29.04.1978
Efri deild: 93. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4290 í B-deild Alþingistíðinda. (3512)

306. mál, heyrnleysingjaskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um heyrnleysingjaskóla. Það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um þetta frv., það er mjög stutt, það er ein efnisgrein og einfalt að allri gerð. Þar segir að við Heyrnleysingjaskólann skuli starfa framhaldsdeild er hafi það verk að veita nemendum undirbúning og aðstoð til að afla sér menntunar og þjálfunar í ýmsum starfsgreinum og réttinda til sérnáms í framhaldsskólum eða háskólum. Það segir einnig: „Deildin skal starfa í samvinnu við skóla á viðkomandi námssviði.“

Ég vil aðeins rifja það upp, að Heyrnleysingjaskólinn er fyrst og fremst grunnskóli, en vegna sérstöðu heyrnskertra hefur hann leyfi til og er gert ráð fyrir að kennsla hans nái tiltekið bil út fyrir grunnskólaaldurinn. Þetta hins vegar reynist ónóg eins og ástatt er með þessa nemendur. Annars vegar er það brýn nauðsyn, að þeir fái nokkra meðferð og hjálp og alveg sérstaklega foreldrarnir leiðbeiningu og hjálp áður en þau koma á skólaaldur, þessi heyrnskertu börn. Hins vegar er mjög brýnt að veita þeim stuðning áfram, stuðning út í framhaldsnám, stuðning til að komast inn í störf. Þessu hvoru tveggja er að vísu nokkuð sinnt eins og nú er, en það er þó ekki traustur grundvöllur fyrir framhaldshjálpina þarna í Heyrnleysingjaskólanum, og þessu frv. er ætlað að bæta þar nokkuð úr.

Ég vil minna á það, að Heyrnleysingjaskólinn er mjög merkileg stofnun. Hann er t. d. ágætlega húsaður og ég held dável eða vel búinn að tækjum. Og þrátt fyrir nokkrar sveiflur í fjölda nemenda þarna, þá eru þar ekki alvarleg þrengsli. Hann verður að teljast vel settur að þessu leyti. Og í annan stað vil ég minna á það, sem hv. þdm. er e. t. v. kunnugt, að við þennan skóla hefur starfað um árabil skólamaður sem hefur lagt mikla rækt við þetta starf og er, að ég hygg, nokkuð sérstæður og þá að ágætum. Brandur Jónsson skólastjóri hefur lagt sig allan fram og í raun og veru unnið þarna þrekvirki í forustuhlutverki. Þetta frv. er unnið undir forustu hans og að frumkvæði hans og starfsfélaga hans við þennan skóla. Ég tel þess vegna að hér yrði byggt á nokkuð traustum grundvelli með samþykkt þessa frv. Ég legg áherslu á að hér er ekki síst um það að ræða að veita hjálp til þess að starfa við aðra skóla. Þarna mundi verða um mjög nána samvinnu að ræða við aðra skóla og skóladeildir.

Ég vil svo að lokum aðeins leggja alveg sérstaka áherslu á það, að það er náltúrlega ákaflega slæmt þegar búið er að leggja við alúð og vinna af eljusemi að fræðslu og uppeldi þessa fólks um árabil á grunnskólaaldrinum, ef þá skyldi vanta kannske herslumuninn til þess að það geti komist áleiðis út í aðra skóla og út í lífið og neytt krafta sinna þar. Það er auðvitað ekki aðeins óskynsamlegt og óæskilegt frá sjónarmiði einstaklingsins, heldur mjög óskynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði þjóðfélagsins í heild. Á það legg ég einnig sérstaka áherslu.

Þó að þetta frv. komi seint fram, þá vil ég nú leyfa mér að biðja hv. þdm. að athuga möguleika á afgreiðslu málsins. Ég hef rætt þetta mál sérstaklega við samráðh. mína og nokkra þm., eftir því sem ég hef getað komið við, og mér virðist þeir, sem ég hef rætt við, vera ásáttir um að málið nái fram að ganga, ef ekki kemur þá upp einhver sérstakur ágreiningur í sambandi við meðferð þess sem ylli töfum sem ekki yrðu viðráðanlegar eins og nú er komið þingtímanum.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinn verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.