02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4327 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir að hafa komið með þessar breytingar á hinu nýja lagafrv. um heilbrigðisþjónustu, enda þótt ég neiti því ekki, að við hefðum gjarnan viljað sjá það svolítið fyrr, þannig að við hefðum haft meiri tíma til þess að athuga og huga að svo mikilvægu máli.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni er þetta mál sem varðar alla þm. og alla þjóðina. Hér er margt til bóta, og ég verð að segja það, að þótt ég ræki heilbrigðismálaráðum, sem gerð er till. hér um, heldur fálega í fyrstu — mér fannst að þetta nýmæli gæti ekki orðið að miklu liði — þá býst ég við við nánari athugun að þetta gæti orðið upphaf að nánu samstarfi á milli héraða innan hvers kjördæmis og gæti þannig gert sitt mikla gagn. Og ég held að það yrði þá fyrst og fremst ef þarna yrði um aukið vald heimahéraðanna að ræða, þannig að ráðin fengju ekki eingöngu heimild til þess að skipuleggja og gera till. um stjórnun, heldur fengju þau framkvæmdavald, fjvn. hætti að deila niður aurunum sem eiga að fara í hvert kjördæmi, en léti það eftir t. d. heilbrigðismálaráðunum. Með þessu móti væri stjórnin og ráðstöfunin komin út í héruðin. Það held ég að gæti orðið til mikilla bóta. Ég hef ekki trú á öðru en heimamenn mundu geta komið sér saman um forgangsröðun. A. m. k. heyrist manni oft, að þeir vildu gjarnan fá fleiri verkefni heim í héruðin og að það þyrfti ekki að miðstýra öllu frá Reykjavík.

Það er ýmislegt sem ég vildi að nánar væri kveðið á um hér. Hæstv. ráðh. minntist einmitt á eitt atriði í þessu efni, sem er mjög mikilvægt, og það er að heilbrigðisstjórnin mun nú sjá fram á örðugleika með að manna eins manns héruðin þessi litlu héruð úti á landinu. Þetta er og var þegar 1970, þegar verst var ástandið, vandamálið, fyrst og fremst litlu héruðin, þar sem var einn læknir og tiltölulega lítið um að vera, en mikil þörf fyrir þjónustu og kannske mjög miklir erfiðleikar á vetrum. Það er ekki mikið um það í þessu frv., að tekið sé nokkurt sérstakt tillit til sjónarmiða og þarfa þessara litlu héraða. Þetta hafa aftur á móti nágrannar okkar á Norðurlöndunum, a. m. k. Norðmenn, gert á þann veg, að í sínum dreifðu byggðum gera þeir nokkru betur við þá heilbrigðisþjónustustarfsmenn, sem þar starfa, heldur en þá, sem starfa í þéttbýli, t. d. með því að meta þjónustutíma þar lengri en hann raunverulega er. Ef þeir eru tvö ár í héraði fá þeir kannske þriggja til fjögurra ára þjónustutíma sem tekið er tillit til við stöðuveitingar. Þetta byggist að nokkru leyti á þörfinni fyrir að fá starfsfólkið út í héruðin, en einnig á því, að starfsmenn þessir vinna í raun og veru miklu lengri vinnutíma en unninn er í stóru héruðunum, ekki síst læknarnir sem hafa fastar vaktir, og því ekki óeðlilegt að þeir fengju í raun og veru lengri þjónustutíma.

Í öðru lagi er ekki enn þá séð fyrir fjármögnun í þéttbýll hér við Faxaflóa. Í Reykjaneskjördæmi, en þar búa um 48 þús. manns, er núna verið að byggja fyrstu heilsugæslustöðina frá grunni. Ein er reyndar komin hér í Reykjavík. Okkur hefur vantað algerlega fé til þess mikla nauðsynjamáls að byggja upp heilsugæslustöðvar í þéttbýlinu hér.

Ég hef þá trú, að ef við höfum nokkra von um að geta lækkað hlutfallslega kostnaðinn til heilbrigðismála í þessu landi, þá sé það einmitt með því að leggja aukna áherslu á heimilislækningar og lækningar á heilsugæslustöðvum. Þetta er reynsla annarra þjóða. Á þann hátt á að vera hægt að draga mjög verulega úr sjúkrahúsþörfinni. Það er hún sem kostar okkur mesta peninga. Allt er þetta annmörkum háð, það verð ég að viðurkenna, og ég veit að þó að við höfum ekki mikinn tíma í Ed. til þess að sinna þessu frv. munum við sjá til þess að það komist frá okkur, því að við viljum ekki standa í vegi fyrir að þær umbætur, sem hér er um að ræða, komist í not sem fyrst.