02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4306 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum síðasta ræðumanns vil ég að það komi fram, að ég hafði óskað eftir því við forseta Sþ.,umr. yrði ekki slitið, heldur frestað og þess freistað að ná samkomulagi við formenn þingflokka um vinnubrögð hvað snertir endurskoðun stjskr. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að blanda mér inn í þessar umr., sem hér hafa farið fram í dag.

Ég vil þó aðeins láta það koma hér fram, að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj. kemur það fram, að unnið skuli að endurskoðun stjskr. á kjörtímabilinu, en í því fólst ekki loforð um að þeirri endurskoðun yrði lokið. Núv. ríkisstjórn var það vel ljóst, að reynslan sýndi að ekki hefur verið auðhlaupið að því verki að ljúka endurskoðun stjskr., og því vildi hún ekki fyrir fram ábyrgjast að þessari endurskoðun yrði lokið á stjórnartímabilinu eða kjörtímabilinu, þótt unnið skyldi að þeirri endurskoðun. Ég hef áður lýst því, að það eru mér vonbrigði, að eigi hafi unnist betur í stjskrn. en raun ber vitni um.

Hvað hitt atriðið snertir, þær yfirlýsingar sem nefndar voru hér í upphafi þings, skal ég aðeins segja að fulltrúar voru tilnefndir af hálfu stjórnarflokkanna til viðræðna. Vera má að þær viðræður hafi ekki komist í gang nægilega fljótt eða orðið eins ítarlegar og æskilegt hefði verið. Má vissulega kenna stjórnarflokkunum um það. En þar á móti verður þá einnig að segjast að áhugi annarra þingflokka hefur verið takmarkaður þar sem ekki var eftir þeim viðræðum gengið frekar en raun ber vitni. Þetta er liðin tíð og skiptir ekki öllu máli að deila um það sem liðið er, heldur hitt, að reyna að ná samstöðu um málsmeðferð nú í lok þessa þings þannig að starf að endurskoðun stjskr. og endurskoðun kosningalaganna geti hafist og borið árangur.