02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4324 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er alveg ljóst, að fyrir þingið hafa komið nú síðustu daga og vikur mörg mjög stór mál. Þetta er ekki meðal þeirra stærstu e. t. v., en allstórt mál. Því hefur verið svo háttað, að ég veit, að það munu hafa verið boðaðir sameiginlegir fundir um þetta mál, en hins vegar hefur það verið svo, að í þeim tilfellum sem það hefur verið gert, a. m. k. vissi ég til þess í einu tilfelli, hefur það rekist á við fundi fjh.- og viðskn. þingsins, sem hafa verið að vinna í mjög mikilvægu máli. Ég hef þess vegna ekki átt þess kost að fá nægilega innsýn í þetta mál. Mér er ljóst að það er orðinn lítill tími eftir af starfi þingsins, en hins vegar tel ég nauðsynlegt að við fáum nauðsynlegar upplýsingar í heilbr.- og trn. Ed.

Þetta mál snertir hvern einasta þm. hér í deildinni. Það er ljóst, að t. d. í Austurlandskjördæmi hafa lengi legið fyrir óskir um að í læknishéraðinu Eskifjörður — Reyðarfjörður, en það er mjög nálægt því að muni búa þar um 2000 manns, yrði H 2 stöð. Þessir aðilar hafa ítrekað leitað með það mál til okkar þm. Austurlandskjördæmis. Þar sem hér er um mjög stórt svæði að ræða og fjölmennt finnst mér eðlilegt, að á þessu svæði verði H 2 stöð. Þess vegna vænti ég þess, að við hv. þm. Helgi Seljan munum beita okkur fyrir því að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við meðferð þessa máls.

Síðan er ýmislegt fleira, sem snertir okkur í sambandi við þessa skipan mála. M. a. er nokkuð óljóst hvernig skuli háttað með Skeggjastaðahrepp. Hann tilheyrir Austurlandskjördæmi, en ætlunin mun að þjóna honum áfram frá Þórshöfn. Þetta er, að einhverju leyti a. m. k., tiltölulega erfitt atriði á mörkum kjördæma þar sem eru mjög stór svæði, eins og t. d. Skeggjastaðahreppur og fleiri svæði. Fyrir suma íbúana er styttra á Þórshöfn og fyrir aðra er styttra á Vopnafjörð. Þetta sama vandamál er líka í Öræfum — fyrir suma íbúana er styttra á Kirkjubæjarklaustur og fyrir aðra á Höfn í Hornafirði. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að það sé ekki tekið bærilega á móti þessu fólki ef það kemur á aðra heilsugæslustöð en tilheyrir þeirra umdæmi, en þetta er atriði sem þarf að gera ráð fyrir, að menn séu ekki alveg rígbundnir í þessa skipan og fólk geti leitað til annarra stöðva sé það þægilegra fyrir það.

Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri, herra forseti, en ætla mér ekki að tefja tímann með því að ræða þetta mál frekar að sinni.