17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Umræður utan dagskrár

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Það stóðst á endum á þessu hausti, að þing var sett og í landinu hófst fyrsta verkfall opinberra starfsmanna, sem hér hefur verið háð. Og ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að það er ekki vonum fyrr að þetta ástand kemur til umr. hér í þingsölum. Nú hefur verið skýrt frá því, sem allir hljóta að fagna, að samningaumleitanir, sem legið hafa niðri hartnær í viku, séu hafnar á ný.

Ég tel ekki heppilegt né rétt að gera hér að umtalsefni einstök atriði í þeim tilboðum, sem fyrir lágu þegar upp úr viðræðum slitnaði síðast, eða bollaleggja um það, hversu þar megi málum þoka í hverju atriði um sig til þess að ná endum saman og leysa þessa deilu, sem tvímælalaust er brýn vegna þjóðarhagsmuna, vegna afkomu og álits ríkisins út á við og vegna hagsmuna þeirra, sem í deilunni eiga, að taki sem fyrst enda. En ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið, og þær almennu ályktanir um það, hvernig á málum er haldið í slíkri deilu, sem draga má af því sem þegar hefur skeð.

Það mátti sjá nokkru áður en til verkfalls kom, að vel gæti svo farið að það skylli á, og því hvíldi sú ábyrgð á báðum aðilum, en þó sér í lagi á ríkisvaldinu, að vera vel undir það búið að taka vinnustöðvun og standa þannig að málum að hún yrði sem skemmst. Á þessu tel ég hafa orðið misbrest. Það var ekki rétt af samningamönnum ríkisstj. að loka sig inni á síðasta snúningi samningaviðræðna, eins og gert var með því að lýsa ákveðið tilboð lokaboð. Og það ber tvímælalaust að harma og átelja, ef það hefur komið í ljós, að úrskurðir kjaradeilunefndar kveðnir upp að réttum lögum hafi ekki verið virtir. En þar ber einnig að líta á það, að ljóst er af því sem gerst hefur, að mál hafa ekki verið búin svo í hendur kjaradeilunefnd af a.m.k. sumum stofnunum ríkisins sem þurft hefði að vera. Það hefur komið á daginn, að undanþágulistar þeir, sem kjaradeilunefnd ber að senda frá sér og bundnir skulu vera við ákveðin nöfn, eru að einhverju leyti og hvað sumar stofnanir varðar byggðir á úreltum gögnum, svo gömlum starfsmannalistum að þeir undanþágulistar fá ekki að fullu staðist. Þetta tel ég að séu algerlega óþörf mistök, og þarna má vel vera að sé að leita undirrótar að því að einhverju leyti, ef árekstrar hafa orðið verulegir milli ákvarðana kjaradeilunefndar og þeirra viðbragða sem verkfallsmenn og verkfallsstjórn hafa sýnt gagnvart þeim.

Ég skal enga fjöður draga yfir það, að ég tel einnig að af hálfu verkfallsmanna hafi verið að ýmsu leyti handahófskennd framkvæmd á verkfallsaðgerðunum. Þess eru dæmi að verkfall er einn daginn á einhverjum vinnustað, en unnið er þar af sömu starfshópum næsta dag. Það er engin þörf á því að láta það dragast hátt í viku að hleypa úr landi ferðafólki af öðrum þjóðum, sem orðið hefur innlyksa. Eitt er það enn, sem mjög hefur vakið athygli og er vottur um það, hve illa menn hafa búið sig undir að standa að þessum málum. Þetta er sá hringlandaháttur sem gætt hefur um starfsemi í framhaldsskólum, þar sem hverfandi lítill hluti starfsmanna er innan vébanda BSRB, en þorri þeirra innan vébanda BHM, sem ekki er í verkfalli. Það er ljóst t.a.m. að hæstv. menntmrh. hefur ekki verið undir það búinn að taka afstöðu til þess máls þegar í upphafi og að athuguðu máli. Því hafa orðið mikil óþægindi og verið efnt til leiðinda sem mátt hefði komast hjá hefði þar verið ráð í tíma tekið.

Ég fagna því sem sagt, að sáttafundir eru hafnir á ný, og ég veit, að það er ósk allra landsmanna, sem hafa fylgst með þessu verkfalli, að vísu við mjög skertan fréttaflutning margir hverjir, að því megi ljúka sem fyrst. En ég vil ekki hverfa svo úr þessum ræðustól að vekja ekki máls á atriði sem mér finnst hafa legið um of í láginni. Það var einn þáttur í aðdraganda þessa máls, að hæstv. fjmrh. fór þess á leit við Hagstofu Íslands, að hún gerði könnun á því, hversu hagað væri raunverulegum launakjörum á svokölluðum frjálsum vinnumarkaði, þ.e.a.s. utan ríkisgeirans í atvinnulífinu. Þessi könnun var gerð. Niðurstöður hennar hafa legið fyrir um nokkurt skeið og á þeim niðurstöðum virðist byggð að verulegu leyti kröfugerð talsmanna RSRB. Þeir telja að þessi könnun hafi sýnt að opinberir starfsmenn hafi í raunverulegum launakjörum dregist verulega aftur úr fólki utan ríkisgeirans. Og ég hef skilið ákveðin ummæli hæstv. fjmrh. á þann veg, að hann viðurkenni þetta að vissu marki a.m.k. En niðurstöður af þessari könnun Hagstofunnar eru innanhúss­ gagn þeirra samningsaðila sem nú takast á um kaup og kjör félaga í BSRB. Þær upplýsingar, sem þar er að finna, hafa á alls engan hátt verið gerðar opinberar. Ég tel þetta tvímælalaust vera gögn, sem almenning varði, og vil því beina því til hæstv. fjmrh., að hann beiti sér fyrir því að niðurstaða þessarar kjarakönnunar verði gerð opinber hið fyrsta.