02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hafa á þessu þingi orðið allmiklar umr. um breyt. á kosningalögum og kjördæmaskipan. Menn minnast þess, að strax í upphafi þings, á s. l. hausti, urðu umr. utan dagskrár um þessi mál og í þeim umr. gaf hæstv. forsrh., ef ég man rétt, þá yfirlýsingu, að þess mundi verða farið á leit við þingflokka hér á Alþ., að þeir tilnefndu fulltrúa í nefnd til viðræðna um breyt. á þessum málum.

Það segir í grg. með þessari þáltill., sem hv. allshn flytur: „Einhverjar viðræður munu hafa farið fram, en þær hafa engan árangur borið, m. a. vegna þess að stjskrn. hefur engum till. skilað og virðist að mestu óstarfhæf.“ Ég sé ekki að stjskrn. hafi á nokkurn hátt komið í veg fyrir það með starfi sínu eða starfsleysi, hvað sem menn vilja kalla það, að viðræður þær, sem lofað var af hálfu hæstv. forsrh. hér í byrjun þings, hefðu ekki átt að geta farið fram tímanlega og þá væntanlega að hægt hefði verið að koma á þeim breytingum sem hugsanleg samstaða hefði orðið um í þinginu. En það mun hafa verið fyrir líklega hálfum mánuði til þremur vikum að boðað var til fundar vegna þessa máls, eins stutts fundar. Þegar komið var að þinglokum og algjörlega útséð um að breytingar yrðu gerðar á þessu á yfirstandandi þingi, þá var fyrst efnt loforð hæstv. forsrh. eða ríkisstj. um að kalla menn til viðræðna um þetta mál. Þar var því einvörðungu um að ræða málamyndanir og því augljóst að hæstv. ríkisstj. með forsrh. í broddi fylkingar hefur ekki, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem hún gaf á s. l. hausti, haft þann áhuga, sem allt tal sumra hverra hæstv. ráðh. hefði átt að benda til, á því að breyta frá því sem nú er.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa þáltill, en ég vil fyrir mitt leyti lýsa því sem minni skoðun, að ég tel að á engan hátt sé hægt að ásaka stjskrn. fyrir það, að þær viðræður, sem lofað var hér af hæstv. forsrh. á s. l. hausti, hafi ekki borið árangur. Þar er við einhvern annan að sakast, hitt er þó fullyrt í grg. með þessari þáltill.

Ég vil aðeins bæta því við varðandi þetta mál, að það má vel vera að áfellast megi stjskrn. fyrir athafnaleysi. Ekki ætla ég að kveða upp dóm í því máli. En ég vil aðeins minna á að mér vitanlega voru þessari nefnd engin tímamörk sett um að skila af sér. Og mér hefur fundist að þeir, sem veist hafa að stjskrn., hafi beint skeytum sínum fyrst og fremst að formanni hennar, Hannibal Valdimarssyni. Ég hygg að mönnum sé ljóst að hver og einn nm. hefur haft til þess aðstæður og til þess rétt að ýta á starfsemi í þessari nefnd og beinlínis að knýja fram, hafi hann haft til þess stöðu í nefndinni, úrlausn í þessu máli innan nefndarinnar. Hér er því ekki við neinn einu um að sakast, eins og menn hafa látið í veðri vaka. Sé hér um sök eða sakfellingu að ræða, þá eru þar fleiri, sem sök eiga á, en form. nefndarinnar.

Ég vil einnig segja það sem mína skoðun, að mér hefði fundist viðkunnanlegra að hv. allshn., sem þetta mál flytur hér í þinginu, hefði a. m. k. átt viðræður ekki bara við formann stjskrn. heldur nefndina sem slíka og látið hana vita af því, að von væri slíkrar till. hér í þinginu og þá líklega fyrst og fremst að áliti allshn. vegna starfsleysis stjskrn. Ég er ekki með þessu að segja að nein skylda hafi verið til þessa, en a. m. k. hefði mér fundist viðkunnanlegra að þau vinnubrögð hefðu verið viðhöfð.

Ég skal ekkert um það segja, hversu mikils fylgis þessi þáltill. kann að njóta hér á Alþ. Ég heyrði hv. frsm. fyrir þessari till. nefna að ef taka mætti mið af því, sem fram hefði komið í fjölmiðlum, þá ætti þessi till. að eiga greiðan aðgang í gegnum þingið. Nú veit ég ekki hvort fjölmiðlar hafa það almennt á takteinum, hver niðurstaða verður þingmála hér á Alþ. Vel má vera að þeir hafi kannað það sérstaklega í þessu tilfelli. Ekkert skal ég um það segja. Það má vel vera að svo fari, að þessi þáltill. njóti mikillar hylli og sigli hraðbyri gegnum þingið. En ég taldi nauðsynlegt strax við þessa umr. að þessi sjónarmið mín kæmu fram sem ég hef hér í sem allra stystu máli gert grein fyrir.