa lítið af sér í hlut eigandans, en vilja samt vinna að þeim atvinnurekstri til þess að vera sjálfstæðir og starfa að framleiðslu eða þjónustu í þágu annarra með þeim hætti, þeir eiga á hættu að vera hundeltir af skattyfirvöldum og þeim reiknaðar tekjur til skatts sem erfitt er að sjá fyrir hvað verða miklar. Með þessum hætti er mikil hætta á því, að mörg slík smáfyrirtæki neyddust til þess að leggja upp laupana og mikil hætta eða nærri því vissa fyrir því, að einstaklingar mundu fráfælast að stofna til nýrra fyrirtækja, því að mér er nokkur spurn, hvaða smáfyrirtæki það eru í atvinnurekstri hér á landi í dag sem geta skilað arði fyrstu árin. Ég hygg að þau séu næsta fá. Og það segir sig sjálft, hve erfitt það verður, ef það bætist við að skattalagaákvæði eru þannig úr garði gerð, að þeim mönnum, sem vildu samt sem áður freista þess að koma á fót slíkum fyrirtækjum og reka þau, væru reiknaðar tekjur og skattlagðir hvernig svo sem reksturinn gengur. Þetta er algerlega andstætt mínum hugmyndum og ég get ekki fylgt slíkum ákvæðum.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason fagnaði mjög þessum ákvæðum í ræðu sinni áðan og hrósaði sér og Alþfl. fyrir að hafa hreyft þessum hugmyndum á hv. Alþ. Hann sagði: Við Alþfl.-menn eigum heiðurinn af því, að þetta er komið inn í frv. hæstv. ríkisstj. Hann taldi að þarna hefði Alþfl. barist fyrir réttum og góðum málstað og væri sýnilega á leið með að sigra í þeirri góðu baráttu. Hann taldi enn fremur að það væri til hróss fyrir hæstv. fjmrh. að hafa tekið þessi ákvæði um þetta efni inn í það frv. sem hér liggur fyrir.

Ég get sagt það út af þessum orðum hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, að það þarf í sjálfu sér engum að koma á óvart þó að hann telji að þetta séu góð og gild ákvæði, hann telji þetta til hróss fyrir Alþfl., vegna þess að þessi hv. þm. og sjálfsagt að verulegu leyti hans flokkur hafa ekki reynst málsvarar þeirra einstaklinga í þessu þjóðfélagi sem smæstir eru á sviði atvinnurekstrar. Það hafa verið flokksmenn annarra flokka sem hingað til hafa staðið vörð um þessa aðila í þjóðfélaginu. Því miður virðist vera brostinn flótti í það lið, og ég get ekki tekið undir það, að það sé til hróss fyrir hæstv. fjmrh. að hafa gengið í lið með þeim sem vilja koma þessum skattalagaákvæðum fram.

Þessi skattalagaákvæði fela það í sér, að allir landsmenn skuli skattlagðir sem launþegar án tillits til þess, hvaða stöðu þeir bera að öðru leyti, og án tillits til þess, hvort atvinnurekstur einkaaðila, smáfyrirtæki, skilar arði eða ekki, og jafnvel þótt það sé óyggjandi sannað með bókhaldi, að fyrirtækið sé rekið með halla. Það var vitnað til þess áðan af hv. þm. Ólafi Óskarssyni, að þetta ákvæði í frv. hefði verið skýrt með því m. a., að það væri gert til þess að allir væru jafnir fyrir lögunum. Ég tek undir það með hv. þm., að þetta sýnist mér í hæsta máta vafasamt og ganga jafnvel í þveröfuga átt. Ef það ætti með svona ákvæðum að gera alla jafna fyrir lögunum, þá ætti vitaskuld einnig að vera ákvæði í þessu frv. þess efnis, að þá skyldi reikna öllum launþegum tekjur til samræmis við eitthvað ákveðið mark, hvort sem þeir hefðu unnið eða unnið ekki. Þá væru allir gerðir jafnir fyrir lögunum, bæði eiginlegir launþegar og smáatvinnurekendur sem eftir þessu frv.-ákvæði eiga að undirgangast slíkar reglur. Þetta væri auðvitað ranglæti og ekki mælti ég með því, að það verði tekið upp. En það væri samræmi í slíku ranglæti, en það er ekki með þessum ákvæðum verið að gera menn jafna fyrir lögunum.

Nú er það svo og það skal viðurkennt, að ýmsir einstaklingar. sem starfa að sjálfstæðum rekstri, munu hafa komist í þær álnir að tekjur þeirra séu ekki réttlátlega metnar til skatts. En það er ekki að finna í þessari frvgr. eða aths. við hana né heldur gat ég heyrt það í framsöguræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., að það yrði tekið nokkurt tillit til þess, hverjir væru lífshættir þeirra manna sem þessi ákvæði væru lálin ná yfir. Væri þó nær að undirgangast slíkt, ef fyrirvari væri um að t. d. sveitarstjórnir eða umboðsmenn skattstjóra gætu gefið upplýsingar um, að lífshættir þeirra atvinnurekenda, sem gætu fallið undir þessa grein, væru með óeðlilegum hætti miðað við þær tekjur sem þeir telja fram, og þá skyldi slíkum ákvæðum beitt. Það væri miklu nær. Enn fremur tel ég að strax væri tekið skref nokkuð í rétta átt ef ákvæði þessa efnis giltu ekki allmörg fyrstu ár sem slíkur atvinnurekstur væri rekinn, því eins og ég sagði áður: hver treystir sér til þess á Íslandi í dag að stofna fyrirtæki og láta það skila arði fyrstu árin þannig að það gæti orðið stofn til skattlagningar? Mér þætti gaman að sjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason eða aðra þá hv. þm., sem hafa fagnað því ákvæði frv, sem er að finna í 59. gr. þess, sýna landsmönnum að þeir væru færir um að setja á stofn einkarekstur sem fyrstu árin skilaði hagnaði þannig að réttmætt væri til skattlagningar. Engin slík ákvæði er að finna í aths. með frv, eða í þeim aths., sem hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. lét falla í ræðu sinni í dag, og ég fæ ekki séð að þeir fyrirvarar, sem er þó að finna í frvgr., séu marktækir og á engan hátt hægt að átta sig á því, hvernig þeir muni verka í framkvæmd. Mun sönnu nær að þar sé allt í hinni mestu óvissu.

Nú hefur hér verið vitnað til þess, að ríkisskattstjóri skuli birta viðmiðunarreglur til skattstjóra um framkvæmd þessa ákvæðis. Hér var í dag vitnað til slíkra viðmiðunarreglna sem gilda skyldu fyrir gjaldárið 1978 sem samanburður um það, hvernig með slík mál yrði farið. Þær viðmiðunarreglur voru næsta hlálegar og gefa ekki góð fyrirheit um hvernig með mundi farið, þegar kæmi til kasta Teits og Siggu.

Ég vil leyfa mér að rifja þessar reglur upp, þó að það hafi verið gert hér í dag. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að læknar og lögfræðingar og aðrir, sem vinna störf sem háskólamenntun þarf til, svo og löggiltir endurskoðendur, hafi heilsárslaun 3 millj. 405 þús. kr., kaupmenn og framkvæmdastjórar 2 millj. 140 þús., iðnaðarmenn, hljómlistarmenn, matreiðslumenn og þjónar heilsárslaun 2 millj. 180 þús. kr., kr., ófaglærðir menn og þeir sem vinna að fiskverkun 2 millj. kr., bifreiðastjórar, heilsárslaun 1 millj. 210 þús. kr., bændur 2 373 900 kr. Svo eru nokkur fleiri ákvæði, þ. á. m. ef gengið sé út frá því að þeir, sem taldir eru upp í stafliðum b, c og d, þ. e. kaupmenn, iðnaðarmenn, ófaglærðir o. s. frv., hafi í þjónustu sinni eigi færri en 3 menn, og sé það ekki, þá megi lækka þessar tölur allt niður í 70%.

Nú er dálítið forvitnilegt að sjá hvernig þessar viðmiðunartölur koma heim við tekjur þessara starfshópa á árinn 1976, en þær er að finna í októberhefti Hagtíðinda frá Hagstofu Íslands. Það eru að vísu ekki nákvæmlega allir þessir starfshópar, en það gefur þó bendingar um þvílíkt samræmi hér er um að ræða.

Árið 1976 voru brúttótekjur t. d. lækna og tannlækna 4 millj. 829 þús., í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir árið 1978 var gert ráð fyrir 3 millj. 405 þús. Bifreiðastjórar, brúttótekjur 1976 2 millj. 184 þús., í viðmiðunarreglum skattstjóra 1210 þús. eða gert ráð fyrir nærri helmingi lægri tekjum 1978 en 1976. Forstjórar eru með 3 millj. 8 þús. kr. tekjur 1976, en í viðmiðunarreglum 2 millj. 140 þús., faglærðir iðnaðarmenn og þess háttar með tekjur 1976 2 millj. 430 þús., í viðmiðunarreglum fyrir 1978 2 millj. og bændur, brúttótekjur 1976 1558 þús., en í viðmiðunarreglum 2 millj. 373 þús.

Þarna kemur það fram, að í viðmiðunarreglum eru það aðeins bændur sem eiga að sæta því að vera reiknaðar hærri og það verulega hærri, nálega 50% hærri tekjur heldur en tekjur þeirra voru 1976. Allir aðrir starfshópar, sem hér eru taldir upp, eru miklu lægri í viðmiðunarreglum 1978 heldur en tekjur þeirra voru 1976. Þetta er ég ekki að tala um neitt sérstaklega vegna þess að hér eiga bændur í hlut, heldur vegna hins, að þetta sýnir þegar í stað að viðmiðunarreglur af þessu tagi eru markleysa og hrein vitleysa og ekki til þess lagaðar að auka traust á því, hvernig fer um framkvæmd slíkra mála þegar til kastanna kemur.

Ég hef hér gert grein fyrir því, að ég er þessari grein frv. andvígur. Ég endurtek að hún stangast á við mínar réttlætishugmyndir mínar grundvallarskoðanir um það, hvað sé rétt í álagningu opinberra gjalda, að það geti aldrei verið rétt að leggja skatt á tekjur sem ekki eru til. Fyrir nokkrum árum var fundið upp á því við breytingu á skattalögum að borga fólki skatt fyrir það að borga ekki skatt, eins og hv. fyrrv. þm. Björn Pálsson orðaði það. Það var í mínum augum einnig vitleysa. En það er þó hálfu verra og það er fyrst og fremst ranglæti að heimta skatta af fólki fyrir tekjur sem það hefur ekki. Og ég hygg að það verði ýmsum þeim, sem er smælingi á þessum vettvangi, erfið spor að eiga allt undir náð og miskunn skattyfirvalda, hversu háar tekjur þeim verði reiknaðar og hvort og hversu mikinn skatt þeir skuli af slíkum tekjum greiða. Ég vænti þess, að það finnist fleiri í þessari hv. d. en við hér, sem höfum látið þessar skoðanir í ljós, sem eru svipaðrar skoðunar.

Ég skal svo ekki lengja þetta. Það mætti lengi um þetta tala, en ég skal ekki tefja tímann lengur. Ég mun greiða atkv. gegn þessari grein frv., og ég tel að það kynni að vera ástæða til þess að freista þess milli umr., ef þessi grein verður ekki felld við þessa umr., að koma fram á henni breytingum sem gætu fært hana til réttari áttar. Ella mun þess verða freistað áður en þessi lög koma til fullra framkvæmda, að fá þar breytt um til betri vegar.