02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tel, að sú rökstudda dagskrá, sem hér liggur fyrir um frávísun þessarar þáltill. um athugun á úrbótum í flugsamgöngum við Vestfirði, sé í alla staði óeðlileg. Það er beinlínis rangt, sem fullyrt er í hinni rökstuddu dagskrá n., að í umsögn flugmálastjóra komi fram, að þegar hafi verið ákveðið, að sú athugun, sem þáltill. gerir ráð fyrir, verði framkvæmd. Ekkert slíkt kemur fram í bréfi flugmálastjóra. Nú hefur það gerst, að við atkvgr. hefur komið fram nýtt bréf, upp lesið af hv. formanni allshn., hv. þm. Ellert B. Schram. Hann segir að þar sé fastar að orði kveðið um að þetta verði gert. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu embættismanna tel ég á engan hátt eðlilegt að vísa þessari þáltill. frá. Það er í fyllsta máta eðlilegt, að þing vilji liggi fyrir og sé að baki þessari athugun, þannig að fulltryggt sé, að hún verði framkvæmd. Þessi till. allshn. um að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá er því í hæsta máta óeðlileg og á hæpnum forsendum fram borin, vafasamt að hún sé með þinglegum hætti. Ég segi því nei.