02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár í hv. Ed. af þessu tilefni: Okkur alþm. hefur í dag borist bréf, sem ekki verður hjá komist, þó í miklum önnum sé, að taka fyrir til umr. og fá um vissar yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. Það er um að ræða bréf skrifað fyrir hönd hagsmunasamtaka starfsmanna Orkustofnunar. Þessir sömu aðilar hafa rætt við allmarga þm. Þeir hafa gefið þm. þær upplýsingar m. a., umfram það sem stendur í þessu bréfi, að hér sé um mál að ræða, sem snerti starfsframtíð fjölmargra núverandi starfsmanna Orkustofnunar, þ. á m. 27 sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, sem Orkustofnun sinnir. En bréfið felur einnig í sér beinar fullyrðingar um að fjármagni, sem ráðstafað hefur verið af fjvn. og Alþ. til vissra verkefna, hafi þegar verið ráðstafað til allt annarra hluta. Síðast, en ekki síst eru þar beinar fullyrðingar um ákveðin rannsóknarverkefni, sem niður muni þá falla á árinu eða hljóti að verða skert verulega að öllu óbreyttu. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréfið orðrétt. Það hljóðar svo, og er stílað í Reykjavík 1. maí 1978:

„Reykjavík, 1. maí 1978. Hr. alþingismaður.

Bréf þetta er ritað vegna mjög alvarlegs ástands, sem skapast hefur í málum Orkustofnunar undanfarið. Árlega fær Orkustofnun framlag á fjárlögum íslenska ríkisins til þess að standa straum af rannsóknum á orkulindum landsins. Fé það, sem hér um ræðir, er ætlað í viss verkefni víðs vegar um landið. Gerð er grein fyrir þessum verkefnum í rannsóknaráætlun stofnunarinnar, sem liggur fyrir fjvn. Alþ. þegar n. tekur ákvörðun sína um fjárveitingu til þeirra verkefna sem hún vill að framkvæmd séu á viðkomandi ári.

Undanfarið hefur fjárhagsstaða Orkustofnunar verið mjög slæm og vanskilaskuldir hafa safnast upp vegna framkvæmda Orkustofnunar við Kröfluvirkjun, en kostnaður vegna gufuveitu og borana hefur farið mjög fram úr áætlun. Þessi verk, sem eru hluti af Kröfluvirkjun, hefur Orkustofnun framkvæmt að boði ríkisstj., sem síðan hefur ekki útvegað nægt fé til framkvæmdanna. Til þess að borga hluta þessara vanskilaskulda hefur að undirlagi fjmrn. verið seilst í fjárveitingu Orkustofnunar á fjárl., sem fjvn. og Alþ. ætla til rannsókna á orkulindum landsins á árinu 1978. Í jan. og febr. 1978 tók fjmrn. 30 millj. kr. af fjárveitingu Orkustofnunar, hluta af því með samþykki iðnrn. Fyrir fáeinum dögum tók þó steininn úr, er fjmrn., með samþykki ríkisstj., tók 150 millj. kr. til viðbótar af fjárveitingu stofnunarinnar til þess að borga áður nefndar skuldir, sem óumdeilanlega eru hluti stofnkostnaðar Kröfluvirkjunar og því óviðkomandi rannsóknaráætlun Orkustofnunar. Alþ. hafði samþykkt að þessu fé yrði varið til ákveðinna verkefna í flestum kjördæmum landsins í sambandi við jarðhita-, vatnsafls- og neysluvatnsrannsóknir, sem nú munu óhjákvæmilega falla niður að mestu eða öllu leyti. Augljóst er, að sérhver dráttur á rannsókn innlendra orkulinda hlýtur að hafa í för með sér seinkun á nýtingu þeirra á meðan verð innfluttrar orku fer stöðugt hækkandi.

Meðal þeirra fjölmörgu verkefna, sem óhjákvæmilega munu falla niður, ef ekki fæst leiðrétting mála, eru:

1. Vatnsorkurannsóknir. Þar undir falla rannsóknir á Austurlandi, á Vestfjörðum og í Skagafirði, a. m. k. mikill hluti rannsókna vegna Blönduvirkjunar og uppsetning vatnshæðarmæla vegna hugsanlegra virkjana í náinni framtíð, t. d. á veitusvæði Bessastaðaár, í Vatnsdalsá á Barðaströnd og í efri hluta Markarfljóts. Auk þess eru fjölmörg smærri verkefni, sem ekki eru síður mikilvæg.

2. Jarðhitarannsóknir. Þau verkefni, sem til greina kemur að skera niður að verulegu eða öllu leyti, eru:

1) Jarðhitaleit á Vestfjörðum, Eyjafirði, Suðurlandi, Snæfellsnesi og í Borgarfirði, 2) úrvinnsla eldri gagna dregst verulega og tefur því áframhaldandi rannsókn á hverjum stað, 3) verulega mun draga úr borholumælingum og eftirliti með borholum, 4) jarðefnafræðistarfsemi Orkustofnunar, sem aðallega er vegna rannsókna á heitu vatni, leggst nánast niður.

3. Neysluvatnsrannsóknir. Neysluvatnsleit og neysluvatnsrannsóknir jarðkönnunardeildar Orkustofnunar munu sjálfkrafa falla niður, þar sem nær öllum starfsmönnum deildarinnar verður sagt upp, ef fjárhagsvandinn leysist ekki.

Af þessari upptalningu má sjá, að starfsemi Orkustofnunar verður gersamlega lömuð þetta árið og mikil hætta er á því, að segja þurfi upp tugum starfsmanna sem flestir hafa yfir að ráða sérþekkingu á ýmsum sviðum orkurannsókna. Á tímum hækkandi orkuverðs í heiminum er rannsókn og nýting innlendra orkulinda eitt mikilvægasta verkefni sem vinna þarf hér á landi. Eru því þær aðgerðir fjmrn., sem að ofan hefur verið lýst, óskiljanlegar og stangast algerlega á við ummæli forsrh. í útvarpsumr. s. l. fimmtudagskvöld, en þá sagði hann:

„Virkjun fallvatna verður að halda áfram og beisla þarf aðrar orkulindir til að efla undirstöður vaxandi iðnaðar og draga úr notkun erlends eldsneytis. Innlenda verk- og tækniþekkingu verður að efla og veita fjármagni til nauðsynlegra rannsókna, áður en í stór og smá verkefni er ráðist.“

Og önnur tilvitnun: „Vel menntuð æska er ótæmandi auðsuppspretta og ekki síst verður hún að finna kröftum sínum viðnám í verðugum verkefnum.“

Starfsmenn Orkustofnunar skora á alþm. að láta ekki taka fram fyrir hendur sér og að þeir láti ekki viðgangast að embættismenn fjmrn. ráðskist án alls samráðs við Alþ. með fjárveitingar þingsins og verji þeim til annarra framkvæmda en Alþ. hafði ætlast til.“

Undir þetta bréf skrifa svo fyrir hönd hagsmunasamtaka starfsmanna Orkustofnunar Birgir Jónsson, Heimir Sigurðsson, Ásgrímur Guðmundsson, Hákon Helgason, Guðrún Gísladóttir og Jón Ingimarsson.

Hér er um mjög alvarlegar fullyrðingar að ræða sem ég hef hvorki ástæðu til þess að vefengja né hef heldur fengið tækifæri til þess að staðfesta. Hér er um að ræða, samkv. þeim upplýsingum sem ég veit að hefur þegar verið komið á framfæri við marga alþm., mjög alvarlegt mál, ef svo margir færir og sérhæfðir sérfræðingar eiga nú að hrekjast frá Orkustofnun þegar sífellt er að því vikið að nauðsyn sé aukinna rannsókna og athugana á orkulindum okkar.

Fyrir mig sem Austfirðing eru fullyrðingar af þessu tagi, sem koma fram í bréfinu, ef sannar reynast, ákaflega alvarlegar, því að þar er beinlínis sagt að það, sem nú hefur verið gert, geti orðið til þess að allar rannsóknir á Austurlandi falli niður, en einmitt hafa verið gefin fyrirheit um aukið fjármagn til rannsókna eystra þannig að fullnaðarhönnun Fljótsdalsvirkjunar megi ljúka á árinu, og mætti eflaust á ýmis önnur vatnsorkurannsóknarverkefni benda með jafnmiklum rétti.

Hér er um alvarlegt mál að ræða einnig, ef rétt reynist, vegna þess hvernig hið svokallaða olíugjald, þ. e. a. s. söluskattsstigið sem átti að fara í niðurgreiðslur til hins almenna neytanda, hefur verið skert einmitt til hans vegna þess að orkurannsóknir og verkefni á því sviði orkumála þyrftu á því fjármagni að halda, en það mun vera nú til neytanda aðeins um 30% af þessum tekjum á söluskattsstiginu eða rétt innan við það. Og allt kallar þetta svo á spurninguna um lögmæti slíkra ákvarðana um ráðstöfun í öðru skyni á fjármagni til framkvæmda sem fjvn. og Alþ. hafa ákveðið, ef þessar upplýsingar og fullyrðingar reynast réttar.

Í tilefni þessa bréfs, sem án efa verður kynnt í fjölmiðlum og er full ástæða til þess að taka fyrir strax og fá um skýr svör, vil ég beina því til hæstv. forsrh. um leið og hann svarar meginefni þessa bréfs, svo sem ég tel fulla nauðsyn á, að hann lýsi því hér yfir, að ekki verði vikið frá áður teknum ákvörðunum um ráðstöfun fjármagns Orkustofnunar til vatnsorkurannsókna, til jarðhitaleitar og neysluvatnsrannsókna, þ. e. a. s. fjármagnið verði veitt til þess sem ákveðið hafði verið, en ekki notað til allt annars, eins og fullyrt er í þessu bréfi. Ég hlýt að undirstrika það auðvitað, að ég tel það ólöglegt ef fjárveitingar eru samþykktar til ákveðinna verkefna, en svo nýttar til allt annarra hluta án samráðs við fjvn. og Alþ. Ég vona að hæstv. forsrh. gefi yfirlýsingu sem taki af öll tvímæli í þessu efni.