29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4245 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. 1. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Í gær, þegar þetta frv. var til 2. umr. hér í þessari hv. d., stóð svo á að ég hafði fjarvistarleyfi. Ég hafði látið skrifa mig á lista sem þátttakanda í umr., en þar sem ég vildi ekki tefja fyrir afgreiðslu málsins féll ég frá orðinu svo að málið yrði afgreitt til 3. umr.

Til þess að taka af öll tvímæli og hugsanlegan misskilning um afstöðu mína í þessu máli vil ég endurtaka þá yfirlýsingu sem ég hélt að ég hefði skilmerkilega gert grein fyrir í ræðu minni þegar ég tók til máls í sambandi við afgreiðslu málsins, að ég væri eindregið á móti því, að stjórnmálaflokkar tækju við styrktarfé frá erlendum aðilum, ef það væri í því magni sem hægt væri að tala um að gæti haft einhver áhrif. Hins vegar lýsti ég þá yfir að þetta mál væri viðkvæmt, þetta væri mjög erfitt í framkvæmd og það þyrfti að athuga frá mörgum hliðum, það væru svo mörg atriði þessu málí viðvíkjandi og þess vegna byggði ég á þessari skoðun þá ákvörðun mína að vísa málinu til nefndar sem ég nefndi í nál. mínu. Það var svo upplýst að þessi n. hefði lokið störfum af því að hún hefði skilað frv. Ég athugaði það síðar og það er ekkert sem stendur í bréfi n. um það, að hún telji sig hafa lokið störfum. Hún hefur skilað frv, og það er allt annað en hún hafi lokið störfum, þannig að ég hef ekki efnislega séð að formsins vegna sé neitt athugavert við það að n. sem slíkri hafi verið falið að athuga nánar það málefni, sem hér er til umr., og láta í té umsögn um það.

Það fór nú svo að till. mín til rökstuddrar dagskrár var kolfelld, svo að það er ekki um neitt slíkt að ræða í sambandi við þetta mál. En til þess að taka af allan vafa um afstöðu mína til málsins vil ég bara lýsa því yfir, að ég er samþykkur þeirri meginstefnu sem mörkuð er í frv., og þrátt fyrir það að ég finni galla á ákvæðum frv., þá mun ég greiða því atkv.