02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4334 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vildi aðeins nota tækifærið, af því að hæstv. landbrh. er hér í d. og fylgist með umr. og fylgdist einnig með 1. umr. málsins, og beina því til hans, hvort hann sjái nokkra leið út úr þeim vanda sem Stofnlánadeildin stendur í varðandi þann mismun sem er á þeirri áætlunarupphæð, sem er í lánsfjáráætluninni áætluð til Stofnlánadeildar og veðdeildar sameiginlega, og því ráðstöfunarfjármagni sem deildin hefur í raun og veru. Það hefur komið fram í upplýsingum frá forstöðumanni Stofnlánadeildar, Stefáni Pálssyni, að þessi mismunur stafaði m. a. af því, að Seðlabankinn hefði hækkað áætlað framleiðenda- og neytendagjald og mótframlag úr ríkissjóði frá því sem framleiðsluráð hefði ákveðið milli 30 og 40 millj. kr., að þeir hefðu ofreiknað þá hækkun á vöxtum, sem þeir sjálfir fóru fram á að yrði og var samþykkt í Stofnlánadeildinni, ofreiknað hana um 56 millj. kr. a. m. k. og síðan hafi þeir ætlað Lífeyrissjóði bænda 200 millj. til viðbótar við það sem lífeyrissjóðurinn á að leggja Stofnlánadeildinni til. Ekki er spurt að ástæðulausu, því að enn höfum við þessa peninga ekki í sjónmáli og verðum að treysta á að þessi mistök, sem ég tel að þarna séu á ferðinni, verði leiðrétt, að þessi mistök Seðlabankans í sambandi við þessa áætlun verði leiðrétt og við fáum þennan mismun til ráðstöfunar. Að öðrum kosti lítur dæmið þannig út, eins og ég rakti við 1. umr. og ekki þarf að vera að endurtaka hér, að til nýframkvæmda á þessu ári eru aðeins hugsaðar til nýrra hlöðubygginga 280 millj kr., til nýrra gripahúsa — þá á öllu landinu — 60 millj., óbreytt tala verður, og jarðakaupalán eru svo öll óafgreidd þó að ég reikni með því auðvitað að lífeyrissjóðurinn reyni eftir föngum að hlaupa undir bagga, en þá ekki nema að hluta til.

Ég vildi mega óska eftir því við hæstv. ráðh. að hann segði okkur frá því hvað væri þarna efst á baugi núna, hvort við ættum von leiðréttingar á þessu auðsæja ranglæti, sem Stofnlánadeildin er þarna beitt. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á móti þeim skýringum sem forstöðumaður Stofnlánadeildarinnar hefur gefið okkur í stjórn Stofnlánadeildarinnar. Og meðan mótrök eru ekki við þeim skýringum, sem hann hefur gefið, þá trúi ég orðum hans, að þarna sé um mistök og misreikning þeirra seðlabankamanna að ræða, sem ég treysti hæstv. ríkisstj. til þess að leiðrétta.