29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

286. mál, eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

Frsm. (Stefán Valgeirsson) :

Virðulegi forseti. Frv. þetta er um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur. Frv. er samið af n. sem hæstv. landbrh. skipaði til að endurskoða lög nr. 32 frá 1968, um eftirlit með framleiðslu og verslun á fóðurvörum, og fella inn í þau ákvæði um eftirlit með áburði og sáðvörum. Búnaðarþing fjallaði um þetta frv. á síðasta Búnaðarþingi og gerði við það nokkrar brtt. sem að mestu leyti voru teknar til greina þegar gengið var frá þessu frv.

Landbn. fjallaði um þetta mál og var sammála um að mæla með samþykkt þess með einni breytingu, þ. e. a. s. að 1. mgr. 12. gr. falli niður, en þessi grein er þannig, með leyfi forseta: „Óheimilt er að versla með fóðurvörur og sáðvörur nema með leyfi landbrn.“ En í 6. gr. eru ýmsar heimildir, þannig að rn. hefur þar heimildir til að stjórna þessum málum alveg, svo að okkur virtist þetta vera alger óþarfi og óvenjulegt.

Einn nm., hv. þm. Benedikt Gröndal, skrifaði undir nál. með fyrirvara.