02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

306. mál, heyrnleysingjaskóli

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var tekið til 1. umr. hér s. l. laugardag. Hélt menntmn. þessarar hv. d. fund að loknum þingfundi og afgreiddi málið shlj., eins og fram kemur í nál. á þskj. 820. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Steingrímur Hermannsson.

Eins og hæstv. menntmrh. tók fram í framsöguræðu sinni er frv. þetta flutt til þess fyrst og fremst að tryggja það, að við Heyrnleysingjaskólann starfi framhaldsdeild er hafi það hlutverk að veita nemendum undirbúning og aðstoð til að afla sér menntunar og þjálfunar í ýmsum starfsgreinum og réttinda til sérnáms í framhaldsskólum eða háskólum. Deildin skal starfa í samvinnu við skóla á viðkomandi námssviði og nánari ákvæði um starfsemi deildarinnar skulu sett í reglugerð, eins og segir í 1. gr. frv. er kveður á um þetta.

Í grg. frv. er svo ítarlegur rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að gera enn betur til þess að sinna þessu verkefni og það rakið, hvað þurfi fyrst og fremst að gera. Ég skal ekki herra forseti tefja tímann með því að vitna í það, það hafa hv. þm. á borðunum hjá sér, en endurtek það, að menntmn. mælir einróma með því, að frv. sé samþykkt.