02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4307 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það var aðeins af því, að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson beindi sérstaklega fsp. til forsrh. og mín, sem ég óskaði eftir því að segja nokkur orð, en ekki af því að ég ætli að fara að tefja umr. um þetta mál.

Ég vil segja það, að ég er alveg sama sinnis í þessum efnum og ég var í þessum sjónvarpsþætti, sem hv. þm. mun nú hafa á spólu og þar með alveg örugglega hægt að heyra hvað hver sagði við það tækifæri. Ég álít að það verði að gera endurbætur á kjördæmaskipan eða kosningafyrirkomulagi, ef menn vilja nefna það því nafni, en það, sem í raunveruleikanum þarf að gerast, er að sá landshluti, sem til sín hefur safnað miklum mannfjölda á suðvesturhorni landsins, verður að fá fleiri fulltrúa.

Þetta er mín skoðun og mín stefna og fyrir henni mun ég berjast, ef ég hef aðstöðu til. Með hvaða hætti það á hins vegar að vera er ekki eins einfalt mál og sumir vilja vera láta. Það má segja að eðlilegt sé að færa þá þm., sem úthlutað hefur verið á hlutfallstölu, til þessara fjölmennustu kjördæma. En það er þó svo, að gæta þarf að ýmsu í því sambandi. Það er að mínum dómi a. m. k. alveg óverjandi að koma aftan að þeim mönnum, sem hafa farið í framboð í þeim kjördæmum sem geta gefið von um slík sæti, og það eftir að framboð hafa verið ákveðin þar og í mörgum tilfellum með prófkjörum. Þess vegna verður að játa að þrátt fyrir góðan ásetning í haust um að breyta þessu, þá höfum við orðið of seinir á okkur, og þess er ekki kostur að mínum dómi að fara að breyta þessu þegar í eindaga er komið og búið að ákveða framboð yfirleitt.

Ég tel alveg óþarfa að vera að varpa steini að stjskrn. Ég vil ekki og hef enga löngun til að skjóta mér á bak við hana. Ég tel að stjórnmálaflokkarnir hafi haft þau ráð, að þeir hefðu getað ýtt betur á ef þeir hefðu verið ákveðnir í að gera það. Og ég vil ekki skorast undan neinni ábyrgð í því efni. Þess vegna er það vitaskuld við — ja, við getum sagt stjórnarflokkana að sakast og kannske einnig við stjórnarandstöðuflokkana, af því að þeir hafa ekki heldur verið mjög ýtnir í þessu efni. Við skulum líka, eins og hér hefur verið rifjað upp, minnast þess, að það hafa starfað stjórnarskrárnefndir á undan þessari, og sumar hverjar starfað eða verið til öllu lengur en 6 ár, án þess að það hafi legið mikið eftir þær. Það er ekkert óeðlilegt, þó að það sé vandaverk að ákveða það þegar verið er að setja toppramma um pólitíska starfsemi í landinu og á Alþ., þó að það sé ekki alveg hlaupið að því. Og það er auðvitað mál, að við getum ekki ætlast til þess, að fulltrúar, sem í stjskrn. eru kosnir af flokkum, fari upp á sitt eindæmi að fitja í þeim efnum upp á leiðum. Þeir munu auðvitað hafa samband og samráð við sína flokka þegar þeir taka afstöðu til slíkra mála. Annað væri óeðlilegt. Hitt er aftur allt annað mál, sem skotið hefur hér upp kollinum og var minnst á af hv. þm. Benedikt Gröndal, að það er svo sem ekki ný hugmynd, að rétt sé að fela mönnum utan þingsins að fást við þessar aðgerðir. Það er auðvitað hægt. Með stjórnarskrárbreytingu er hægt að gera samþykkt um sérstakt stjórnlagaþing og fela því stjórnlagaþingi að setja nýja stjskr. En ég á eftir að sjá framan í þá hv. alþm. sem afsala sér valdi sínu í hendur sérstaks stjórnlagaþings. Það getur verið, að síðar meir eigi eftir að skipa þessa þingbekki svo miklir „idealistar“ að þeir verði reiðubúnir til þess. Ég fyrir mitt leyti hef ekki mikla trú á því.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta. Ég tel þörf á breytingum á stjskr. Ég tel þörf á breytingum í þessum efnum sem minnst hefur verið á. Ég tel líka þörf á breytingum á skipan Alþingis að því leyti til, að það hefur alltaf verið mín persónulega skoðun, sem hefur orðið sterkari með hverju árinu sem ég hef kynnst starfsháttum Alþingis betur, að það er auðvitað ekkert vit, það er ekki snefill af viti í deildaskiptingu lengur. Hún á að hverfa og hér á að starfa þing í einni málstofu. Og það eru einnig fleiri atriði sem þarf að taka til íhugunar, — atriði sem líka hafa pólitíska þýðingu, því að við skulum ekki gleyma því, að deildaskiptingin, þó að sjaldan reyni á hana, getur haft sína pólitísku þýðingu, og menn verða þá að gera það upp við sig, hvort þeir telja eðlilegt að svo sé eða ekki, að 1/3 þm. eigi að hafa „teoretískt“ sama vald og 2/3, sem kosnir eru með alveg nákvæmlega sama hætti, fyrir nú utan vinnubrögðin á Alþ. sem þetta skapar og eru að mínum dómi orðin fyrir neðan allar hellur, og ætla ég ekki að kveða sterkar að orði um það.

Ég skal láta máli mínu lokið. En það, hvort þessi stjskrn. er leyst frá störfum nú í þinglokin eða hvort endurskipun þeirra mála er látin bíða næsta Alþingis finnst mér út af fyrir sig ekkert höfuðatriði.