02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fæ nú tækifæri til þess, að vísu mjög stopult og stuttan tíma áreiðanlega, að fjalla um þetta frv. í n. En það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að einn sameiginlegur fundur hefur verið haldinn um þetta frv. og þar skýrðist margt. Hins vegar er þó sá hraði á þessu og öllu og það mikið hér um að vera yfirleitt, að ég hef enn ekki alveg fyllilega áttað mig á því, hvernig frv. lítur út endanlega eftir 3. umr. í Nd., hvort það hafa verið gerðar einhverjar frekari breytingar á því. Það kann að vera að það hafi verið, en ég hef hreinlega ekki fylgst með því. Þar vissi ég að var uppi — (Gripið fram í). Engin breyting gerð, þannig að það er óbreytt eftir 2. umr.? Þá er það sem sagt ljóst, að ýmsar óskir, sem komu fram frá Hjúkrunarfélagi Íslands, hafa þar ekki verið teknar inn í. Ég hef í höndum ljósrit af bréfi til formanns n. okkar, hv. þm. Odds Ólafssonar, frá Hjúkrunarfélaginu um þessi lágmarksatriði sem hjúkrunarfræðingarnir óska eftir að koma inn í heilbrigðislöggjöfina. Ég út af fyrir sig tel eðlilegt að við athugum vandlega í n., hvort ekki er unnt að verða við þeim óskum, því að mér sýnist þarna vera um hreint jafnréttismál að ræða. Ég er sannfærður um að margt í þessu frv. nú er til bóta varðandi þá endurskoðun sem fram hefur farið á þessum mikla lagabálki. Það hefur verið unnið eftir honum allvel og reynt að framkvæma ýmislegt af því, sem í þessum lagabálki er, en auðvitað er margt ógert, sem vonlegt er, í því efni eins og hlýtur að vera þegar um svo viðamikið mál er að ræða. Þó má segja að einmitt þetta, að þessi mál voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og úrbóta, hafi haft í för með sér ákveðin straumhvörf í heilsugæslumálum landsbyggðarinnar í heild. Í stað þess sífellda læknaskorts, sem áður vofði yfir og ríkti, þá hefur þar nú orðið mikil breyting til batnaðar, m. a. vegna þeirra fyrirheita sem í þessum lagabálki fólust og hafa sumpart verið að komast í framkvæmd, en eru sum óframkvæmd að vísu enn.

Nýmæli er í þessu varðandi heilbrigðismálaráðið. Ég naut þess heiðurs á sínum tíma að sitja í heilbrigðismálaráði Íslands, sem það hét, hvorki meira né minna, sem formaður í heilbr.- og trn. þessarar hv. d. Ég vonast til þess að heilbrigðismálaráð hvers héraðs verði virkara og öflugra en þetta heilbrigðismálaráð Íslands, því að ég held að nú sé óvíst um líf þess, hvort það er á lífi eða ekki. Það hefur þó þótt nauðsynlegt, að það sé í frv. í sambandi við þessa ráðgjafarnefnd, að það skuli vera reiknað þar með einhverjum kostnaði. Þá verður kannske farið að starfa eitthvað þegar þar að kemur. Hér er um ráðgjafar- og umsagnaraðila um heilbrigðis- og almannatryggingamál að ræða, og það kann vel að vera, að eftir að ég hvarf úr þessari nefnd — ég hef víst ekki verið boðaður á fund í þessari nefnd eða þessu ráði núna í hálft annað ár — þá hafi það tekið eitthvað til umfjöllunar. En starf þess var sem sagt sáralítið. Ég held að það hafi engu að síður komið fram, að nauðsynlegt hafi verið að koma þessu ráði á. Það hefði bara átt að skapa því víðari starfsgrundvöll en það hefur, og það hefði átt að vera, eins og kom fram á fyrsta fundi þessa ráðs, ekki bara umsagnaraðili, heldur líka ráðgefandi og koma sjálft á framfæri ýmsum atriðum, sem menn teldu þar að máli skiptu fyrir heilbrigðismál í landinu í heild.

Ég verð að segja það, að ég hnýt örlítið um í 7. gr. lið 3.2, þ. e. a. s. þegar heilbrigðismálaráði í hverju héraði eru falin þau verkefni að gera till. og áætlanir um framgang og forgang verkefna á sviði heilbrigðismála í héraði. Það er nú svo, að okkur þm. gengur nægilega illa, finnst mér, að raða þessum verkefnum og ákveða þeim vissan forgang, þó ekki sé farið að deila um það heima í héraði, hvaða staður eigi að vera á undan öðrum þar. Það gengur ansi treglega. Ég hefði í raun og veru a. m. k. viljað fella niður, að lítt athuguðu máli að vísu, þetta orð: „forgang,“ því að ég er hræddur um að þegar menn úr öllu Austurlandskjördæmi koma saman og eiga að fara að raða verkefnum, þá gangi þeim ekki mjög vel, jafnvel þó að svona ágætir menn eigi að skipa þetta ráð eins og gert er ráð fyrir, að finna þessa forgangsröðun. En hvað um það, það er kannske rétt að knýja á um það, að menn taki þarna eðlilegt tillit til — (Gripið fram í.) Jú, það gæti allt eins farið svo, að þar yrði um ýmis sérálit að ræða. Þess vegna hefði ég viljað sleppa þessari forgangsröðun, hafa hana ekki þarna með. En vel kann að vera að við séum á það mikilli þroskabraut varðandi hreppapólitíkina okkar, að það sé alveg óhætt að hafa þetta með og þetta sé einmitt hvetjandi fyrir þessa ágætu fulltrúa að láta hana nú lönd og leið. En ef hún er dáin út, þá er ég illa svikinn.

Ég vil fagna því ákvæði, sem þarna er varðandi viðhalds- og endurnýjunarkostnaðinn, þó að ég telji að þarna sé kannske ekki nógu langt gengið og það megi deila um hvort þarna eigi að vera sömu hlutföll og í sambandi við stofnkostnaðinn. En vissulega er þarna höggvið á hnút, þar sem deilur hafa verið á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig að skyldi staðið með viðhald og endurnýjun. Þarna er þó komin ákveðin regla um 50% og þá aðeins umdeilt, hvort sú regla er rétt eða hvort það eigi að miða við hlutföllin 85:15, eins og er í sambandi við stofnkostnaðinn.

Ég get ekki stillt mig um að koma inn á atriði sem við komum á framfæri nokkrir þm. fyrir ári eða svo, rúmlega ári reyndar, varðandi listskreytingar sjúkrahúsa. Það tilheyrir að vísu öðrum lögum, lögum um skipan opinberra framkvæmda, og verður víst ekki möguleiki á að koma því þarna inn, það veit ég. En því miður gilda aðrar neglur þarna í sambandi við skipan opinberra framkvæmda heldur en varðandi skólamannvirki. Það verður að teljast mjög miður að svo skuli vera, að ekki skuli mega í þessum stofnunum, enn frekar í raun og veru, verja ákveðinni prósentu af fjármagni til vissra listskreytinga. Við vorum svo hógværir í þessu, við þm. sem fluttum þetta, fjórir, sinn úr hverjum flokki, að sú prósenta hefði ekki gert mjög mikið og aðeins verið til þess að sýna lit, en ekki annað.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni varðandi þetta vandamál okkar eystra með Eskifjarðarhérað. Það var uppi á sínum tíma spurning um það, hvort þar ætti að vera H 1 eða H 2 stöð. Þá var staðnæmst við markið 2000. Á sameiginlegum fundi beggja n. með ráðuneytisstjóra kom það fram hjá honum, að enn yrði staðnæmst við það mark. Nú var að vísu vikið frá 2000 íbúa markinu við lagasetninguna með brtt. sem samþykkt var hér á sínum tíma varðandi a. m. k. eitt umdæmi. Hér er um umdæmi að ræða sem er alveg rétt við þessi mörk. En þannig stóð á, að það var dálítið óhæg aðstaða fyrir okkur þm. að standa hart fyrir þessu á sínum tíma, því að héraðslæknirinn þá á Eskifirði taldi heilsugæslu þarna mjög létt verk fyrir einn lækni. Þetta var gífurlegur afkastamaður. — Ég held að hann hafi átt met í afgreiðslu á sjúklingum á sínum tíma, og án efa voru það góðar afgreiðslur. Ég er ekki að segja annað. Það er sjálfsagt gott að læknar séu röskir. — Hann taldi að það væri fásinna að hafa tvo lækna í þessu héraði. En síðan hafa komið ýmsir aðrir læknar þarna sem eru ekki á þessari skoðun og telja nauðsynlegt að þarna séu tveir læknar, þó á hitt megi benda, að nálægðin við sjúkrahúsið í Neskaupstað og heilsugæslustöðina á Egilsstöðum sé að vísu mikil og það sé röksemd sem vegi þarna á móti. En eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson kom inn á, þá hafa sveitarstjórnir þessara hreppa lagt á þetta áherslu og við munum að sjálfsögðu framfylgja því.

Aðeins svo eitt til viðbótar við þessa umr. Á sínum tíma fluttum við hv. þm. Stefán Jónsson till. um ákveðna áætlunargerð í sambandi við sérfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Í 42. gr. þessa frv. er óbreytt ákvæði frá gildandi lögum um að helmilt sé að tengja við ákveðnar sérfræðings- og aðstoðarlæknisstöður við ríkisspítala kvöð um störf við heilsugæslustöðvar, allt að tveim mánuðum á ári fyrir sérfræðinga og allt að fjórum mánuðum fyrir aðstoðarlækna. Nú vil ég ekki um það dæma, hef ekki fengið um það nægilegar upplýsingar, hvernig að þessu hefur verið staðið, hversu mikið þessi heimild í 42. gr. hefur verið notuð. En þó er ég sannfærður um að hún muni hafa verið nýtt að einhverju leyti. Mér þykir ótrúlegt að það hafi ekki verið gert að einhverju leyti. En til þess að reyna að festa örlítið betur, þó ekki verði nú lengra gengið því að það er nýbúið að afgreiða þessa till. okkar með rökstuddri dagskrá í Sþ. vegna þess að einmitt þessi löggjöf liggur nú fyrir þinginu, þá höfum við hv. þm. Stefán Jónsson leyft okkur að leggja fram brtt. um það, að aftan við gr. 42 bætist:

„Heilbrmrn. er skylt að gera árlega áætlun um það, á hvern hátt megi best nýta þessa heimild og dreifa sérfræðiþjónustunni sem mest um landið allt.“

Hér er að vísu um takmarkaða heimild að ræða og alls ekki fullnægjandi miðað við það markmið sem við vorum með í þáltill. okkar, en engu að síður væri hér um leið að ræða sem ætti að vera auðvelt að framkvæma. Með árlegri skipulegri áætlun ætti að vera meiri trygging fyrir því, að þessi heimild yrði nýtt, sérstaklega varðandi sérfræðingana, sem ég reikna nú ekki með að séu neitt sérstaklega áfjáðir í að vera sendir í þessa „útlegð“, sem þeir kalla, út á landsbyggðina. En ég held að það sé rétt að nýta heimildina til fullnustu og vorkenni sérfræðingunum ekki að starfa við heilsugæslustöðvarnar úti á landi frekar en þeir virðast lítt vorkenna fólki að koma ótal ferðir hingað suður á þeirra fund, sumar af þörf, aðrar algerlega að óþörfu.