02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4301 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Frsm:

(Ellert B. Schram): Herra forseti. Hv. allshn. Sþ. hefur leyft sér að flytja till. til þál. um skipun nefndar til að gera till. um breyt. á stjórnarskrá og fleira, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar, að umboð núverandi stjórnarskrárnefndar falli niður nú þegar, en skipuð verði ný nefnd 7 manna, eftir tilnefningu þingflokka, tveir frá tveim stærstu þingflokkunum hvorum um sig, og einn frá hverjum hinna, til að endurskoða stjórnarskrána, til að gera till. um breyt. og þá sérstaklega á kjördæmaskipan og enn fremur á ákvörðun stjórnarskrár og lögum um Alþ. og á kosningalögum.

N. skili till. sínum í tæka tíð, svo unnt sé að leggja þær fyrir næsta þing.“

Ég tel ástæðulaust, herra forseti, eins og á stendur með þingstörf nú að hafa langt mál um þessa till. Geri ég ráð fyrir því, að flestir hv. þm. þekki forsögu þessa máls og aðdragandann að þessum tillöguflutningi.

Í aðalatriðum eru forsendurnar þær, að allt frá árinu 1972 hefur setið að störfum stjskrn„ sem er þingskipuð nefnd, og þrátt fyrir þetta langan tíma eða 6 ár hafa enn ekki neinar till. frá þessari nefnd séð dagsins ljós. Það hefur jafnframt verið upplýst á síðustu dögum, að nefndin hefur ekki verið kölluð saman til funda a. m. k. í rúmt ár. Það hefur því verið mat okkar í allshn., að þessi stjskrn. væri nánast óstarfhæf og nauðsynlegt væri að skipa nýja nefnd, sem hefði endurskoðun stjskr. að verkefni, og jafnframt væru þessari nýju nefnd sett ákveðnari verkefni, þannig að hún gæti jafnframt endurskoðað ákvæði í kosningalögum svo og ýmis lagaákvæði um Alþ. Í þessu sambandi er þess að geta, að fyrir allshn. hafa nú legið á þessu þingi a. m. k. þrjár till., sem fjalla um þessi efni og skyld málefni, og á undanförnum þingum hafa verið lagðar fram allmargar till. frá einstökum þm. um þessi mál. Allar þessar till. hafa ýmist alls ekki fengið afgreiðslu eða þeim verið vísað til stjskrn. og sífellt vísað til þess, að sú nefnd sæti að störfum, en það hefur aftur leitt til þess, að engin afgreiðsla hefur fengist á ýmsum brýnum úrlausnaratriðum sem snerta Alþ., kosningalög og stjskr. Hafa menn þá einkum í huga þá nauðsyn að endurskoða núverandi kjördæmaskipan með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á búfestu manna í hinum ýmsu kjördæmum.

Hv. allshn. var einróma sammála því að flytja slíka till. og af ýmsum ummælum og aths., sem gefnar hafa verið í fjölmiðlum, má ætla að þessi till. fái góðan hljómgrunn og megi búast við því, að hún verði í öllum aðalatriðum afgreidd hér á hinu háa Alþ. nú.

Á dagskrá þessa fundar eru jafnframt nál. hv. allshn. um þrjú önnur mál sem varða kosningar til Alþingis. Gerir n. till. um að þessum málum verði vísað frá með rökstuddri dagskrá með hliðsjón af því, að þessi till. er nú komin fram. Er þá gert ráð fyrir því, að þau mál fái athugun og afgreiðslu í þeirri nefnd sem væntanlega verður skipuð.

Ég tel ástæðulaust, herra forseti, að fjalla frekar um þetta mál nema tilefni gefist til. Til þess að flýta fyrir þingstörfum og ekki síst til þess að flýta fyrir afgreiðslu þessarar till. læt ég nú máli mínu lokið.