02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4334 í B-deild Alþingistíðinda. (3583)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil hér með þakka fyrir það, að mér voru sendar alveg sérstaklega frá hæstv. landbrh. upplýsingar þær sem frsm. landbn. var að skýra frá áðan í sambandi við rekstrarkostnað Stofnlánadeildarinnar. Ég býst við að fleiri en mér hafi brugðið við að heyra þessar tölur, og þó að það yfirlit, sem lesið var áðan, beri með sér að þessi kostnaður við rekstur deildarinnar hafi farið minnkandi á liðnum árum, þá hefur samt sem áður ekki náðst betri árangur en svo, að kostnaður við rekstur þessarar deildar nemur á s. l. ári 12% af öllum útgjöldum og heildarkostnaði Búnaðarbankans, og ég vil undirstrika: með útibúum og öllu saman. Þetta finnst mér allt of há upphæð. Eins vil ég geta í sambandi við þessar upplýsingar, að mér finnst skorta mikið á að upplýsingunum skyldu ekki fylgja upphæðirnar. Ég held að hefði verið betra að átta sig á þessu ef þær hefðu legið fyrir.

Ég hef því miður ekki haft aðstöðu til þess að athuga hvernig er háttað starfsemi annarrar stofnunar sem er líkt ástatt um og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Hér á ég við veðdeild Landsbanka Íslands. Veðdeild Landsbanka Íslands afgreiðir öll lánsskjöl Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Bankinn tekur enn fremur að sér innheimtu á öllum greiðslum til þeirrar stofnunar. Því miður hef ég ekki í fórum mínum tölur um hver kostnaður er við rekstur veðdeildarinnar, en ég fullyrði að hann er langt fyrir neðan 12% af heildarkostnaði Landsbanka Íslands.

Um leið og ég þakka þessar upplýsingar, sem hér hafa séð dagsins ljós, þá sakna ég þess, að upphæðir skuli ekki hafa verið tilgreindar. Ég fer ekki ofan af því, að erfiðleikar Stofnlánadeildarinnar séu að meginstofni til óeðlilega hár kostnaður við rekstur deildarinnar og það sé fyrst og fremst þar sem sé þörf verulegra úrbóta