02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir þau ummæli hv. þm. Helga Seljans, að ég hafði vænt mér skýrari svara af hálfu hæstv. forsrh. við ýmsum þýðingarmiklum atriðum bréfs þess sem starfsmenn Orkustofnunar afhentu alþm. í dag. Mér er að vísu ljóst að hæstv. forsrh. fékk ekki þetta bréf í hendur fyrr en núna eftir hádegið, en ljóst var af ummælum hans aftur á móti, að honum voru þessi fjárhagsvandræði Orkustofnunar ljós. Honum var það ljóst, að ráðstafað hafði verið 180 millj. af þeim fjárveitingum, sem Alþ. hafði samþykkt til Orkustofnunar til hinna ýmsu rannsóknarstarfa og undirbúningsstarfa, og af þessari ráðstöfun hlutu að fylgja mjög alvarleg vandræði fyrir stofnunina eims og fjárhag hennar var að öðru leyti komið.

Orkumálaráðh., hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen, er því miður fjarverandi þessar umr. En velllestar þær spurningar, sem við beinum nú til hæstv. forsrh., hefðu átt að eiga leið í gegnum hlustir hans inn til ríkisstj. Ég mun því ekki sveigja að hæstv. iðnrh. í þessu sambandi umfram það að gera því skóna, að kannske væri rétt fyrir hæstv. forsrh. að nota einmitt þessa daga, þegar hæstv. iðnrh. er erlendis, og leysa þau stórfelldu vandamál sem hlaðist hafa upp í iðnrn. á þeim fjórum árum sem núv. iðnrh. hefur setið þar á valdastóli.

Ég vil aðeins víkja að þeirri aths. hæstv. forsrh., að e. t. v. væri, þrátt fyrir þetta ástand sem lýst er í fyrrnefndu bréfi og hæstv. forsrh. ber út af fyrir sig ekki brigður á að svo slæmt sé, — þrátt fyrir það sé e. t. v. ekki ástæða til þeirrar svartsýni, sem fram kemur í bréfinu, að rannsóknir í svo fjölmörgum þýðingarmiklum greinum sem þar segir frá muni beinlínis falla niður. Ástæðan fyrir þessari svartsýni kemur ljóslega fram í því og er kirfilega rökstudd með því, að nú liggur það fyrir, að 45% af starfsmönnum Orkustofnunar er vísað, að sönnu efalaust með löglegum hætti, úr starfi óbeint með þeim hætti að þessum 30 starfsmönnum er boðið að undirrita ráðningarsamning til þriggja mánaða með fyrirvara um að hann gildi ef séð verði fyrir fjármunum til þess að borga launin þeirra og til þess að sjá þeim fyrir verkefnum. Mér er kunnugt um að a. m. k. ýmsir af þessum 30 starfsmönnum, — það skal tekið fram að þarna er um að ræða hina yngstu og óþreyttustu starfsmenn Orkustofnunar, hvaða nafn sem gefa má ráðningu þeirra, — ýmsir þeirra eru þeirra skoðunar, að hinn skilorðsbundni ráðningarsamningur til þriggja mánaða jafngildi raunverulega lagalega því, að þeir leggi sjálfir inn afsögn um starfið. Þeim, sem ekki undirrita slíkan ráðningarsamning með slíkum fyrirvörum, verður sagt upp. Eftir sitja í ýmsum deildum Orkustofnunar deildarstjórar einir saman til þess að annast þessar rannsóknir, sem hæstv. forsrh. var að óska áðan að hægt yrði að framkvæma eigi að síður, upp á hundruð millj. kr.

Svo að vikið sé aðeins að því sem varðar rétt þessara starfsmanna. Velflestir þessara starfsmanna, eða 27 þeirra, eru sérfræðingar sem allflestir hafa sérhæft sig í ýmsum greinum þeirra vísinda, sem lúta að nýtingu jarðvarma, vatnsafls og ferskvatnsnýtingu, í fullu trausti þess og beinlínis samkv. óskum innlendra yfirvalda um að þeir legðu þessa sérgrein fyrir sig, vegna þess að viðfangsetni eru ærin í landinu og nóg að vinna, ef rétt er á haldið. Í trausti slíkra beiðna um að þeir legðu út í dýrt og langt sérgreinarnám, fóru þeir út í slíkt nám. Í trausti þess réðust þeir síðan til starfa hjá Orkustofnun. Ég get getið þess, að í þessum hópi er m. a. einn verkfræðingur sem lagði í það þrjú ár af kappsfullri vinnu að sérhæfa sig í því að rannsaka orsakir á tæringu og útfellingum í hitavatnsrörum. Hann er einn af þeim í þessum hópi sem nú eru settir þessir kostir um starf framvegis í þágu stofnunarinnar.

Ég held að það, sem nú þurfi að gera, sem við þurfum að óska af hæstv. forsrh. nú, sé það, að hann gefi einhvers konar fyrirheit um að ráðin verði bót á fjárhagsvanda Orkustofnunar, sem ég er alveg viss um að hæstv. forsrh. hefur fullan hug á, — ráðin verði bót á fjárhagsvanda Orkustofnunar með þeim hætti að þessir 30 starfsmenn eða nær helmingur af starfsmönnum stofnunarinnar, allir yngstu og frískustu sérfræðingar hennar, þurfi ekki að hætta störfum, hann gefi einhvers konar fyrirheit um að vandi Orkustofnunar verði leystur þannig að ekki þurfi að segja þessum mönnum upp störfum.

Það væri ákaflega æskilegt að hæstv. forsrh. upplýsti okkur um það í fyrsta lagi, hvar hægt sé að finna heimildir þær sem Orkustofnun hafði til þess að ráða fleiri sérfræðinga til starfa heldur en fyrirmæli fundust um hjá fjárveitingavaldinu. Enn fremur það, hvaðan orkustofnun hafði heimildir eða ella hvaðan Orkustofnun fékk fyrirmæli um að inna af höndum greiðslur eða takast á hendur skuldbindingar varðandi framkvæmdir við Kröflu fram yfir það sem fjárhagur stofnunarinnar leyfði, hvort þetta er uppáfinning stjórnar Orkustofnunar eða hvort hér var verið að láta að kröfum sem koma annars staðar frá.

Ég dreg ekki í efa að hæstv. forsrh. sagði okkur satt frá því, með hvaða hætti þessi tilfærsla af peningum frá Orkustofnun,180 millj., fór fram, þótt ég í fávisku minni um meðferð hinna æðri fjármála fengi það einhvern tíma á tilfinninguna að þarna hefði verið um einhvers konar tékkaskipti að ræða, svo sem fræg hafa nú orðið í kaupsýsluheiminum annars staðar. En tilgreind afleiðing af þessari fjármunatilfærslu er sú, að nú er búið að skrifa 30 starfsmönnum Orkustofnunar bréf og þeim sagt að annaðhvort skrifi þeir undir skilyrtan ráðningarsamning til þriggja mánaða ellegar þeir verði að sæta uppsögn úr starfi. Þetta er afleiðingin af þessari meðferð fjármála Orkustofnunar. Ljóst var af orðum hæstv. forsrh„ að þar væri ekki um að kenna yfirstjórn Orkustofnunar, heldur hefðu þær ákvarðanir verið teknar af hæstv. iðnrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. með samþykki allrar ríkisstj. Ég ítreka að það hvarflar ekki einu sinni að mér að efast um að hæstv. forsrh. hafi fullan vilja til þess að leysa þennan vanda, — það hvarflar ekki einu sinni að mér. En ég vil vekja athygli á því, að þessir 30 menn, sem nú mun annaðhvort verða sagt upp störfum ellegar þeir verða tilknúnir að undirrita skilyrtan samning, sem ýmsir þeirra telja sjálfir að jafngildi því að þeir segi sjálfir upp starfi ef í það fer, — þessir menn verða að sjá sér farborða á annan hátt. Sumir hverjir verða kannske að leita sér að vinnu á alþjóðlegum markaði og þeir, sem frískastir eru til verka og kunna svolítið til þeirra, eins og ýmsir námsmenn hafa lært á liðnum árum, guði sé lof, verða kannske að reyna að koma sér á skuttogara. Þeir verða ekki tiltækir e. t. v. til þess að hlaupa í þessi störf aftur til Orkustofnunar strax og nefndin, sem hæstv. forsrh. tilgreindi áðan, hefur lokið störfum, hvenær svo sem það verður. Hér er um það að ræða, að við erum að missa þessa verðmætu starfskrafta út úr höndunum á okkur. Því tel ég ákaflega eðlilegt að fara þess á leit við hæstv. forsrh., ekki að hann gefi loforð sem hann viti ekki hvernig eigi að efna, ég hygg að hvað sem um hæstv. ráðh. hefur verið sagt hætti honum ekki mjög mikið til slíks, heldur gefi yfirlýsingu um að þessi vandi, sem augljóslega er aðkallandi og við hljótum að leysa; verði leystur með þeim hætti, að þeir geti treyst því að þeir haldi áfram störfum, þessir menn sem við þurfum á að halda, að losa þá við ugginn um að þeir muni nú í þessari flækju og í þessu millibilsástandi missa starfið sitt, fá þá til þess að trúa því, að þeim sé óhætt að doka við þangað til málin verða komin í það horf að lausnin á þessum efnahagsvanda sé fyrirsjáanleg. Ég efast ekki um að ríkisstj. þurfi að fjalla frekar um þetta mál, en ítreka sem sagt aðeins þessa ósk til hæstv. ráðh., að hann athugi það nú þegar á stundinni, — ég geri ráð fyrir því að hann viti það þegar, að þetta mál verði að leysa, — að þetta mál verði leyst, hvort hann geti ekki gefið slíka yfirlýsingu núna til þess að róa þessa ágætu starfsmenn og draga úr líkunum á því að við missum þá.