02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4304 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að láta það koma fram af minni hálfu, og ég held ég geti sagt að þar eigum við allir allshn.-menn., sem að þessari till. stöndum, óskilið mál, að það er algjör rangtúlkun á tillöguflutningnum að reyna að snúa honum upp í einhvers konar vantraust á form. þeirrar stjskrn., sem starfað hefur síðan 1972. Þetta er tilbúningur í óvönduðum blaðaskrifum sem síðan hefur fengið bergmál í blöðum sem ættu að telja það fyrir neðan virðingu sína að sinna slíku skrifi og varð tilefni til þessa orðasveims um form. stjskrn. Hvorki form. núv. stjskrn. né formenn þeirra stjskrn., sem áður hafa setið og einnig hafa verið hinir mætustu menn, geta borið sök fyrir að allar þessar nefndir, sem áður hafa starfað, hafa hætt störfum án þess að ljúka verkefni sínu. Sé hér um sök að ræða, þá er hún fyrst og fremst á herðum þeirra stjórnmálaflokka, sem bera ábyrgð á mönnum sem nefndina skipa, og þeirra flokka á hverjum tíma sem myndað hafa meiri hl. til að fara með stjórn landsins. Einn maður, hvort hann er form. eða annað í slíkri nefnd, getur með engu móti tekið að sér slíka forustu og slíkt vald, að á hans herðum hvíli úrslit svo stórs máls.

Ég hef áður látið það í ljós, og ég endurtek það, að ég tel að rýr afrakstur, a. m. k. á opinberum vettvangi enn sem komið er, af störfum stjskrn., sem setið hefur frá 1972, hljóti fyrst og fremst að skrifast á reikning núv. stjórnarflokka. Það eru þeir, sem hafa borið ábyrgð á stjórn landsins allt kjörtímabilið. Það voru þeir, sem lýstu því yfir í upphafi stjórnarsamstarfs, að þeir ætluðu að taka þarna á þýðingarmiklum málum, þ. e. a. s. á kosningalagaákvæðunum. Það var forsrh. þeirrar ríkisstj., sem þessir flokkar bera ábyrgð á, sem lýsti því yfir á fyrsta starfsdegi þingsins, að ríkisstj. hefði ákveðið að setja á laggirnar nefnd allra þingflokka til að athuga bæði kosningalög og kjördæmaskipunarákvæði stjskr. og jafnvel fleiri atriði þeim skyld. Það er því ekki í mínum huga neinn vafi á því, að það, sem staðið hefur fyrst og fremst í vegi fyrir því að þessu máli þokaði áfram á þessu kjörtímabili, að ég tali nú ekki um að það gæti komið til ákvörðunar fyrir þær kosningar sem fram undan eru, er að það er ekki samkomulag í núv. stjórnarflokkum um að ráða málinu til lykta. Það er ekki vilji fyrir því hjá þeim að taka málið til afgreiðslu um þessar mundir.

Þetta er sú pólitíska staðreynd, sem að mínum dómi ræður mestu um það, hversu málið er á vegi statt. En þar að auki, hvað varðar störf stjskrn. út af fyrir sig, þá tel ég orðið ljóst af störfum þessarar nefndar og af störfum fyrri stjskrn., að það er engin knýjandi pólitísk eða þjóðfélagsleg nauðsyn sem rekur á eftir allsherjarendurskoðun á stjskr., eins og menn hafa sett sér hvað eftir annað. Það, sem gerst hefur, sýnir að mínum dómi að þau ákvæði, sem sérstaklega er þörf fyrir athugun og endurskoðun á, eins og málum er nú komið, eru kosningaákvæðin og að auki ákvæðin um Alþ. Þessi ákvæði og kosningalögin reka á eftir og eru það sem allir flokkar munu komast að raun um að brennur á baki þeirra af hálfu kjósenda víða um land a. m. k. — að gera breyt. á, og þá vonandi slíka breyt. að ekki þurfi æ ofan í æ á nokkurra kjörtímabila fresti að hrófla við þessum ákvæðum á ný. Ég er þeirrar skoðunar, að þar beri að leggja allt kapp á að finna leið sem geti tryggt að kjördæmaskipunin leiðréttist af sjálfvirkum ákvæðum eftir því sem tímar líða, eftir því sem búseta og þjóðfélagshættir áskilja, en ekki þurfi sí og æ að efna til stjórnarskrárbreytinga með öllu því umstangi sem því fylgir, ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þar þurfi lagfæringa og umbóta við.

Ég vil í þessu sambandi taka undir þau ummæli hv. 2. landsk. þm., að það er að mínum dómi fyrst og fremst hin meiri háttar efnislegu grundvallarákvæði um Alþ. og störf þess, sem eðlilegt er að nefndin, sem gert er ráð fyrir í þáltill. á þskj. 641. taki fyrir, en ekki smáatriði í þingsköpum. Það er hárrétt athugað hjá hv. þm. og undir það tek ég.