02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

187. mál, lögréttulög

Frsm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. allshn. á þskj. 777 mælir n. með því, að mál það, sem hér er til umr., frv til lögréttulaga, hljóti samþykki deildarinnar. N. sem heild gerir ekki till. um breytingar á frv., en einn nm. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara þar sem hann hyggst flytja brtt. við frv. Er hún komin fram á þskj. 805.

Svo sem hæstv. dómsmrh. gat um í framsögu við 1. umr. var frv. þetta lagt fyrir hv. Nd. í þinglok á 97. löggjafarþingi, en hefur legið fyrir þessari hv. d. á síðasta löggjafarþingi og nú á þessu þingi. Svo sem fram kemur í nál. hafði allshn. aflað umsagna ýmissa aðila þegar á síðasta þingi og nú einnig á þessu þingi svo og rætt við hæstaréttardómarana Björn Sveinbjörnsson og Þór Vilhjálmsson, sem sæti eiga í nefnd þeirri sem samdi frv. Við athugun á umsögnum þeirra aðila, sem n. hefur leitað til, kemur í ljós að undirtektir við frv. eru almennt jákvæðar, þannig að svo er litið á að samþykkt þess og framkvæmd þeirrar nýskipunar, sem frv. gerir ráð fyrir, að setja á stofn millidómstig, muni bæði stuðla að því að gera dómgæsluna traustari og nútímalegri og að flýta meðferð mála.

Í millidómstigi þessu verða tveir dómstólar, annar fyrir Suður- og Vesturland með aðsetur í Reykjavík, en hinn fyrir Norður- og Austurland með aðsetur á Akureyri. En gert er í 12. gr. frv. ráð fyrir að heimilt sé að stofna til reglulegra dómþinga svo og meðferðar einstakra mála utan aðsetursstaða dómstólanna, annars staðar í umdæmi þeirra, eftir því sem hagkvæmara þykir. Brtt. hv. 3. þm. Vestf. munu víkja að því að herða á þessum ákvæðum.

Svo sem einnig var bent á í framsögu hjá hæstv. dómsmrh. hefur sú breyting verið gerð á frv. þessu frá því sem lá fyrir síðasta þingi, að ekki skuli að jafnaði nema einn dómari fjalla um mál sem lögð eru fyrir lögréttu sem fyrsta dómstig. Þar sem ætla má að þetta sé verulegur hluti af málum þeim, sem lögréttum er ætlað að fjalla um, má ætla að eitthvað færri dómarar þurfi að starfa við lögrétturnar og að útgjaldaauki vegna stofnunar þeirra verði því nokkru minni. Ljóst er að útgjaldaauki muni verða talsverður af stofnun hins nýja dómstigs, en flýtisauki í meðförum mála mun trúlega spara fé, þótt þær tölur séu efalaust vanmældar.

Það er hvort tveggja, að von er til að þessi nýskipan létti nokkru álagi af Hæstarétti og enginn vafi er á að stigið er mikilvægt skref til aðskilnaðar á meðferð dómsvalds og framkvæmdavalds, þar sem öll hin veigameiri mál verða nú lögð beint fyrir þetta dómstig, en ekki fyrir héraðsdóm, sem að fornum sið er samfara meðferð framkvæmdavalds við embætti bæjarfógeta og sýslumanna.

Lagt er til að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.