29.04.1978
Efri deild: 93. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4289 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

242. mál, lyfjalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Önnur brtt. á þskj. 723 var dregin til baka til þessarar umr. áðan, og ég gerði mér e. t. v. vonir um að það tækist að ná samkomulagi um þá breytingu sem þar er ráð fyrir gert. Það hefur ekki tekist þrátt fyrir góðan vilja hv. formanns til þess að við nálguðumst hvor annan nokkuð. Við höfum gert það kannske í skilningi á þessu, en ekki varðandi tillögugerðina. Af því tilefni er rétt að taka það fram, að ég tel að þarna sé um skýrari og eindregnari ákvæði að ræða varðandi þetta tvennt sem ég legg mesta áherslu á, þ. e. a. s. að stuðla með beinum fjárframlögum að stofnun og rekstri lyfjabúða á þeim stöðum, er heilbrigðisyfirvöld telja nauðsyn lyfjahúða ótvíræða, en vafasamt er hvort reksturinn geti borið sig með eðlilegum hætti, og að efla með lánum eða styrkveitingum innienda lyfjaframleiðslu og rannsóknir í lyfjagerðarfræði. Ég tel sem sagt að þetta eigi að vera forgangsliðir nr. 1 og 2, og ég legg á það aukna áherslu með því að segja að til þessara liða skuli skylt að ráðstafa a. m. k. 50% af fjármagni sjóðsins og virðist ekki fram á mikið farið.

Ég þykist vita að hv. formaður heilbr.- og trn. muni vitna í orð hæstv. ráðh., þar sem hann telji sig mjög meðmæltan þessu hvoru tveggja, að þetta verði jafnrétthátt og kannske rétthærra, en þarna greinir okkur auðvitað nokkuð á. Hann treystir eðlilega ráðh. sínum til framkvæmdanna. Ég vil fá þetta ótvírætt inn í lögin svo að það sé hægt að treysta því, að hver sem verður ráðh., þá standi hann við þetta og sé skylt að fara eftir ákveðnum lagafyrirmælum hvað þetta snertir.