02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3594)

209. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Jón G, Sólnes):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál á þskj. 771 mælir allshn. þessarar hv. d. með því, að frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. nr. 85 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði, verði samþ. með breytingu sem flutt er till. um á þskj. 772.

Frv. þetta er, svo sem fram kemur í grg. og hæstv. dómsmrh. lýsti við 1. umr., fylgifrv. með frv. til lögréttulaga. Frv. þetta lá einnig fyrir tveim síðustu löggjafarþingum og hefur allshn. fjallað um það samhliða frv. til lögréttulaga.

Frv. þessu hefur verið breytt þannig frá því sem það var á síðasta þingi, að unnt er að samþykkja það eitt sér ásamt fylgifrv., sem getið er í nál. á þskj. 772, þótt frv. til lögréttulaga hlyti ekki afgreiðslu. Í frv. eru ýmis atriði sem eindregið munu verða til flýtisauka við meðferð almennra einkamála og er talinn ótvíræður ávinningur að þeim breytingum.

Brtt. n. á þskj. 772 er að nokkru leyti leiðrétting á orðun málsliðar, en jafnframt eru numin burt ákvæði um aldursmörk um meðdómendur, en látið nægja að hafa almenn hæfnisskilyrði. Lagt er til að brtt. verði samþ. og frv. vísað til 3. umr.