29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4231 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður við þessa 1. umr. þar sem ég á sæti í þeirri n. sem mun fjalla um þetta frv. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðh., hélt hann yfirgripsmikla ræðu í Nd. og vísaði í hana, og við höfum haldið marga sameiginlega fundi í þessum nefndum og farið í gegnum frv., svo að það liggur sæmilega ljóst fyrir okkur sem erum í fjh.- og viðskn. Engu að síður er það bagalegt, vægast sagt, að þetta frv. skuli koma hér inn þegar störf þingsins eru innan viku talin í tíma.

Þetta er það stórmál, að þrátt fyrir það að við höfum unnið sameiginlega á nokkrum fundum eru hér atriði sem ég hefði viljað ræða mjög miklu nánar, og ég er ekki alveg ásáttur með þær breytingar sem frv. hefur tekið í Nd., t. d. um þrengri ákvæði varðandi skattfrjálsa eign, sem ég tel í öfuga átt. Sómasamleg íbúð sem skattfrjáls eign er það öryggi sem hjón eða einstaklingar verða að eiga í dag til elliáranna, og þó að þetta fólk hafi sparað nokkuð gegnum árin, þá er verðbólgan slík að það sparifé eyðist upp. Sómasamlegur lífeyrir, þegar maður hefur staðið á sextugu, er orðinn gagnslaus þegar hann er orðinn 65 ára, ég tala nú ekki um ef það líður 10 ára tímabil, svo að það er engin ofrausn frá hendi þjóðfélagsins og Alþ. að veita þessum hugsanlegu gömlu hjónum eða einstaklingum það að eiga sómasamlega íbúð sem varasjóð ef á þarf að halda þegar þau nálgast ellilífeyrismörk. Ég vil sérstaklega undirstrika þetta strax í upphafi, vegna þess að breytingin, sem gerð var í Nd., er algerlega öfug að mínu mati.

Þetta ákvæði frv. er til helminga, og var talað um 750 rúmmetra á einstakling og 1500 á hjón. Ég varpaði fram hugmynd um að þetta væri ekki tekið svona til helminga, einstaklingurinn gæti átt nokkru rýmri eign. Mér virtust sumir menn hlæja að þessu — og þeir um það. En ég tel þetta mjög þröng sjónarmið. Einstaklingurinn hefur verið sérstaklega hundeltur í gegnum skattalög á Íslandi, svo að ég segi ekki meira. Það getur vel verið að hann hafi rýmri hendur en margir aðrir, en löggjöfin sem slík af hendi margra ríkisstj. hefur verið þannig í fjöldamörg ár, og það virðist eiga að halda áfram verulega að vega í sama knérunn. Auðvitað má segja að hann hafi breiðara bak en hjón og barumargar fjölskyldur, en líka getur hann átt við ýmis önnur vandamál að etja sem gera honum ekki fært annað en reyna að hafa vörn í lögum, og kannski er það fyrir hendi fyrir þá sem þekkja nægilega vel.

Skattalög eru hverju sinni mjög stór þáttur og snerta raunverulega hvern einasta mann í okkar þjóðfélagi. Það er því eðlilegt að almenningur fylgist vel með hvað er að gerast á þessu sviði. Við myndun þessarar ríkisstj. var boðað að það kæmi strax fram frv. sem snerti þessi mál, og nú hafa liðið nær 4 ár og við erum loksins að eygja möguleika á því að afgreiða þetta síðustu daga þingsins, annan eða þriðja síðasta dag þessa þings. Þetta er bagalegt, eins og ég sagði áðan — vægast sagt mjög bagalegt. Sumt af þessu á ekki að taka gildi nærri strax, og ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, að það er ekki skaði skeður þó að þetta frv. fari ekki í gegn.

Þó vil ég strax viðurkenna það, að margt í þessu frv. er miklu betur gert að mínu mati og með sómasamlegri víðhorfum gagnvart almenningi heldur en var í fyrri frv. Engu að síður eru hér svo veigamikil atriði, að þetta þarf mikla yfirvegun og miklu, miklu meiri yfirvegun en við getum nú komið við, sérstaklega í stjórnarandstöðu. Þó að embættismenn, sem hafa unnið að þessu frv., hafi komið og skýrt í stórum dráttum vissa þætti, þá hefur hvergi nærri gefist það svigrúm sem eðlilegt er til að fara í gegnum einstakar greinar og ræða framkvæmd þeirra, sem er það mikilvægasta í þessu máli. Og það, sem mér finnst að þessu frv. og reyndar mörgum öðrum, er að þetta er það flókið enn þá að venjulegur borgari á í erfiðleikum með að sjá, hver skattbyrði hans verður, — því er nú verr. Þetta frv. felur því í sér óumdeilanlega að stórt lið eftirlitsmanna, færra sérfræðinga, verður til kvatt að framkvæma lögin eða aðstoða fólk við að telja fram rétt samkv. lögunum, svo að það verði ekki skattsvikarar af því að það þekki ekki lögin, og það er líka slæmt.

Það er margt jákvætt í þessu frv. sem ég ætla ekki að rekja, enda hefur það verið tíundað á öðrum stað. En 16. gr., sem fjallar um söluhagnað af íbúðarhúsnæði, þarf athugunar við. Það hefur nú verið fellt niður, að ekkjan væri knúin til þess — eða ekkill — að selja eign sína innan þriggja ára, og er það mikið spor í réttlætisátt að löggjöfin knýi ekki þann einstakling, sem eftir er, til að ráðstafa eignum sínum. En þetta sýnir aðeins að menn verða að hugleiða það sem er að gerast hér utan dyra í okkar þjóðlífi og við megum ekki setja löggjöf sem knýr fólk til að flytja burt úr því lágmarksöryggi, sem það á, vegna þröngra sjónarmiða skattalega séð.

Ákvæðin um söluhagnað eru gerbreytt í frv. og er það vel réttlætanlegt í verðbólguþjóðfélagi. Það hefur jafnan verið sagt að menn spiluðu mjög á verðbólguna, þeir sem til þess hefðu aðstöðu, og er eðlilegt að ríkisvaldið reyni að hamla á móti slíkum vinnubrögðum. Út af fyrir sig get ég vel fallist á þá meginhugsun sem er í þeim kafla frv. Þegar kemur að ákvæðum um hvernig á að finna út þennan söluhagnað, þá er um það fjallað stuttlega í 26. gr. og þar er grundvallarbreyting. Okkur var tjáð að með því að taka vísitölu byggingarkostnaðar fengist, þegar yfir langt tímabil er litið, sæmilega góður mælikvarði á verðbreytingar í þjóðfélaginu. Um þetta má auðvitað deila og um það geta menn verið sammála, að ómögulegt er að setja mælikvarða er sýni allar breytingar í verðhækkunarátt, og eitthvað verðum við að miða við. Hins vegar má mönnum vera það ljóst, að þegar við lítum á styttri tímabil, þá mun þetta koma mjög misjafnlega fram gagnvart hinum einstöku atvinnugreinum og einstaklingum í þjóðfélaginu og mismunandi eignarformi, svo að hér vil ég leggja áherslu á að ekki verði bókstaflega beitt hinu ítrasta ákvæði, þegar er verið að seilast til í skattheimtu, sérstaklega varðandi eignir manna. Hér veltur sem sagt mjög mikið á framkvæmdinni.

Frádráttarliðirnir eru margir í þessu frv., mjög margir, og ekki hægt að fara út í þá nákvæmlega. En mikið hefur verið deilt um einn þátt hér, hvort ætti að setja ákveðið hámark í því efni, og skal ég aðeins nefna einn þáttinn, þ. e. a. s. vaxtagjöldin. Ég hefði talið rétt að einfalda þessa liði alla saman og tel það vel framkvæmanlegt, og það er reyndar gert í frv. með því að gefa mönnum kost á því að velja ákveðna prósentu í eitt skipti fyrir allt og nota hana við skattframtal sitt heldur en vera að tína til marga smáliði, því að nákvæmt úrtak sýnir að talan 10% er ekki fjarri lagi þegar lítið er á allstóran hóp manna sem hefur þann möguleika að tína til ýmsa smáliði. Hins vegar mun það auðvitað koma fram, þegar svona einföldun er gerð, að það mun koma allmjög misjafnlega niður og sumir, er ávinning hafa, þegja, en þeir, sem fara halloka, munu kveina. Þetta á við ýmsa námsliði og minni háttar kostnaðarliði sem menn eru að stofna til, stundum bundið við eitt eða tvö ár, og getur orðið tilfinnanlegt fyrir einstaklinga í vissum tilfellum. Einstaklingurinn hefur val og verður þá að velja á milli hvað hann vill, svo að það má segja að flestir ættu að geta sætt sig við þessa aðferð. En aðferðin, sem verður umdeilanleg, eru vaxtagjöldin og hvað þau þýða í skattaniðurstöðu mannsins. Ég tel eðlilegt að fundinn verði nokkuð sanngjarn vaxtafótur á venjulega íbúð, eins og hún er tilgreind í frv., og hámarksvaxtafrádráttur miðaður við hana hjá þeim sem þurfa að hafa slík vaxtagjöld, en ekki ef menn eiga kost á stórmiklu fjármagni fram yfir, þá er það vegna einhverra annarra þarfa og verður þá að gera sérstaka grein fyrir slíku.

Ýmis önnur ákvæði eru tekin upp hér sem hafa valdið deilum, um niðurfærslu á viðskiptaskuldum og ýmsu fleiru sem er of langt mál að telja hér upp í þessu tilfelli.

Síðan kemur kaflinn um fyrninguna sem er afar mikilvægur þáttur í þessu frv. Ef reikna má með jafnvægi í okkar þjóðarbúskap, sem allir segjast vilja stefna eindregið að, þá er eðlilegt að prósentutala sé sæmilega há á fyrnanlegum eignum. En sé hins vegar reiknað með því, að verðbólgan í þessu landi á ári sé tveggja stafa tala og nemi tugum, þá getur vandamálið orðið miklu erfiðara viðureignar. Um þetta fjallar 38. gr., og hafa orðið um hana verulegar umr. og næstu grein á eftir, og þær reglur, sem hér eru settar fram, verða mörgum erfiðar í framkvæmd, það er ég alveg viss um. 44. gr, sem er algerlega nýtt mat á þessum málum, mun einnig verða mjög mörgum erfið í framkvæmd. Þetta mun ekkert verða erfitt í framkvæmd hjá okkur sem höfum til þess menntun og þjálfun að framkvæma það sem þarna stendur, en fyrir fjölda einstaklinga, fullyrði ég: vörubílstjóra, dráttarvélaeigendur eða vinnuvélaeigendur, smábátamenn og marga, marga aðra verða þessar greinar allar erfiðar í framkvæmd og þeir munu að mínu mati þurfa á sérfræðingaaðstoð að halda í miklu, miklu stærri stíl en nokkurn tíma hefur verið áður. E. t. v. er tilgangur löggjafans og knýja alla í gegnum slíkt eftirlit, og það kann að vera nauðsynlegt og eðlilegt. En mjög margir menn fara þá að fást við það eitt að líta eftir náunganum á öllum sviðum, frá fyrstu öflun fisksins og til síðustu stundar, er fiskimaðurinn leggur ávinning verka sinna í gegnum skattstofuhurðina.

Ákvæði, sem mjög er deilt um, er í 59. gr. Þar er ákvörðun um hvernig meta eigi vinnu hjá því fólki er vinnur við eigin fyrirtæki. Þetta er afar viðkvæmt mál í íslensku þjóðfélagi vegna þess hve mikill smárekstur er hér og hve það er algengt að fjölskylda vinni hjá eigin fyrirtæki. Eins og greinin er í dag hefur hún tekið miklum bótum, og sennilega munu flestir geta fallist á hana eins og hún stendur, en ég vil þó undirstrika það hér sem jafnan áður, að mjög veltur á framkvæmd og skilningi viðkomandi skattstjóra. Ég tel að hægt væri að sætta sig við greinina eins og hún er orðuð í dag. Þó munu þeir vera margir utan Alþingis sem telja hana fráleita. Ég vildi aðeins vekja sérstaka athygli á þessu, af því að hún mun snerta mjög marga aðila úti um allt land sem eiga smáfyrirtæki, eru á búum sínum, með sinn litla bát, með sína litlu vinnuvél, með sinn vörubíl og þar fram eftir götunum. En greinin er eðlileg, vegna þess að það hefur verið sagt með réttu, að margir hafa sloppið „billega“ gegnum heldur slöpp skattalög varðandi þetta mat undanfarið. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, er mat skattamanna að gera það, en þess vegna er þessi grein komin inn nú svona ákveðin, að menn hafa talið það óhjákvæmilegt og gert fyrir því fulla grein. En greinin er mjög umdeilanleg, og ég undirstrika það, að hér þarf heilbrigt mat skattstjóra að vera fyrir hendi í framkvæmdinni.

Tekjuskattur hjóna er hér í grundvallarbreytingarformi, og um það hafa flestir verið sammála á fundum, að það væri rétt spor og í rétta átt að hafa þau sérsköttuð, og ég held að þessi kafli njóti almenns stuðnings.

Síðan eru nokkrar heimildir hvernig á að lækka tekjuskatt og ýmislegt í sambandi við það, og sá kafli hefur ekki orsakað miklar umr. og fengið heldur góðan stuðning sem heild. Þó er þar ákvæði í 5. lið 66. gr. á þessa leið: Ef útgjöld vegna menntunar manns eftir 26 ára aldur hafa skert gjaldþol hans verulega, þá skal koma til frádráttarmöguleika, og einnig ef menn hafa sérstakan kostnað vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. — Sennilega munu margir háskólamenn og þeir aðilar, er þurfa sérstaka endurmenntun með vissu ára millibili, ekki vera ánægðir með þetta ákvæði og munu þurfa að leita mjög á náðir skattyfirvalda til að meta þann kostnað er þeir leggja í til þess að halda við menntun sinni og þjálfun í starfi. Þetta er þrengra en verið hefur og ég veit ekki hvort þetta er algerlega fortakslaust rétt stefna, vegna þess að þróun í tækni og menntun er svo ör í hinum stóra heimi að margir sérfræðingar, t. d. á heilbrigðismálasviði og tæknisviði, verða óhjákvæmilega að leggja í mikinn kostnað með vissu millibili til að vera starfi sínu vel vaxnir. En sem sagt, þeir eiga þetta undir gæðamati skattyfirvalda, hvað þessi kostnaður má vera mikill, og verður að vona að framkvæmdin verði mannúðleg.

Skattstigi manna er jafnan umdeilanlegur og er fjallað um hann í 67. gr. Það má segja að þarna hafi verið seilst dálítið langt, og það er búið að breyta því núna í meðförum Alþingis. Ég tel að hér sé farið fram á ystu nöf. Þegar við stefnum að því að taka skattheimtuna af samtímatekjum, þá hlýtur þessi prósenta að mega vera verulega legri en hún var sett fram í frv., enda er tilhneiging til að gera það. Það var eðlilegt að hafa hana nokkru hærri í mjög miklu verðbólguþjóðfélagi, þar sem krónurnar, sem menn greiddu árið eftir, voru þá orðnar miklu minni. Þess vegna þótti það rétt að hafa hana háa. En nú stefnir að samtímagreiðslu, og þá er eðlilegt að þetta viðmiðunarhlutfall sé mun lægra. Það verður alltaf umdeilanlegt og ekkert við því að segja, en ég held að hér sé seilst eins hált og hægt er — og jafnvel fram yfir það.

Kaflinn um barnabætur er með þeim hætti nú eins og verið hefur um skamman tíma, að ekki verða greiddar barnabætur nema viðkomandi einstaklingur hafi gert skil á mörgum opinberum gjöldum, og kann að vera rétt að taka slíkt fram. En þá er bara að framkvæmdin verði einnig nokkuð mannúðleg, því að svo gæti farið að það bitnaði á saklausu fólki, og get ég ekki farið nánar út í það á þessu stigi.

Kaflinn um skattskyldar eignir er mjög mikið breyttur og skiptir miklu máli, eins og ég var að drepa á áðan, varðandi þennan öryggisstuðul fyrir einhleypinginn og hjónin, og tel ég að hafi verið skakkt að rýra þetta hlutfall fyrir hina venjulegu fjölskyldu og fyrir einstaklinginn.

Önnur atriði í þessu frv. eru um ýmiss konar framkvæmd og refsjákvæði. Mikið var deilt um ákvæði í 94. gr. og er það mjög svipað og er í núgildandi lögum, en þó er þessari setningu bætt við : „Lögreglu er skylt innan starfsmarka sinna að veita ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra nauðsynlega aðstoð í þágu rannsóknar skattamáls.“ Hér töldu menn að stefnt væri að hinum venjulega borgara of mikilli ógnun raunverulega og ekki í samræmi við megingildi réttaröryggis. Ég hef ekki komist í gegnum þær brtt. sem komu frá Nd. í nótt, en í n. fannst mér vera hljómgrunnur fyrir því. að þessi setning félli niður og það yrði auðvitað að ganga dómur áður en slíkri hörku yrði beitt. Það er samkv. íslenskri réttarvenju, og bentu lögfræðingar, sem sálu fundinn, á að eðlilegt væri að þetta félli niður.

Önnur atriði í þessu frv. fjalla um framkvæmd og refsjákvæði, og varð ekki mikill ágreiningur um þau í n. og sé ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta mál, en mun geyma mér rétt til að gera aths, við þessar greinar þegar við fáum málið í n. En eftir því sem ég sé best mun sá tími verða afar naumur og kann því að fara svo, að ég treysti mér ekki endanlega til að fylgja frv., þó að ég viðurkenni að hér sé mjög margt til bóta frá því sem var áður.